Frábærir tónleikar HINN 21. janúar sl. voru haldnir tónleikar til styrktar SÁÁ í Efstaleiti. Páll Óskar Hjálmtýsson, Monika Abendroth ásamt strengjasveit og Sigrún Hjálmtýsdóttir fluttu frábæra dagskrá, sannkallaðir gleðigjafar og gáfu alla sína vinnu.

Frábærir tónleikar

HINN 21. janúar sl. voru haldnir tónleikar til styrktar SÁÁ í Efstaleiti. Páll Óskar Hjálmtýsson, Monika Abendroth ásamt strengjasveit og Sigrún Hjálmtýsdóttir fluttu frábæra dagskrá, sannkallaðir gleðigjafar og gáfu alla sína vinnu. Tónleikagestir fylltu salinn og vil ég þakka listamönnum, áheyrendum og starfsfólki Vonar þetta eftirminnilega kvöld en þeirra framlag lagði góðan styrk til hjálpar starfi SÁÁ sem eru sannkölluð mannræktarsamtök.

Hugheilar þakkir,

Jón Helgi Hálfdanarson

Icesave – þjóðaratkvæðagreiðsla

ÉG spyr eins og vafalaust margir aðrir meðlimir hinnar íslensku þjóðar. Hverju halda þessir háttvirtu alþingismenn, sérlega forystumenn þing- og stjórnmálaflokka, að þjóðin sé að leita eftir með kröfu sinni um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi Icesave-samninginn? Hún vill réttláta lausn á málinu – ekkert raus og enga frekari rellu. Hættið þessu sífellda rövli; sendið ei þessa svartnættisspekúlanta í sjónvarp og fréttablöð, ausandi yfir þjóðina slíkum heimsendafullyrðingum að hið hálfa væri nóg. Þeir eru allir í góðu starfi, öðruvísi en fólkið sem þið eigið að vera að vinna fyrir, og því óþarft að veita þeim aukbitlinga. Þeir segja hvort eð er fátt af viti. Við (íslenska þjóðin) greiðum ekki atkvæði um hver eða hverjir helstu grægispúkarnir voru, sem komu þjóðinni í þennan vanda. Íslenskir dómstólar sjá um það. Við greiðum atkvæði til þess að láta í ljós vanþóknun með þessa algjöru samninsgleysu og afleiðingar hennar, sem stjórnendur vilja leiða yfir okkur. Okkur er sama um vinnuhópinn sem grætur slíkum krókódílstárum að hann getur ekki unnið vinnuna sína í tíma og ofan á allt saman ætlar að gefa þar með

gullið tækifæri til frekari tafa. „Ekki þætti þetta góður grautur í minni sveit.“ Hættið að rövla – farið að vinna fyrir okkur; takið afstöðu; finnið úrræði okkur í hag; skapið atvinnu fyrir þjóðina; hættið að riðlast á öryrkjum og öldruðum. Ef þið gerið það er jafnvel mögulegt að við kjósum ykkur aftur og sæmum ykkur kannski Fálkaorðu fyrir góð störf.

Einar Tjörvi Elíasson.


Svarað í síma 5691100 frá 10-12
velvakandi@mbl.is