Sigríður Karítas Kristjánsdóttir fæddist 28. mars 1913 á Halldórsstöðum í Kinn. Hún lést á dvalarheimilinu Hvammi, Húsavík föstudaginn 22. janúar sl.

Foreldrar hennar voru Kristján Annas Sigurðsson, bóndi á Halldórsstöðum, f. 1858, d. 1952, og Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja, f. 1875, d. 1937. Sigríður var næstyngst fimm systkina. Þau voru Theódór, f. 1899, d. 1928, Helga, f. 1905, d. 1951, Þórhallur, f. 1907, d. 1981, og Finnur Frímann, f. 1916, d. 1994. Uppeldisbróðir þeirra var Björn Böðvarsson f. 1911, d. 1998.

Þegar Guðrún móðir hennar lést tók Sigríður við húsmóðurhlutverkinu á Halldórsstöðum. Við andlát Kristjáns föður hennar tóku Sigríður og Þórhallur við búinu ásamt Birni, uppeldisbróður sínum. Við fráfall Þórhalls fluttu Sigríður og Björn til Húsavíkur og bjuggu þar til dauðadags, síðustu árin á dvalarheimilinu Hvammi.

Útför Sigríðar fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, fimmtudaginn 28. janúar, og hefst athöfnin kl. 14.

Sigga stórfrænka mín og góð vinkona er dáin. Þar verður til stórt skarð sem erfitt verður að fylla upp í. Ég var tíður gestur hjá Siggu minni, fyrst á Baughólnum hjá henni og Bjössa og síðar hjá þeim á dvalarheimilinu Hvammi. Og eftir að Bjössi dó var það bara Sigga sem ég heimsótti, eða ekkert bara, hún var mér kær frænka og ekki síður vinkona eða eins konar amma kannski.

Alltaf var jafn gott að sjá hana Siggu mína. Við sátum og spjölluðum um allt milli himins og jarðar, stundum í smástund og stundum lengi lengi. En hún gerði aldrei neina kröfu um að maður stoppaði lengi eða kæmi oft. Hún sagði alltaf að henni þætti vænt um heimsóknirnar en tók það jafnframt fram að ég ætti ekki að koma nema ég hefði tíma til þess. Ég hef oft sagt að ég heimsótti Siggu frænku ekki af skyldurækni, heldur af því mér þótti gaman að heimsækja hana og það var ljúft að koma til hennar. Hún var yndisleg kona.

Ég er þakklát fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og þá langar mig sérstaklega að minnast á litlu jólin okkar. Ég held að við eigum næstum 10 litlu jól að baki. Það voru sannarlega góð jól. Á aðfangadag upp úr hádegi var ég mætt í herbergið til Siggu til að aðstoða við að taka upp pakkana og lesa jólakortin með henni. Í pökkunum leyndist oft súkkulaði, já eða sérrí, það þótti okkur gott því við þurftum auðvitað að smakka á þessu öllu.

Sigga mín giftist nú aldrei og hún hafði verulegar áhyggjur af því að ég væri ekki búin að finna mér mann. Og núna fyrir stuttu þegar ég kvaddi hana, hún lá bara uppi í rúmi en sagði þegar ég fór: „Ég bið ekkert að heilsa bóndanum, þú átt víst engan!“ Mér varð orða vant þegar hún skaut þessari snilldarsetningu á mig.

Jæja Sigga mín, núna ertu loksins komin til Theódórs, Helgu, Þórhalls, Bjössa og afa. Ég vona að þau hafi tekið á móti þér með opnum örmum. Takk fyrir allt.

Halla Rún Tryggvadóttir.

„Ég finn hvergi til.“ Þannig svaraði Sigríður frænka mín öllum fyrirspurnum um líðan sína síðustu æviár sín. Raddblærinn og hljómfallið gaf til kynna undrun yfir að allt væri þrátt fyrir allt í lagi og svo var þetta alltaf sagt í hálfum hljóðum, eins og best væri að vekja ekki athygli máttarvaldanna á að þeim hafi sést yfir Siggu þegar algengum raunum eldra fólks er úthlutað.

Og svo var líka stolt í undirtónunum þegar Sigga sagði manni frá ágætu heilsufari sínu.

Sigga var stolt kona. Hún var hreykin af forfeðrum sínum, ættingjum, systkinum og afkomendum þeirra. Sjálf átti hún ekki börn, en stúdentsmyndir af sumardvalarstrákum á Halldórsstöðum áttu ævinlega heiðurssess í híbýlum hennar. Í stofunni heima á Halldórsstöðum, á Baughólnum á Húsavík og að lokum í vistlega herberginu hennar á dvalarheimilinu Hvammi innan um myndir af ættingjum og glæsileg dæmi um handverk fjölskyldumeðlima og hennar sjálfrar.

Sigríður fylgdist vel með sínu fólki og gladdist yfir framgangi þess í heiminum. Fyrir vikið var hún góður hlustandi. Og hún tók vel á móti nýbúum í sinni ætt. Samband hennar við konu mína og dóttur hennar var innilegt frá upphafi og áhuginn einlægur á því sem á daga þeirra dreif. Stoltið náði einnig til þeirra.

Ég man hvernig hún hreyfði sig. Alltaf kvik, allar hreyfingar fullar af orku og lífsgleði. Hvort sem hún var að raka dreif, hræra deig eða bara teygja úr sér vegna þess að hún gat það og naut þess. Þessi eiginleiki hélt áfram að einkenna Siggu þó svo hraðinn og getan minnkaði. Afstaðan var jákvæð.

