„ÞAÐ er umfram allt að nota öll tækifæri sem bjóðast til þess að gera eitthvað óvenjulegt eða skemmtilegt, ferðast og annað þess háttar, bæði í vinnu og tómstundum.“ sagði Þóroddur F.

„ÞAÐ er umfram allt að nota öll tækifæri sem bjóðast til þess að gera eitthvað óvenjulegt eða skemmtilegt, ferðast og annað þess háttar, bæði í vinnu og tómstundum.“ sagði Þóroddur F. Þóroddsson, jarðfræðingur og söngmaður, sem fagnar 60 ára afmæli í dag. Hann hefur sungið mikið um ævina og verið í mörgum kórum. Nú hittir hann nokkra gamla kunningja vikulega til að taka lagið. Eins syngur hann með Kammerkór Reykjavíkur sem æfir nú perlur úr kirkjutónlist sem ætlunin er að flytja í vor hér heima og í júní á Ítalíu.

Þóroddur er búinn að bjóða vinum og ættingjum í gleðskap á laugardagskvöldið kemur. En má þá ekki eiga von á að það verði mikið sungið í afmælinu? „Jú, vonandi. Það er engin skemmtun án söngs,“ sagði Þóroddur.

Auk söngsins hefur Þóroddur lagt mikla stund á útivist. „Ég hefði viljað byrja miklu fyrr að ganga á fjöll og að fara á skíði,“ sagði Þóroddur. „Ég keypti mér raunar gönguskíði 1971 en notaði þau ekkert svipað þá og ég hef gert undanfarin fimm ár. Fyrst þekkti maður ekki það að ganga á skíðum í spori og minna var um að lögð væru spor. Það er firnagaman líka að fara í ferðalög á skíðum.“ gudni@mbl.is