Vinsældir „Það er merkilegt að ná þessum árangri, ekki síst með þetta gamlan leik, og undirstrikar að það var rétt ákvörðun hjá okkur að taka þessa nálgun á sínum tíma,“ segir Hilmar Veigar Pétursson um útnefningu EVE Online sem fjölspilunarleik ársins 2009 hjá virtri leikjasíðu.
Vinsældir „Það er merkilegt að ná þessum árangri, ekki síst með þetta gamlan leik, og undirstrikar að það var rétt ákvörðun hjá okkur að taka þessa nálgun á sínum tíma,“ segir Hilmar Veigar Pétursson um útnefningu EVE Online sem fjölspilunarleik ársins 2009 hjá virtri leikjasíðu. — Morgunblaðið/Ómar
Því er ekki að neita að það þurfti mikla framsýni og dirfsku til að stíga það skref sem lítill hópur manna steig árið 1997 og varð upphafið að því veldi sem CCP Games er í dag, með 450 starfsmenn, þar af 250 á Íslandi og yfir 330.

Því er ekki að neita að það þurfti mikla framsýni og dirfsku til að stíga það skref sem lítill hópur manna steig árið 1997 og varð upphafið að því veldi sem CCP Games er í dag, með 450 starfsmenn, þar af 250 á Íslandi og yfir 330.000 áskrifendur að hinum margverðlaunaða netleik EVE Online .

„Þetta hófst með OZ. Stærstur hluti lykilstarfsmanna CCP í framleiðslu EVE hafði unnið hjá OZ á einhverjum tímapunkti, þeirra fremstur í flokki er Reynir Harðarson, stofnandi CCP,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hilmar kom sjálfur til starfa hjá CCP árið 2000 eftir fjögurra ára viðdvöl hjá OZ.

Þekkingin lifir áfram

Það er alkunna að metnaðarfullur rekstur OZ gekk ekki sem skyldi og endaði fyrirtækið með að flytja til Kanada eftir að hafa breytt um viðskiptaáætlun þegar netbólan sprakk. „Hugmynd OZ, að búa til almennan sýndarveruleika fyrir alla, var hugsanlega 30 árum of snemma á ferðinni. CCP tók þrengri stefnu, með það að markmiði að búa til áskriftartölvuleik fyrir þrengri hóp tölvunotenda,“ segir Hilmar. „Þetta ferli var gott dæmi um hvernig þekking og tækni sem verður til í frumkvöðla- og nýsköpunarstarfi tapast ekki heldur varðveitist í gegnum fólkið. OZ lyfti þekkingunni og hugmyndafluginu upp og ef þekkingin er áfram til staðar í landinu verður alltaf til eitthvað nýtt.“

Þróunarferlið var langt og margar hindranir þurfti að yfirstíga. „Við reyndum að taka eins mörg vinnusparandi skref og hægt var. Leikurinn gerist til dæmis úti í geimnum í stað þess að leikmaðurinn ferðist um jarðir og borgir. Það er mun einfaldara að teikna geimskip og láta víddir geimsins vera bakgrunn atburðarásarinnar en að skapa til dæmis heila borg með óteljandi smáatriðum,“ útskýrir Hilmar en um 40 manns störfuðu hjá CCP þegar EVE kom út. „Við unnum eins og skepnur og hugarfarið hérna var að þetta væri umfangsmikið og svolítið klikkað en samt eitthvað sem væri vel gerlegt.“

Tölvuleikurinn EVE Online var loks gefinn út árið 2003, en útgáfan gekk ekki snurðulaust og þróunarferlið var að sögn Hilmars viðburðaríkt. Dreifingaraðili leiksins vestanhafs stóð sig ekki í stykkinu og þurfti CCP á endanum að kaupa dreifingarréttinn til baka og gefa leikinn sjálft út á netinu árið 2004. „Síðan þá hefur leikurinn vaxið að vinsældum um nálægt 30% á hverju ári, og núna stöndum við í 330.000 áskrifendum um allan heim.“

