Framþróun Bragi Leifur Hauksson segir rafræna þjónustu í stjórnsýslunni leiða til sparnaðar og hagræðingar.
Framþróun Bragi Leifur Hauksson segir rafræna þjónustu í stjórnsýslunni leiða til sparnaðar og hagræðingar. — Morgunblaðið/ RAX
Það er ekki aðeins í einkageiranum sem netið hefur skapað nýja möguleika á hagræðingu og bættri þjónustu. Víða í opinbera geiranum hefur netið verið nýtt á metnaðarfullan hátt og með góðum árangri.

Það er ekki aðeins í einkageiranum sem netið hefur skapað nýja möguleika á hagræðingu og bættri þjónustu. Víða í opinbera geiranum hefur netið verið nýtt á metnaðarfullan hátt og með góðum árangri. Eitt nýjasta skrefið í þessari þróun er Tryggur, þjónustuvefur Tryggingastofnunar ríkisins, sem tekinn var í gagnið í lok sumars 2008.

„Tryggingastofnun þjónustar reglubundið um 50.000 manns, og frá opnun höfum við fengið um 100.000 heimsóknir á þjónustuvefinn. Ætla má að ríflega fimmtungur viðskiptavina stofnunarinnar nýti sér Trygg reglulega,“ segir Bragi Leifur Hauksson, verkefnastjóri rafrænnar stjórnsýslu hjá stofnuninni. „Tryggingastofnun hefur farið nokkuð hægt af stað í rafrænni þjónustu, en sú ákvörðun var síðan tekin að gera átak í þessum efnum enda augljós leið til að bæta þjónustu og til lengri tíma ná fram sparnaði og hagræðingu.“

Tryggur.is er vefur sem ætlað er að halda utan um alla þjónustu Tryggingastofnunar, en einnig starfrækir stofnunin sérstakan upplýsingavef, tr.is. „Stefnan er að viðskiptavinir okkar geti sótt sem mest af sinni þjónustu rafrænt í gegnum Tryggur.is, og átt þar í gagnvirkum samskiptum við stofnunina.“

Bragi bendir á að vissulega sé ljóst að það muni aldrei henta öllum skjólstæðingum TR að sækja þjónustu sína rafrænt. „En fyrir þá sem geta nýtt sér Trygg er hann tvímælalaust langþægilegasti samskiptaflöturinn við stofnunina. Um leið gagnast Tryggur líka þeim sem nota vefinn ekki því með hverjum þeim sem notar vefinn til að afgreiða sín mál á eigin spýtur hefur starfsfólk okkar meiri tíma til að sinna hinum sem ekki geta eða vilja nota vefinn.“

Öryggi og aðgengi

Eins og við var að búast segir Bragi að vissar efasemdir og áhyggjur hafi komið upp við þróun Tryggs. „Öryggi og trúnaður eru til dæmis mikilvæg í starfsemi Tryggingastofnunar og nauðsynlegt að búa til örugga rafræna rás til notandans. Frekar en að finna upp hjólið fórum við þá leið að nýta veflyklakerfi ríkisskattstjóra í góðri samvinnu við hann og forsætisráðuneytið og erum nú einnig byrjuð að nýta rafræn skilríki á þar til gerðum debetkortum sem eru farin að fá nokkra dreifingu,“ segir Bragi og hvetur aðrar ríkisstofnanir til þess að nýta þessa auðkenningu og stytta sér þannig leið í innleiðingu rafrænnar þjónustu.

Stærsti viðskiptavinahópur stofnunarinnar er aldraðir og öryrkjar og Bragi nefnir einnig efasemdir sem vöknuðu um að þessi hópur myndi nýta sér rafræna þjónustu af þessu tagi að sama marki og vænta mætti hjá öðrum. „En við sjáum að fólk á öllum aldri og í öllum aðstæðum nýtir sér Trygg,“ segir hann. „Til þess að auðvelda þetta enn frekar býður Tryggingastofnun nú upp á þá nýjung að fólk getur veitt aðstandendum umboð til þess að sinna sínum málum á Trygg og verður sú þjónusta kynnt sérstaklega á næstu vikum. „Netaðgangurinn auðveldar aðstandendum að veita aðstoð enda til muna auðveldara að sinna flestum málum rafrænt en á pappír.“

Fyrirspurnir og útreikningar

Meðal þess sem finna má á Trygg er rafræn skjöl af ýmsu tagi, og á Tryggingastofnun meðal annars í samstarfi við Vinnumálastofnun um birtingu ýmissa rafrænna skjala. „Gegnum Trygg má senda margvísleg gögn. Það er til dæmis mjög auðvelt að skila inn árlegri tekjuáætlun gegnum Trygg og áður en henni er skilað má fá bráðabirgðaútreikning niðurstöðu á vefnum. Bráðabirgðaútreikninginn má nota til þess að kanna hvaða áhrif auknar eða minni tekjur hafa, áður en viðskiptavinur tekur ákvörðun um að auka eða minnka við sig vinnu. Auðvelt er að gefa upp bankareikning eða breyta, og nú eftir breytingar á skattareglum er Tryggur besta leiðin til að senda upplýsingar um hvernig fólk óskar að láta reikna staðgreiðslu skatta hjá sér. Gegnum vefinn má einnig bera fram fyrirspurnir eða sækja greiðsluáætlun ársins og mánaðarleg greiðsluskjöl. Okkur þótti mjög vænt um að Tryggur var tilnefndur til Hvatningarverðlauna ÖBÍ árið 2008. Viðskiptavinir okkar sjá best hvort við erum á réttri braut.“