Guðrún Guðmundsdóttir fæddist á Kópaskeri 14. apríl 1922. Hún lést á Landakotsspítala 16. janúar síðastliðinn.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Kristjánsson, f. 1. júní 1884 á Víkingavatni í Kelduhverfi, d. 18. desember 1965, og Björg Indriðadóttir, f. 18. ágúst 1888 í Keldunesi í Kelduhverfi, d. 22. janúar 1925. Alsystkini Guðrúnar voru: Árni og Indriði, sem létust í frumbernsku,
Jónína Sigurveig, f. 1916, d. 2006, og Björn, f. 1918, d. 2006. Hálfsystkini hennar voru: Kristján, f. 1933, d. 1975, Árni Ragnar, f. 1935 og Björg, f. 1944.
Guðrún ólst upp á Víkingavatni í Kelduhverfi og á Kópaskeri. Hún varð gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri 1941. Eftir gagnfræðapróf vann hún við húsmæðraskólann á Ísafirði en fluttist til Reykjavíkur 1943. Hún vann um nokkurt skeið á skrifstofu Olíuverslunar Íslands í Reykjavík. Í lok ársins 1948 hóf Guðrún störf við bókhald hjá Áfengis- og lyfjaverslun ríkisins, síðar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Hún var aðalbókari frá 1957 til starfsloka 1992.
Guðrún var mikill unnandi klassískrar tónlistar. Um nokkurra ára skeið stundaði hún nám í píanóleik, söng, tónfræði og tónlistarsögu við Tónlistarskóla Reykjavíkur. Hún var um tíma í Samkór Reykjavíkur og var ein af stofnendum Söngsveitarinnar Fílharmóníu, þar sem hún söng í nokkur ár. Eiginmaður Guðrúnar var Eggert Eggertsson, f. 14. ágúst 1909, aðalgjaldkeri hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Þau hófu sambúð um 1960 en hann lést 11. febrúar 1969. Eftir fráfall Eggerts hélt Guðrún heimili með systur sinni Jónínu Sigurveigu, allt þar til Jónína lést sumarið 2006. Eftir það bjó hún ein í íbúð þeirra systra á Dalbraut 16.
Útför Guðrúnar verður gerð frá Langholtskirkju í dag, fimmtudaginn 28. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.
mbl.is/minningar
Elsku Gúgú mín nú ertu komin á betri stað þar sem ég veit að þér var tekið opnum örmum. Þú varst mér eins og önnur amma, tókst alltaf vel á móti mér og varst alltaf tilbúin að hjálpa ef eitthvað bjátaði á. Mér þótti alltaf gaman að koma til þín, spjalla og segja þér frá hvað ég hefði verið að bralla.
Ég sakna þín sárt og er afar þakklát fyrir að hafa fengið að þekkja þig og njóta umhyggju þinnar og ástúðar. Ég er ánægð með að þú gast komið í skírn beggja dætra minna og fékkst að kynnast þeim aðeins.
Ég kveð þig nú með söknuði og mun varðveita minningu þína um ókomna framtíð.
Guð geymi þig, elsku Gúgú.
Árdís.
Ég minnist með ánægju allra ferðanna sem við fórum saman, bæði innanlands og utan, og sérstaklega voru ferðirnar í sumarhúsin vinsælar hjá börnunum.
Árin hafa liðið hratt og margs er að minnast þegar litið er til baka. Forlögin höguðu því svo, að á efri árum okkar lentum við Björn í nábýli við systur hans, Gúgú og Nonnínu, á Dalbraut 16. Þau Björn og Nonnína kvöddu okkur fyrir fjórum árum og er þeirra sárt saknað. Við Gúgú höfum því verið hér tvær saman í fjögur ár og reynt að styðja hvor aðra eftir bestu getu. En allt tekur enda og nú, þegar hún kveður þetta líf, vil ég þakka henni einstaka samveru sem aldrei bar skugga á. Hvíli hún í friði.
Jónína Sigurborg Jónasdóttir.
Gúgú og Nonna, systir hennar, voru báðar barnlausar og litu á okkur systkinin nánast eins og börnin sín. Í uppvexti okkar voru þær alltaf til staðar fyrir okkur, tilbúnar að passa, leyfa okkur að gista og spila við okkur. Sóttum við og mjög til þeirra, sum jafnvel í leyfisleysi. Sumarbústaðaferðirnar með þeim í gamla daga eru okkur ofarlega í minni en þá var oft glatt á hjalla, spilað, leikið, farið í göngutúra og ekki síst stunduð handavinna. Eftir að við eignuðumst börn nutu þau sömu umhyggju og ástúðar þeirra systra. Það eru forréttindi að hafa fengið að njóta samvista þeirra og erum við öll þakklát fyrir það.