Einstakur leikur

EVE braut á vissan hátt blað í leikjasögunni og var með fyrstu leikjum sem stóluðu meira á samspil leikmanna sín á milli en fyrirfram smíðaðan söguþráð. „Margfeldisáhrifin af því að leikmennirnir sjálfir væru í raun leikurinn stytti mjög framleiðslutímann og á sinn þátt í viðvarandi vinsældum leiksins síðustu 7 ár,“ segir Hilmar. „Við höfum það hugarfar að leikurinn sé þjónusta en ekki vara. Þjónustan verður betri með tímanum og úreldist ekki. Þetta er ekki ósvipað og sjónvarpsstöð: ef þú heldur henni gangandi með fersku efni sem fólk hefur áhuga á heldur það áfram að vera í áskrift og nýta sér afþreyinguna.“

Formúla sem virkar

Til marks um hversu vel formúla EVE Online virkar hlaut leikurinn fyrir skemmstu verðlaun sem besti fjölspilunarleikur ársins 2009 á harðkjarna leikjasíðunni MMORPG.com. EVE skákaði þar World of Warcraft- stórleiknum sem skartar milljónum notenda og framleiddur er af leikjarisanum Blizzard Entertainment. „Það er merkilegt að ná þessum árangri, ekki síst með þetta gamlan leik, og undirstrikar að það var rétt ákvörðun hjá okkur að taka þessa nálgun á sínum tíma,“ segir Hilmar en leiknum hefur aldrei verið breytt hvað grundvallaratriði varðar, þó að miklu hafi verið bætt við og endurgert, til dæmis voru öll módel í leiknum teiknuð upp á nýtt í meiri gæðum árið 2007 og í lok þessa árs er áætlað að endurgera allar persónur (e. avatars) leiksins frá toppi til táar. „Við höfum bætt kjöti utan á beinagrindina en grunnhugmyndafræðin hefur alltaf haldist óbreytt.“

Íslenskt leikjaveldi

CCP náði þeim tímamótum um áramótin að fjöldi spilara á EVE Online fór yfir heildarfjölda Íslendinga. Hægt er að spila leikinn á ensku, þýsku og rússnesku, og einnig á kínversku, og má finna leikmenn í nánast öllum löndum. Allir lifa þeir og hrærast í sama heiminum, nema hvað að kínverski leikurinn er vegna reglna þar í landi hafður aðskilinn. „Leikurinn var í sjálfu sér ekki gerður fyrir Kínamarkað en við vildum endilega koma þar inn til að læra á markaðssvæðið. Það hefur verið sérstök reynsla að starfa þar og gengið ágætlega, en ekki síst höfum við öðlast þekkingu sem mun nýtast okkur vel í framtíðinni,“ uppljóstrar Hilmar.

Heimurinn stækkar

Þegar Hilmar er spurður um framtíðarverkefni fyrirtækisins segist hann lítið geta gefið upp um væntanleg verkefni að svo stöddu. Af 450 starfsmönnum CCP starfar um helmingur að þróun nýrra leikja. Árið 2006 var tilkynnt að CCP hefði keypt sér réttinn til að framleiða leik byggðan á ævintýraheiminum World of Darkness sem notið hefur nokkurra vinsælda sem vettvangur hlutverkaleikja, þar sem vampírur og varúlfar eru á stjái. Í ágúst á síðasta ári tilkynnti fyrirtækið síðan um þróun leiksins DUST 514 sem verður einskonar framþróun á EVE-heiminum, og gerir leikmönnum kleift að lifa og hrærast á yfirborði plánetna.

„DUST 514 hefur verið í þróun síðustu 3 ár og verður í raun skotleikur og hægt að spila bæði á PC tölvum og leikjatölvum. DUST 514 er um margt einstakur en þó sérstaklega fyrir það að niðurstöður úr bardögum í Dust mun hafa áhrif á hið pólitíska landslag í EVE Online. Er þetta í fyrsta skipti sem leikur á leikjatölvum mun hafa bein áhrif á leikjaheim á PC tölvum.“

Um World of Darkness getur Hilmar lítið sagt. „Þetta verður magnaður leikur,“ segir hann þó og upplýsir að um verður að ræða nýjan ævintýraheim þar sem framvindan gerist í samtímanum og að öllu verði tjaldað til.

Hilmar er bjartsýnn á framtíð CCP. „Við erum smiðir eigin örlaga. Það hefur gengið á ýmsu en við vinnum í kringum það,“ segir hann. „Það er náttúrlega áhugavert að reka alþjóðlegt fyrirtæki og hafa ekkert bankakerfi, og einnig áhugavert að reka alþjóðlegt fyrirtæki í landi með gjaldeyrishöftum, en þetta eru hlutir til að takast á við – og manni leiðist þá ekki á meðan.“