Gæði Það borgar sig að vanda valið á vefmyndavél. Lélegar vélar skila lélegri mynd.
Gæði Það borgar sig að vanda valið á vefmyndavél. Lélegar vélar skila lélegri mynd.
Fjarfundir skipa æ stærra hlutverk í daglegum störfum fyrirtækja. Auk þess eiga starfsmenn oft í samskiptum sín á milli með forritum eins og msn-spjallforritinu og Skype sem bjóða ekki aðeins þann möguleika að horfa á viðmælandann gegnum vefmyndavél.

Fjarfundir skipa æ stærra hlutverk í daglegum störfum fyrirtækja. Auk þess eiga starfsmenn oft í samskiptum sín á milli með forritum eins og msn-spjallforritinu og Skype sem bjóða ekki aðeins þann möguleika að horfa á viðmælandann gegnum vefmyndavél.

En vefmyndavélin getur verið grimm og dregið fram allt annað en bestu útlitseinkennin. Það er alltaf betra að koma vel fyrir í mynd, hvort sem viðmælandinn er viðskiptavinur eða samstarfsmaður og getur hæglega haft áhrif á árangur og jafnvel sjálfstraust og líðan.

Margir gera sér ekki grein fyrir að með nokkrum einföldum breytingum og brögðum er hægt að líta mun betur út á skjánum.

* Fyrst er að fjárfesta í vandaðri vefmyndavél. Ódýrustu myndavélarnar geta skilað verri myndgæðum og einfaldlega verri mynd. Það er gott að huga líka að þeim festingum og fótum sem fylgja vélinni, svo hægt sé að stilla henni upp á hvaða yfirborði sem er eða festa við kantinn á tölvuskjánum.

* Áður en byrjað er að funda á fullu er ráðlegt að vera búinn að stilla vélinni vel upp og prufa og sjá hversu vel þú lítur út á skjánum. Þá getur fljótt komið í ljós að sum sjónarhorn fegra meira en önnur. Þeir sem eru með myndavélina innbyggða í brún tölvuskjásins gætu viljað fjárfesta í frístandandi vél til að geta leikið betur með ólík sjónarhorn. Oftast gefur besta raun að hafa myndavélina í augnhæð yfir miðjum tölvuskjánum eða aðeins til hliðar.

* Þeir sem myndast vel geta fært myndina nær sér, en þeir sem myndast illa gætu viljað færa myndavélina svolítið fjær. Á fínni vefmyndavélum má stilla fókusinn handvirkt, og sumir freista þess að fegra sig með því að draga örlítið úr skerpunni – svona til að gera verstu hrukkurnar minna áberandi.

* Rétt lýsing skiptir líka máli. Forðast þarf sterka baklýsingu, en þjóðráð er að hafa borðlampa við höndina sem varpar mildu ljósi á notandann. Það getur gert kraftaverk að færa lampann til á borðinu þar til bestu lýsingunni er náð. Einnig getur reynst vel að setja til dæmis hvíta pappírsörk yfir lyklaborðið. Birtan sem endurkastast af hvítu yfirborðinu mildar útlínur og skugga og getur fegrað heilmikið.

* Það er ekki gott að notast eingöngu við bláan bjarma tölvuskjásins sem lætur notandann líta út eins og uppvakning. Ef skjárinn er mjög bjartur gæti þurft að minnka birtuna á meðan spjallað er. En einnig þarf að forðast of mikla umhverfisbirtu og getur haft mikil áhrif að slökkva á nokkrum loftljósum.

* Gott er að hafa hvítt í myndfletinum, til dæmis vera í hvítri skyrtu eða við hvítan vegg. Það hjálpar myndavélinni að stilla liti. En í mörgum tilvikum má einnig fikta aðeins í stillingunum, og til dæmis draga fram örlítið heilbrigðra litarhaft á húðina með agnarögn af roða.

* Ekki gleyma sviðsmyndinni. Einfaldur bakgrunnur dregur úr truflunum og skapar snyrtilega ímynd. Réttur klæðnaður og faglegt útlit skiptir vitaskuld líka máli. Ekki gleyma að til dæmis setja upp bindið eða taka hárið aftur í hnút til að gefa rétta útgeislun.

* Síðan er að muna að vera þú sjálf/ur og spara ekki brosið.