Jórunn Pálsdóttir
Jórunn Pálsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jórunni Pálsdóttur og Margréti Ásgeirsdóttur: "Hlutverk skóla er fyrst og fremst að mennta börn. Varhugavert er að beita flötum niðurskurði á þann þátt eins og sveitarfélög virðast einblína á."

OKKUR fýsir að svara nokkrum staðhæfingum sem komu fram í fréttaskýringu Steinþórs Guðbjartssonar í Morgunblaðinu hinn 15. desember 2009. Þar ræðir hann við Svandísi Ingimundardóttur, skólamálafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem réttlætir niðurskurð sem skólarnir þurfa að takast á við rétt eins og aðrir í samfélaginu. Staðhæfingar sem fram koma í greininni þarfnast frekari skýringa.

Við bendum á að skólarnir eru reknir af sveitarfélögunum og það sem fer þar fram er að miklu leyti á þeirra ábyrgð. Sveitarfélögin tóku við grunnskólanum af ríkinu 1996. Rökin voru þau að grunnskólinn væri „nærþjónusta“ og að sveitarfélögin væru betur í stakk búin til að bæta þjónustuna en ríkið.

Greinilegt er að Svandís telur að stefna sveitarfélaganna hafi brugðist að einhverju leyti. Ýmsu var breytt og metnaður lagður í að bjóða upp á bestu mögulega þjónustu við foreldra og nemendur. Þetta var ákvörðun sveitarfélaganna. Í góðærinu lögðu sveitarfélögin áherslu á:

einsetinn skóla, heitan mat í hádeginu með uppbyggingu mötuneyta, einstaklingsmiðað nám, skóla án aðgreiningar, áætlun gegn einelti, atferlismeðferð, skóla í heimabyggð, frístundastarf fyrir börnin, viðbyggingar og íburðarmiklar skólabyggingar í nýjum hverfum. Rangfærslurnar í fréttaskýringunni eru þannig að líklegt er að þær eigi að milda áhrif niðurskurðar á foreldrasamfélagið með því að skella skuldinni á starfsmenn sveitarfélaganna. Niðurstaðan er sú að skólakerfið sé of dýrt og árangur ekki í samræmi við kostnað.

Svandís nefnir að með því að beita „árangursríkari kennsluaðferðum sé hægt að lækka útgjöld til menntamála um allt að 30% án þess að minnka gæði og umfang kennslu“. Hér hefði verið upplýsandi fyrir lesendur að fá örlitla innsýn í hvaða kennsluaðferð er gædd þeim eiginleikum að lækka kostnað um þriðjung.

Samkvæmt greininni kostaði hver nemandi 1.154 þúsund krónur árið 2008, 927 þúsund krónur 2004 og með því að beita árangursríkari kennsluaðferðum, án þess að minnka gæði og umfang kennslunnar, væri hægt að koma kostnaði per nemanda niður í 807 þúsund krónur. Ekki á að skerða framlög til kennslu nemenda með annað móðurmál og fatlaðra nemenda þó fækka eigi kennurum, stuðningsfulltrúum, skólaliðum, fjölga í bekkjum og skera niður kennslumagn. Þetta þýðir að um verulegan niðurskurð verður að ræða hjá öðrum nemendum.

Svandís segir að á Íslandi séu hlutfallslega fæstir nemendur á hvert stöðugildi miðað við nágrannalöndin. Þetta þarf engum að koma á óvart. Samkvæmt skýrslu OECD á það sama við um sveitarstjórnarmenn. Þar eru hlutfallslega færri íbúar á bak við hvern en víðast hvar annars staðar í heiminum. Viðlíka staðreyndum hefur verið kastað fram um lögregluþjóna, lækna, þingmenn, ráðherra o.s.frv. En til áréttingar, þá eru 20% skóla á landinu með 50 nemendur eða færri og 30% skóla eru með 100 nemendur eða færri. Með öðrum orðum þá er helmingur íslenskra grunnskóla svokallaðir „fámennir skólar“. Ísland er strjálbýlt og þar af leiðandi nýtast stöðugildi illa. Annað atriði sem Svandís nefnir er að ekki hafi verið færðar sönnur á að fámennir bekkir skili betri árangri en fjölmennir. Við bendum á niðurstöður rannsókna í STAR-verkefninu sem sýna að árangur í lestri og stærðfræði á yngsta stigi grunnskólans sé betri hjá nemendum í minni bekkjum en stærri og skili sér áfram þótt fjölgað sé í bekkjum á miðstigi (http://www.heros-inc.org/star.htm).

PISA-rannsóknin hefur um allnokkurt skeið verið svipa á íslenskum grunnskólum. Umræðan nær þó aldrei að verða málefnaleg. Rannsóknarniðurstöðum ber að taka með fyrirvara um forsendur. Nefna má að niðurstöður PISA fóru niður á meðan úrvalsvísitalan fór upp. Til þess að lönd séu samanburðarhæf á þann hátt, sem notaður er í fréttaskýringunni, þarf skólastefnan að vera svipuð.

Hugmyndafræði skólastefnu sveitarfélaganna má líkja við skemmtiskokkið í Reykjavíkurmaraþoninu. Allir með og markmiðið að komast á leiðarenda á eigin forsendum. Þessi hugmyndafræði er kennd við einstaklingsmiðað nám. Hún er óskýr og hefur valdið misskilningi og óöryggi hjá mörgum kennurum sem halda að þeir þurfi að sinna hverjum einstaklingi þannig að hver og einn sé í sjálfsnámi og kennarinn verkstjóri í stað þess að kenna á fjölbreyttan hátt hópi þar sem hver og einn lærir á eigin forsendum þótt allir fari í gegnum sama efni á sama tíma. Á sínum tíma töldum við varhugavert að krefjast þess að teknir yrðu upp kennsluhættir sem byggðust á óljósri hugmyndafræði sem var lítt studd af rannsóknum. Að auki er hún dýr í framkvæmd.

Sveitarfélagið okkar mótaði þá skólastefnu sem við vinnum eftir. Ef stjórnendum þess finnst að stefnan hafi mistekist þá verða þeir að glíma við þann vanda. Kennarar eru opnir fyrir vitrænum tillögum um hvernig hægt er að bæta enn frekar skólastarf á Íslandi en hafa skal í huga að börnin eru framtíðin og menntun þeirra fer fram í dag en ekki á morgun.

Jórunn Pálsdóttir, B.Ed., Dipl. Ed. í upplýsingatækni, og Margrét Ásgeirsdóttir, B.Ed., M.Ed. í kennslufræði og skólastarfi, eru kennarar við fjölmennasta barnaskóla í Reykjavík.