Brattir Morðingjarnir, bestu vinir unglinganna.
Brattir Morðingjarnir, bestu vinir unglinganna. — Morgunblaðið/Árni Torfason
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is ÞRJÁR þriggja manna hljómsveitir hafa nú tekið sig til og eru á leið í sex félagsmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu þar sem þær munu halda ókeypis tónleika.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

ÞRJÁR þriggja manna hljómsveitir hafa nú tekið sig til og eru á leið í sex félagsmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu þar sem þær munu halda ókeypis tónleika. Sveitirnar gáfu allar út plötur á vegum Kimi Records í haust við prýðisviðtökur en þær eru Me, The slumbering Napoleon, Morðingjarnir og Kimono. Í gær var kíkt í Frostaskjól, í kvöld er það Hitt húsið og á morgun Miðberg í Breiðholti. Á mánudeginum er það svo Tónabær, á þriðjudaginn Engyn í Grafarvogi og á miðvikudaginn Tían í Árbæ.

Sudden Weather Change spilaði einnig með í Frostaskjóli og leikur líka í Miðbergi og Tónabæ, en hún er nýkomin úr stuttu en vel heppnuðu tónleikaferðalagi til Englands.

Að sögn Péturs Eggertssonar hjá Kima kom hugmyndin frá hljómsveitunum sjálfum.

„Þeim fannst vanta þessa tónleikamenningu í félagsmiðstöðvarnar en slíkt var mjög algengt í gamla daga. Krakkar á félagsmiðstöðvaaldrinum komast ekki inn á staði og því er þetta gott tækifæri fyrir þau að upplifa þessa neðanjarðarrokksstemningu. Að sjá heita rokksveit á fullu spani þegar þú ert fjórtán ára er nokkuð sem situr eftir vel og lengi í næmum unglingshuganum. Ef vel gengur verður framhald á, og þá fáum við mögulega aðrar hljómsveitir inn í þetta. Förum jafnvel út á land og heimsækjum félagsmiðstöðvarnar þar.“