Eftir Hlyn Orra Stefánsson hlynurorri@mbl.is HEIMSÓKNUM í sundlaugar Reykjavíkur fjölgaði talsvert í fyrra frá árinu áður. Samanlagt voru komur í laugarnar 1.834.103 á síðasta ári, sem er 11,5% aukning frá árinu áður. Árið 2008 voru heimsóknir 1.645.

Eftir Hlyn Orra Stefánsson

hlynurorri@mbl.is

HEIMSÓKNUM í sundlaugar Reykjavíkur fjölgaði talsvert í fyrra frá árinu áður. Samanlagt voru komur í laugarnar 1.834.103 á síðasta ári, sem er 11,5% aukning frá árinu áður. Árið 2008 voru heimsóknir 1.645.579 sem er svipaður fjöldi og árin á undan.

Ódýr afþreying

Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri íþróttamála hjá Reykjavíkurborg, segist telja að kreppan skýri að hluta þennan aukna fjölda gesta í laugarnar. „Fólk sér þetta sem ódýra afþreyingu sem öll fjölskyldan getur stundað saman,“ segir hann og bætir við að samdráttur í utanlandsferðum hafi einnig sitt að segja.

Stök sundferð í Reykjavík kostar 360 krónur fyrir fullorðna en 110 krónur fyrir börn, og segir Steinþór gjaldið ekki hafa hækkað síðan í lok árs 2006.

Aukinn fjöldi ferðamanna hingað til lands á einnig þátt í fleiri heimsóknum í laugarnar, segir Steinþór, en sem kunnugt er sótti metfjöldi Ísland heim í sumar. Hann segir ferðamenn hafa mætt vel í sundlaugarnar, sérstaklega Laugardalslaug, enda fjölgaði heimsóknum hvergi eins mikið og í Laugardalslaug, eða um 22,2% frá árinu áður.

Komum fjölgaði milli ára í allar sundlaugar borgarinnar nema Klébergslaug og Sundhöllina, en sú síðarnefnda var lokuð hluta sumarsins.

Í hnotskurn
» Heimsóknum í sundlaugar Reykjavíkur fjölgaði um 11,5% á milli ára.
» Auking varð í öllum mánuðum frá því árið áður, nema í júní og desember.
» Komum fjölgaði í allar laugar nema Klébergslaug og Sundhöllina.
» Mest fjölgaði komum í Laugardalslaug, um 22,2%, og þangað komu einnig flestir gestir, 739.307 talsins.