Ragnar Bragason kvikmyndagerðarmaður hefur dottið niður á snjallræði, sem mun leysa öll okkar vandamál.

Ragnar Bragason kvikmyndagerðarmaður hefur dottið niður á snjallræði, sem mun leysa öll okkar vandamál. „Það hefur verið sýnt fram á það að við hverja krónu sem ríkið leggur til kvikmyndagerðar skapist tólf til fimmtán krónur,“ sagði Ragnar, þegar hann mótmælti niðurskurði á framlögum til kvikmyndagerðar á fjárlögum. Þessu er ekki hægt að mótmæla.

Í ljósi þessa blasir við að allar þær deilur sem skipt hafa íslensku samfélagi í tvennt síðustu misserin voru óþarfar. Til þess að borga Icesave-skuldbindingu ríkissjóðs, sem nemur rúmum 500 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónunnar og 88% endurheimtur úr búi Landsbankans, þarf ríkið aðeins að veita að hámarki 42 milljarða króna til íslenskrar kvikmyndagerðar.

Jafnvel væri hægt að veita eins og fjóra milljarða til viðbótar. Þá væri hægt að kaupa eitthvað gott fyrir afganginn, 48 milljarða króna, á borð við aðild að samningnum um vernd votlendisfugla og búsvæða þeirra, eins og flokksráðsfundur vinstri grænna lagði til á dögunum.

Hugsanlega væri jafnvel hægt að slá þrjá fugla í einu höggi og gera 46 milljarða króna mynd um votlendisfugla, innan og utan Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Það væru ódýrustu 552 milljarðar sögunnar.