Enginn velkist í vafa um að vandi Íslendinga sé mikill um þessar mundir. En við erum ekki ein á báti, öðru nær. Önnur lönd eru mörg hver einnig í mjög þröngri stöðu eftir stóra skelli í fjármálalífinu.

Enginn velkist í vafa um að vandi Íslendinga sé mikill um þessar mundir. En við erum ekki ein á báti, öðru nær. Önnur lönd eru mörg hver einnig í mjög þröngri stöðu eftir stóra skelli í fjármálalífinu. Gagnvart sumum þessara ríkja er Ísland að mati fremstu sérfræðinga í þeirri öfundsverðu stöðu að hafa sinn eigin gjaldmiðil, sem lýtur þeim lögmálum sem uppi eru í landinu sjálfu en binst ekki stöðu annarra sem er gjörólík. Þessi munur skiptir sköpum um að við gætum orðið á undan öðrum upp úr öldudalnum. En þá þvælist heimabakað böl fyrir. Leiðsögnin í landinu þarf þá endilega að vera í molum. Skattar eru hækkaðir á öllum sviðum, skattkerfin eru skemmd í leiðinni og settir klafar upp á hundruð milljarða á þjóðina án þess að fyrir því finnist nokkur lagaleg rök.

Þessu til viðbótar kemur hin eyðileggjandi umræða í landinu sem stjórnarforystan stendur fyrir. Margvíslegar breytingar eru keyrðar í gegn í skjóli fullyrðingaflaums og hótana og er eitt notað sem rök í dag og hið gagnstæða á morgun.

Allir þekkja síendurteknar fullyrðingar mánuðum saman um að tafir á afgreiðslu ríkisábyrgðar á Icesave í fáeina daga stefni íslenskum þjóðarhag í voða. Þetta er endurtekið við hvert nýtt tilefni, þótt hótanirnar hafi jafnan reynst innistæðulausar. Svo þegar hentar er blaðinu snúið við á augabragði. Nýjasta dæmið um það er hrópandi. Rannsóknarnefnd Alþingis þarf að fresta birtingu skýrslu sinnar. Birtingin virðist ætla að falla saman við boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Steingrímur Sigfússon er þegar kominn með hljóðnemana upp í sig og segir að augljóst sé að fresta verði atkvæðagreiðslunni um Icesave því í skýrslunni kunni að vera mikilvægar upplýsingar sem þurfi að liggja fyrir við atkvæðagreiðsluna. Steingrímur heimtaði fyrir fjórum vikum að Icesave yrði afgreitt án tafar í þinginu því annars færi allt í upplausn og voða eins og jafnan áður. Þá var von á rannsóknarskýrslunni eftir fjórar vikur. Af hverju varð ekki þingið að bíða með afgreiðsluna þá ef Steingrímur telur að í henni sé að finna atriði sem skipti höfuðmáli um afgreiðslu Icesave? Hvað hefur gerst í millitíðinni? Hvaða ráðleysisruglandi er þetta?