Eftir Andra Karl andri@mbl.is PATTSTAÐA er í kjaradeilu FÍA og Icelandair og leysist hún ekki kemur til verkfalls flugmanna eftir slétta viku. Að sögn formanns samninganefndar flugmanna stranda viðræður aðallega á tveimur atriðum.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

PATTSTAÐA er í kjaradeilu FÍA og Icelandair og leysist hún ekki kemur til verkfalls flugmanna eftir slétta viku. Að sögn formanns samninganefndar flugmanna stranda viðræður aðallega á tveimur atriðum. Upplýsingafulltrúi Icelandair segir félagið harma verkfallsboðunina. Komið hafi verið til móts við flugmenn en ekki sé hægt að ganga að ýtrustu kröfum þeirra. Samningafundur hjá ríkissáttasemjara er boðaður í dag.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að félagið hafi boðið flugmönnum, sem almennt búa við góð starfskjör, sambærilegan samning við það sem aðrar stéttir innan Icelandair hafa samið um, og sé í takt við samninga á almennum vinnumarkaði. „Að auki komum við til móts við ýmsar aðrar kröfur þeirra sem hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir félagið. Við getum ekki gengið að ýtrustu kröfum FÍA um aukin fríðindi þessu til viðbótar.“

Guðjón segir það von félagsins og vissu að úr deilunni verði leyst með farsælum hætti, og forystumenn flugmanna gangi til samninga á þeim nótum sem sátt er um í samfélaginu, og ekki komi til verkfalls.

Örnólfur Jónsson, formaður samninganefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna við Icelandair, segir að enn beri nokkuð á milli. „Enginn ágreiningur er uppi um launaliðinn en það eru tvö önnur atriði,“ segir Örnólfur og á þar við kröfur um tvær helgar í frí annan hvern mánuð og leiðréttingar á einhliða breytingum Icelandair á tryggingaskilmálum hóplíftryggingar og túlkun á rétti þeirra sem láta af störfum til líftryggingar.