Þjóðin lætur eins og ekkert hafi í skorist. Hún lætur eins og hún geti hegðað sér eins og hún gerði á árunum fyrir hrunið. Lifað um efni fram. Höfuðsynd og banabiti bankanna var að safna skuldum.

Þjóðin lætur eins og ekkert hafi í skorist. Hún lætur eins og hún geti hegðað sér eins og hún gerði á árunum fyrir hrunið. Lifað um efni fram.

Höfuðsynd og banabiti bankanna var að safna skuldum. Þeir keyptu illseljanlegar eignir og tóku til þess lán til skamms tíma. Þeir treystu því að ríkið hlypi undir bagga, vantaði þá lausafé til að rúlla vandanum á undan sér.

Lánveitendur þeirra gerðu líka ráð fyrir því. Matsfyrirtæki gáfu bönkunum fáránlega háar einkunnir, vegna þess að þau töldu ríkisábyrgð í gildi.

Auðvitað var það firra. Ríkið hafði aldrei burði til að bjarga eins stóru bankakerfi og það íslenska varð undir lokin.

Það er draumur að halda að hið opinbera hafi efni á sömu útgjöldum og fyrir hrun. Ástæðan er einföld: Þessir peningar eru ekki til.

Gamla lögmálið um ráðdeild hefur ekki breyst.

Það er alltaf betra að eiga fyrir því sem maður kaupir.

Velmegun sem byggir á lántökum er blekking.

Ef við skerum ekki niður í ríkisútgjöldum verðum við að taka meiri lán. Eins og bankarnir forðum. Slá vandanum á frest, en um leið gera hann óviðráðanlegan.

Þá fer fyrir ríkinu eins og bönkunum haustið 2008.

Draumurinn verður að martröð.