Ég man hvað hún var flink að hlusta. Sigga var tónelsk og kröfuhörð á tónlist. Mikil var hneykslan hennar þegar óraddaður söngur fór að ryðja sér til rúms í kirkjum. Kannski var það íhaldssemi en mér finnst allt eins sennilegt að hún hafi skynjað kraftaverkið sem samhljómur raddanna er og fundist að þannig sé því réttast að vegsama sköpunarverkið.

Nú er Sigga frænka mín horfin á vit samhljómsins. Og finnur hvergi til.

Þorgeir Tryggvason.

Sigga á Halldórsstöðum var merkisberi hinnar þingeysku hámenningar sem blómstraði á seinni hluta 19. aldar og bar ávöxt í lifandi hugsjón um fagurt mannlíf í sveitum – listiðkun, bústörf og félagslíf í samvinnu þeirra sem deildu jörðinni. Hún skreytti heimili og kirkju með handavinnu sinni, tók þátt í kórastarfi og kvenfélagi, og umvafði hvern einasta viðskiptavin Sparisjóðs Kinnunga með kaffi, góðgjörðum, ástúð, vináttu og hlýju. Hún tók á móti lömbum, mjólkaði kýr, rakaði heyi og ræktaði tré og grænmeti, skrautblóm, rósir og vínvið. Frá henni stafaði ást, fjör og gleði sem laðaði fólk að henni framyfir miðjan tíræðisaldur. Hvílíkur hefur sá þokki ekki verið á yngri árum?

Öll hennar verk hafa á sér myndarbrag gæfukonu sem lagði gott til allra á langri ævi. Á mælikvarða nútímaþjóðfélags er þó margt í lífshlaupi Siggu sem stangast á við væntingar okkar. Hún komst ekki að heiman nema einn vetur til að mennta sig til kvennastarfa á Laugum. Þar vaknaði hrifning á mannsefni úr annarri sveit en skyldur við foreldra voru miklar á þessum árum þannig að heimdraganum var ekki hleypt. Hún var kyrrsett heima og bjó þar uns hún fór með uppeldisbróður sínum Birni Böðvarssyni til Húsavíkur eftir skyndilegt fráfall Þórhalls eldri bróður síns. Þangað fluttu þau myndarskapinn frá Halldórsstöðum með sér og loks áfram inn á heimilið í Hvammi þar sem Húsvíkingar búa öldruðum fagurt ævikvöld.

Sigga missti þannig af flestum þeim tækifærum sem nú teljast sjálfsögð, til menntunar og frelsis um eigin örlög. Hún hvatti börnin sem léku sér í götunni hennar á Húsavík til að láta þetta ekki henda sig heldur taka saman og eignast önnur börn eins fljótt og þau gætu til að pipra ekki eins og hún. Þetta sagði hún um leið og hún hló og faðmaði fólk að sér. Undir bjuggu tregi og sorg yfir missi margra nákominna – systkina, ættingja og ástvina sem dóu langt um aldur fram og Gastons sem hún var ekki fyrr tekin saman við en hann veiktist af liðagigt sem dró hann til dauða. Á eftir öllum horfði hún yfir í sælli veröld og fögnuð sem hún vissi að Drottinn allsherjar hafði búið þeim og biði hennar þegar að því kæmi.

Þegar ég kom inn í líf Siggu fyrir 40 árum sem tíu ára kaupamaður átti hún að því er mér fannst langa og viðburðaríka ævi að baki. Eftir á að hyggja var ævin ekki nema rétt liðlega hálfnuð og Sigga átti eftir að blómstra vel og lengi, ekki síst í nýju kaupstaðarumhverfi eftir að hún varpaði af sér búskyldum. Hennar fyrsta uppeldisverk gagnvart mér í sveitinni var að stappa í mig stálinu að taka sjálfstæða ákvörðun sem hlaut þó að ganga gegn fyrirskipunum móður minnar sem hafði lagt ríka áherslu á að ég væri í ullarnærfötum fyrir norðan. Í þingeysku júníblíðviðri, með 20 stiga hita á hverjum morgni þegar gengið var til fjósverka, hlaut hlýðni við þetta boðorð að verða til mikils ama sem ég þorði þó ekki annað en að láta yfir mig ganga. Líklega hefur Sigga haft dýpri skilning en mig grunaði þá á því hvað það gat verið erfitt fyrir barn að brjótast undan slíku valdi.

Gísli Sigurðsson.

Í síðustu heimsókn minni til Siggu um áramótin mátti sjá að af henni var nokkuð dregið og hún hafði á orði að nú væri víst alveg að slokkna á sér. Gott ef hún sagði þetta ekki hálfhlæjandi. Það var henni líkt.

Þegar við hittumst fyrst fyrir hartnær tuttugu árum var mér strax ljóst að þar fór kona sem talaði tæpitungulaust. Ég kann því vel, sér í lagi þegar meðlætið er jafnframt dillandi húmor og hlýja. Þannig voru mín kynni af Siggu. Það var spjallað um menn og málefni af einurð, hlegið heil ósköp, faðmað og kysst, blessunarorð hvísluð í eyra og jafnvel kölluð á eftir manni langt út á stétt. Undir spjallinu var svo ævinlega boðið upp á ís og ískex, stundum tekin upp dós af blönduðum ávöxtum svona til hátíðabrigða og eitt staup eða tvö af sérríi, sem var ófrávíkjanleg regla.

Ég þakka Siggu móttökurnar og bið henni góðrar ferðar á himinbrautum.

Hulda B. Hákonardóttir.