[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Símun Samuelsen , færeyski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu sem hefur leikið með Keflvíkingum undanfarin ár, er hættur hjá félaginu og er á leið heim til Færeyja .
S ímun Samuelsen , færeyski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu sem hefur leikið með Keflvíkingum undanfarin ár, er hættur hjá félaginu og er á leið heim til Færeyja . Þetta kom fram í sameiginlegri yfirlýsingu sem knattspyrnudeild Keflavíkur og Símun sendu frá sér í gær. Brotthvarf Símuns er mikill missir fyrir Keflvíkinga en hann hefur leikið fyrir þá 74 leiki í úrvalsdeildinni og skorað í þeim 18 mörk. Símun á að baki 27 landsleiki fyrir Færeyjar. Hann kom til liðs við Keflvíkinga frá færeyska liðinu VB/Sumba í lok júlí 2005, þá nýorðinn tvítugur.

Bandaríski leikmaðurinn Kenney Boyd er á förum frá úrvalsdeildarliði Tindastóls á Sauðárkróki og svo gæti farið að Michael Giovacchini fari einnig frá liðinu en hann er meiddur á ökkla. Forráðamenn Tindastóls eru ósáttir við líkamlegt ástand Boyds en hann var mun þyngri en umboðsmaður hans hafði gefið til kynna þegar hann var fenginn til liðsins. Frá þessu er greint á vef Tindastóls. Boyd kom til liðsins um sl. áramót en hann átti að fylla í skarðið sem Amani Bin Daanish skildi eftir sig.

R oger Federer frá Sviss tryggði sér í gær sæti í undanúrslitum opna ástralska meistaramótsins í tennis. Federer, sem er efstur á heimslistanum, hafði betur gegn Rússanum Nikolai Davidenko. Federer mætir Frakkanum Jo-Wilfried Tsonga sem sigraði Serbann Novak Djokovic í gær. Í dag mætast Króatinn Marin Cilic og Skotinn Andy Murray í undanúrslitum.

Serena Williams leikur til undanúrslita á opna ástralska meistaramótinu í tennis. Serena vann Victoriu Azarenku frá Hvíta-Rússlandi í gær, 4:6, 6:4 og 6:0. Serena mætir Na Li frá Kína í undanúrslitum en Li vann Venus Williams, 3:6, 6:2 og 6:1, og kom þar með í veg fyrir að systurnar myndu mætast í undanúrslitum. Justin Henin frá Belgíu leikur gegn Zheng Jie frá Kína í hinum undanúrslitaleiknum. Það hefur aldrei gerst áður á stórmóti að tveir kínverskir leikmenn séu á sama tíma í undanúrslitum.