Skömmu eftir að Gúgú kynntist Eggerti, eiginmanni sínum, fluttust þau í íbúð sína í Sólheimum. Heimili þeirra var fallegt og gaman að heimsækja þau þangað. Sum okkar systkinanna dvöldu hjá þeim um skemmri tíma og þá dekraði Gúgú við okkur og Eggert tók okkur sem besti frændi og skemmti með kímni sinni. Eftir fráfall Eggerts bjó Gúgú um tíma í Goðheimum, sömu götu og við. Var þá mikill samgangur milli heimilanna og mikið hlustað á klassíska tónlist. Hún hefur ótvírætt mótað tónlistarsmekk okkar. Auk þess hvatti hún okkur óspart til að afla okkur sem mestrar menntunar. Sjálf hafði hún ekki haft sömu tækifæri. Gúgú var ekki há vexti, en hafði stórt hjarta sem rúmaði mikla ást og væntumþykju til sinna nánustu. Hún átti það til að vera dómhörð og snögg upp á lagið og sagði sína meiningu þótt það félli ekki alltaf í kramið hjá öðrum. Oftast var þó undirtónninn glettinn og glampi í augum hennar. Gúgú hafði ákveðnar skoðanir á öllu og stóð fast á þeim. Hún tjáði sig til dæmis óspart um frammistöðu og útlit fjölmiðlafólks og vakti það oft kátínu í kringum hana.
Klassísk tónlist átti hug hennar allan og sjálf hafði hún góða söngrödd. Það var unun að fylgjast með henni njóta fallegrar tónlistar. Hún lygndi aftur augunum og lifði sig inn í þann heim. Hún var kröfuhörð og hafði mjög sterkar skoðanir á því hverjir væru góðir söngflytjendur og hverjir ekki, enda vel menntuð í þeim efnum. Hún var mikil hannyrðakona og gaf listaverkin sín í allar áttir. Það eru ófáar flíkurnar, útsaumsverkin og dúkarnir sem hún hefur prjónað, heklað og saumað í gegnum tíðina.
Að leiðarlokum kveðjum við Gúgú með miklum söknuði og þökkum henni allar góðu samverustundirnar, gæskuna og umhyggjuna fyrir okkur og börnum okkar alla tíð. Við þökkum móður okkar alla þá aðstoð og umhyggju sem hún sýndi Gúgú síðustu árin. Starfsfólki á deildum K1 og L1 á Landakoti flytjum við okkar bestu þakkir fyrir góða umönnun síðustu vikurnar.
Hvíl þú í friði, elsku Gúgú, og þakka þér fyrir allt, við munum ætíð geyma bjarta minningu þína.
Sigurbjörg, Guðmundur, Björg og Sigrún Þóra.
Gúgú, frænka mín, var mjög tónelsk og hafði næmt tóneyra. Hún söng um árabil í kórum og var ein af stofnendum Söngsveitarinnar Fílharmóníu. Ekki má gleyma handavinnu hennar og sá maður þær systur sjaldnast sitja auðum höndum. Heimili þeirra systra, en þær bjuggu saman hin síðari ár, var ávallt hreint og snyrtilegt og handbragð þeirra víða innan um fallega muni. Hin síðari ár er heilsa þeirra systra var farin að gefa sig, átti ég oft erindi til þeirra, enda bjuggu þær í nálægð við mig. Til Gúgúar kom ég oft á Dalbrautina í spjall og kaffisopa. Gaman var að ræða við hana, hafði hún sterkar skoðanir og sagði umbúðalaust hvað henni fannst um menn og málefni. Hennar lán var að búa við hlið mágkonu sinnar Jonnu og höfðu þær mikinn félagsskap hvor af annarri eftir að þær urðu einar. Merkja mátti sorg og söknuð vegna móðurmissis, en hún varð móðurlaus aðeins á þriðja ári. Hún kveið ekki umskiptunum og beið endurfunda við Eggert maka sinn, sem hún missti alltof snemma. „Hjá honum mun ég hvíla og þar á ég minn stað,“ sagði hún við mig skömmu fyrir andlát sitt. Síðustu mánuði dvaldi hún á spítala og beið vistunar á hjúkrunarheimili. Það átti ekki vel við hana. Heimsóknir til hennar urðu tíðar og bað hún oft Baldvin, eiginmann minn, að koma og spjalla, sem þau gerðu umbúðalaust og fór vel á með þeim. Við Baldvin og börnin okkar þökkum Gúgú gæði og trygglyndi. Sendum Jonnu, bróðurbörnum og afkomendum, sem voru hennar fjölskylda, okkar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning þín, kæra frænka.
Sigríður Jóhannsdóttir.