Karen Aradóttir
Karen Aradóttir
Frá Karen Aradóttur: "„INNBROT á heimili ungra hjóna, miklu stolið, þau voru ótryggð.“ „Potturinn gleymdist á eldavélinni, hættunni boðið heim."

„INNBROT á heimili ungra hjóna, miklu stolið, þau voru ótryggð.“

„Potturinn gleymdist á eldavélinni, hættunni boðið heim.“

Fréttir í fjölmiðlum birtast af og til af tjóni sem fólk hefur orðið fyrir vegna innbrota eða bruna og tjónin fást ekki bætt þar sem viðkomandi var ótryggður.

En hefði það einhverju breytt þó svo að þessir aðilar hefðu verið tryggðir? Ég stórefa það, reyndar veit ég ekki hvernig búið var um gluggann sem þjófarnir komust inn um hjá ungu hjónunum, spenntu þeir hann upp eða brutu þeir hann?

Ég var svo óheppin að brotist var inn á heimili mitt, sem er raðhús á einni hæð. Rótað var í öllum hirslum og stolið miklu af skartgripum, tveimur sjónvörpum, veskjum og fleiri persónulegum munum. Þetta var mikið áfall fyrir mig, sem sjálfsagt allir vita sem reynt hafa. Ekki bara það að missa hluti sem voru mér mikils virði, meðal annars erfðagripi frá móður minni, heldur einnig að ókunnugir menn voru gramsandi í skápum og skúffum á heimili mínu og vaðandi um allt hús. En ég var svo „heppin“ að vera með tryggingu, búin að vera með vel tryggt í mörg ár og borga fúlgu fjár á hverju ári svo að allt væri nú öruggt ef einhverja vá bæri að dyrum.

En nei! Ég fæ ekkert bætt úr tryggingum þar sem þjófarnir brutust inn um glugga, sem var með smá rifu á til að fá loft inn. Tekið skal fram að glugginn var festur í krækju og með stormjárni, og auðséð var á ummerkjum að verkfæri var notað til að spenna upp gluggann. Tjónaeftirlitsmaður frá „mínu“ tryggingafélagi (VÍS) mætti á staðinn, og sagði strax að þetta yrði ekki bætt ég hefði svo gott sem boðið þessum náungum inn.

Málið fór fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum (kostnaður fyrir mig var 6.000 kr.), þar var sama sagan, ekkert bætt!

Nú líður mér eins og ég hafi verið rænd í annað sinn.

Hvet ég fólk til að skoða hvaða tryggingar það er með og hvers eðlis þær eru.

Það er óþarfi að fjölmiðlar taki fram, þegar fjallað er um eldsvoða, innbrot eða annað tjón sem hinn almenni borgari hefur orðið fyrir, að viðkomandi sé tryggður eða ótryggður . Það skiptir engu máli þar sem öryggið er falskt, þú færð tjón þitt ekki bætt.

Ef tryggingarnar hefðu bætt skaðann hefðu einungis 5% af tryggingaupphæðinni verið greidd vegna skartgripanna sem stolið var. Eftir þessa reynslu mína tel ég enga ástæðu til að eyða peningum í að tryggja sig í bak og fyrir.

Virðingarfyllst,

KAREN ARADÓTTIR

þjónustufulltrúi.

Frá Karen Aradóttur