Rósa Guðbjartsdóttir
Rósa Guðbjartsdóttir
Eftir Rósu Guðbjartsdóttur: "FRAMUNDAN eru mikilvægar bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði. Meirihluti Samfylkingarinnar ræður augljóslega ekki við hlutverk sitt."

FRAMUNDAN eru mikilvægar bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði. Meirihluti Samfylkingarinnar ræður augljóslega ekki við hlutverk sitt. Ákvarðanafælni og stöðug skuldasöfnun vegna vanhugsaðrar framkvæmdagleði hefur því miður komið bæjarfélaginu í afar erfiða fjárhagsstöðu. Fulltrúar meirihlutans reyna nú að verjast af veikum mætti og kenna efnahagshruninu um, en hafa ekki getað svarað því af hverju staðan er svona slæm í Hafnarfirði samanborið við önnur sveitarfélög.

Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum á kjörtímabilinu ítrekað gagnrýnt framkvæmdagleðina og bent á að á þenslutímum ættu opinberir aðilar eins og sveitarfélög að ganga hægt um gleðinnar dyr. Ábendingar okkar um ráðdeild þóttu gamaldags og leiðinlegar. En nú þarf tiltektin að hefjast! Ég býð mig fram til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins. Eftir setu mína í bæjarstjórn síðastliðin ár hef ég öðlast dýrmæta og nauðsynlega reynslu og þekkingu á málefnum bæjarins.

Hlúum að fjölskyldunum

Bæjarbúar eiga kröfu á að skynsamlega sé forgangsraðað þegar sameiginlegum fjármunum þeirra er ráðstafað. Ég mun leggja áherslu á að yfirvofandi hagræðing eða niðurskurður í skólakerfinu muni ekki bitna á þjónustu við börn og fjölskyldur og standa þarf vörð um velferðarkerfið. Öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf er ekki síst mikilvægt á tímum sem þessum en einnig ber að hlúa vel að eldri borgurum sem eiga rétt á lífsgæðum eftir drjúgt dagsverk.

Hagur Hafnarfjarðar

Góður hagur fyrirtækjanna er hagur Hafnarfjarðar því næg atvinna er undirstaða alls. Þetta bentum við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kröftuglega á í aðdraganda íbúakosningarinnar um álversstækkunina fyrir tæpum þremur árum. Kjarkleysi kjörinna fulltrúa Samfylkingarinnar þá hafði margra milljarða króna tekjur af bæjarfélaginu og ýmsum fyrirtækjum bæjarins. Ég hvet Hafnfirðinga til að fjölmenna í prófkjör Sjálfstæðisflokksins á laugardaginn og hafa áhrif á skipan framboðslistans. Það er kominn tími á nýtt fólk við stjórnvölinn í Hafnarfirði.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og sækist eftir 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.