Jón Tryggvi Hetjurnar hans eru Johnny Cash og Neil Young.
Jón Tryggvi Hetjurnar hans eru Johnny Cash og Neil Young.
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

„ÉG MUN spila plötuna í heild, frá fyrsta lagi til þess síðasta og aukalög ef salurinn óskar þess,“ segir tónlistamaðurinn Jón Tryggvi sem heldur tónleika í Salnum í Kópavogi í kvöld í tilefni útkomu plötunnar Silkimjúk er syndin .

Platan, sem er fyrsta sólóplata Jóns Tryggva, kom út í byrjun desember og eru öll lögin á henni eftir hann. „Ég hafði alltaf í huga að gefa út plötu með tónsmíðum mínum og er meira að segja með aðra í maganum núna,“ segir Jón Tryggvi. Hann á einnig textana við tíu lög af tólf á plötunni, tveir þeirra eru ljóð eftir Davíð Stefánsson og Stein Steinarr. „Davíð Stefánsson er í sérstöku uppáhaldi hjá mér og ég sæki mikinn innblástur í hann. Ég var síðan beðinn um að semja lag við ljóð Steins Steinarr, „Í draumi sérhvers manns“, og fannst það heppnast svo vel að ég ákvað að hafa það með á plötunni,“ segir Jón Tryggvi sem kemur vanalega fram einn með kassagítarinn en er með heila hljómsveit sér til fulltingis á plötunni. Sama hljómsveit kemur fram með honum á tónleikunum í kvöld.

Í tónsmíðum sínum segist Jón Tryggvi aðallega vera undir áhrifum bandarískrar þjóðlagatónlistar en sæki líka í þá íslensku. „Ég hlusta mikið á Johnny Cash, Neil Young og aðra slíka. Blúsgítarleikarar eru hetjurnar.“

Tónlistin hefur átt hug og hjarta Jóns Tryggva lengi, eða frá því hann byrjaði að læra á fiðlu sjö ára gamall.

„Ég lagði fiðluna á hilluna þegar ég var þrettán ára og fékk rafmagnsgítar. Síðan fór ég yfir í kassagítarinn um tvítugt og byrjaði um svipað leyti að skrifa texta og setja melódíu við.“

Útgáfutónleikar Jóns Tryggva hefjast kl. 20.30 í Salnum í kvöld. Miðaverð er 1.500 kr. og hægt er að nálgast miða á midi.is og salurinn.is.