Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.

Eftir Boga Þór Arason

bogi@mbl.is

YFIRVÖLD á Srí Lanka tilkynntu í gær að Mahinda Rajapaksa, forseti landsins, hefði verið endurkjörinn með 57,9% atkvæða í kosningum á þriðjudag eftir mjög harðvítuga baráttu við gamlan bandamann sinn, Sarath Fonseka, fyrrverandi yfirmann hersins.

Fonseka var sagður hafa fengið 40,1% atkvæðanna en hann kvaðst ekki viðurkenna úrslitin og ætlar að leita til dómstóla. Tugir hermanna umkringdu hótel í Colombo þar sem hann dvaldi með stuðningsmönnum sínum og hann kvaðst óttast að reynt yrði að ráða hann af dögum.

Voru nánir bandamenn

Rajapaksa forseti og Fonseka hershöfðingi voru álitnir þjóðhetjur eftir að stjórnarher landsins sigraði uppreisnarhreyfingu Tamíla, LTTE, og batt þar með enda á nær 30 ára borgarastyrjöld sem kostaði um 80.000-100.000 manns lífið.

Forsetinn og Fonseka voru nánir bandamenn í stríðinu en urðu erkióvinir eftir að hershöfðinginn ákvað að gefa kost á sér í forsetakosningunum og hét því að uppræta spillingu í stjórnkerfinu.

Allt að hundrað hermenn, vopnaðir vélbyssum, umkringdu lúxushótel í Colombo þar sem Fonseka dvaldi ásamt fleiri stjórnarandstöðuleiðtogum. Talsmaður hersins sagði að hermennirnir hefðu verið sendir þangað eftir að herinn hefði fengið upplýsingar um að Fonseka væri þar með um 400 menn, meðal annars „liðhlaupa“ úr hernum.

Talsmaðurinn sagði að herliðið væri þarna aðeins í varúðarskyni og Fonseka gæti farið frá hótelinu hvenær sem hann vildi.

Fonseka sagði hins vegar við fréttamenn að ráðamennirnir væru að reyna að fjarlægja lífverði hans til að hægt yrði að ráða hann af dögum. „Þeir hegða sér eins og morðingjar,“ sagði hann. „Ég viðurkenni aldrei þessar kjörtölur. Við ætlum að véfengja þær fyrir rétti.“

Stjórn Srí Lanka hafði áður sakað Fonseka um að hafa komið sér upp einkaher sem skipaður væri liðhlaupum úr hernum. Stjórnarandstaðan segir ekkert hæft í þeirri ásökun.

Sakaður um spillingu og stríðsglæpi

Mahinda Rajapaksa forseti nýtur mikilla vinsælda meðal Sinhala á Srí Lanka, einkum í dreifbýlinu, þótt hann hafi verið sakaður um spillingu og frændhygli.

Rajapaksa skipaði þrjá bræður sína í mikilvæg embætti eftir að hann komst til valda árið 2005. Hann skipaði einnig Sarath Fonseka sem yfirmann hersins og hampaði honum sem „besta hershöfðingja í heiminum“ eftir sigur stjórnarhersins á uppreisnarhreyfingu Tamíla, Tamíl-Tígrunum, í maí á liðnu ári.

Forsetinn hefur einnig verið sakaður um að hafa notað opinbert fé og stofnanir, meðal annars ríkisfjölmiðlana, til að tryggja sér sigur í forsetakosningunum. Þá hefur hann verið sakaður um að bera ábyrgð á alvarlegum stríðsglæpum, m.a. árásum sem talið er að hafi kostað um 7.000 óbreytta borgara úr röðum Tamíla lífið síðustu mánuði stríðsins.