Fræ ársins 2010 Ingólfur Harðarson (t.v.) og Jóhannes Loftsson við verðlaunaafhendinguna.
Fræ ársins 2010 Ingólfur Harðarson (t.v.) og Jóhannes Loftsson við verðlaunaafhendinguna. — Morgunblaðið/Heiddi
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is FRÆ ársins, verðlaun Háskólans í Reykjavík (HR) fyrir lífvænleg nýsköpunarverkefni, voru veitt í fyrsta sinn í gær.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

FRÆ ársins, verðlaun Háskólans í Reykjavík (HR) fyrir lífvænleg nýsköpunarverkefni, voru veitt í fyrsta sinn í gær. Verðlaunin Fræ ársins 2010 hlutu þeir Ingólfur Harðarson, flugvirki og rafeindavirki, og Jóhannes Loftsson, efnaverkfræðingur og byggingarverkfræðingur. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR og formaður dómnefndar, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í nýbyggingu HR. Verðlaunin eru fjárhagslegur stuðningur og aðstoð við að koma verðlaunaverkefnunum áfram.

Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að verkefni þeirra Jóhannesar og Ingólfs séu metnaðarfullar tækninýjungar og að þau geti leitt til verulegra umbóta í samfélaginu, sér í lagi varðandi orkunotkun, kostnað og umhverfi.

Uppfinning Jóhannesar er mjög þunnur loftræstibúnaður fyrir hús. Búnaðurinn var þróaður í samvinnu við bandarískan samstarfsaðila. Þessi búnaður er allt að því tíu sinnum þynnri en tæki sem eru sambærileg að afköstum og eru nú á markaði. Gert er ráð fyrir að búnaðurinn verði aðeins tveggja til sex sentimetra þykkur. Hægt verður að hengja hann upp í loft eða setja inn í veggi og jafnvel gluggakarma. Búnaðurinn á að veita fersku lofti inn í byggingar, leysa rakavandamál og auka heilnæmi húsnæðis. Hann sparar einnig orku miðað við nútíma loftræstitæki. Einkaleyfishugmynd fyrir vöruna er þegar tilbúin.

„Ég er að hugsa um að nota verðlaunaféð til að stofna íslenskt fyrirtæki um hugmyndina,“ sagði Jóhannes. „Næsta skref er að byggja frumgerð með einstaka eiginleika. Við höfum þegar smíðað hluta búnaðarins. Þegar frumgerð er tilbúin kemur til greina að selja notkunarleyfi á tilteknum svæðum. Einnig að halda vöruþróun áfram og fara síðan út í eigin framleiðslu og er ég að leita að fjársterkum samstarfsaðila sem sér tækifæri í þessu.“

Uppfinning Ingólfs, „Nuevo Vehicles“, er ný tegund af undirvagni fyrir rafknúna bíla. Undirvagninn gerir kleift að aka jafnt út á hlið og fram og aftur. Nýjungin felst í því að fimmta hjólið er undir farartækinu miðju og bæði drífur það áfram og stýrir ökutækinu.

Ingólfur sagði í skýringum með hugmyndinni að henni fylgdu helst þeir kostir að hún væri ódýrari í framleiðslu en núverandi búnaður, um leið væri hún léttari og stuðlaði að minni eyðslu farartækja. Ingólfur sagði þessa viðurkenningu vera mikilvæga fyrir hugmynd sína.

Taka mark á hugmyndinni

„Þarna eru sterkir aðilar sem aðrir líta upp til, eins og Háskólinn í Reykjavík, og leiðandi fyrirtæki sem segja að hugmyndin sé góð og eigi möguleika,“ sagði Ingólfur. Hann sagði mikla grósku vera í framleiðslu rafbíla. Tímasetningin væri því mjög góð. Verðlaunin stuðluðu að því að aðrir tækju mark á hugmyndinni. „Ég held að þetta breyti öllu,“ sagði Ingólfur. Hann sagði að næsta skref væri að gera fýsileikaathugun hjá bílaiðnaðinum og að kortleggja framhaldið.

Dómnefndina skipuðu Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður Klaksins, Svafa Grönfeldt, fyrrverandi rektor HR, Þóranna Jónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Auði Capital, og Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyrir Invest.

Verðlaunin eru veitt í samvinnu HR við Klak – nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins, Hugmyndahús háskólanna og Auði Capital.