Vera Sölvadóttir
Vera Sölvadóttir
Eftir Veru Sölvadóttur: "...stétt kvikmyndagerðarfólks hefur lengi verið láglaunastétt. Flestir vinna þar af hugsjón. Við berum mikla ábyrgð og erum sendiherrar Íslands um heim allan."

NIÐURSKURÐUR hins opinbera bitnar á öllum og er óhjákvæmilegur. Niðurskurðurinn sem nemur 35% lækkun framlaga til kvikmyndasjóðs á fjárlögum 2010 er fordæmalaus. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verða framlög til Kvikmyndasjóðs skorin úr þeim 700 milljónum, sem þau eiga að vera í samkvæmt samningi ríkisins við greinina, niður í 450 milljónir króna. Ásættanlegur niðurskurður væri svipaður og í öðrum listgreinum, eða á bilinu 0-10%. Það er óskiljanlegt að yfirvöld stefni að því að skera enn meira niður í kvikmyndageiranum sem hefur loksins náð sér almennilega á strik á Íslandi. Síðan kemur rothöggið frá RÚV sem kýs að beita kvikmyndagerðarmönnum fyrir sig til að pressa á stjórnvöld um aukafjárframlög til stofnunarinnar. Við hinsvegar neitum því að vera bitbein á milli stjórnvalda og Ríkisútvarpsins.

Afleiðingarnar verða þær að framleiðsla á leiknu efni sem hefur tekið gífurlegum framförum á síðustu misserum mun dragast saman og hugsanlega leggjast alveg af og útilokað verður að framleiða heimildarmyndir. Viðfangsefnin blasa við okkur sem höfum það hlutverk að fjalla um samtímann bæði í leiknu efni og heimildarefni, fjalla um hrunið og afleiðingar þess. Það er einmitt í þessum verðmætum sem hagsmunir okkar allra liggja og munu marka spor sín á sögu okkar og þjóðfélag. Kvikmyndagerð er öflugt vopn í erfiðri baráttu Íslands í miðju efnahagshruni.

Við erum að berjast við að skapa atvinnugrein sem hefur mikla möguleika á að verða ein af stoðum þess samfélags sem hér þarf að byggja. Einmitt sú tegund framleiðslu sem við ættum að hlúa að og nota til að vinna okkur út úr kreppunni. Það er staðreynd í þessum bransa að þeir framleiðendur sem ekki hafa vilyrði um sýningu í sjónvarpi eiga enga möguleika á að sækja um styrki annars staðar frá. Því mun niðurskurður í framleiðslu íslenskra kvikmynda og annars efnis verða tvöfalt meiri en sá niðurskurður sem verður á fjárframlagi ríkisins. Meira en helmingur þess fjár sem fer í framleiðsluna kemur frá einkaaðilum og frá útlöndum. Óþarft er að taka það fram að það færir gjaldeyri til landsins. Kvikmyndagerð skilar því beinum hagnaði, má þá benda á að flestar eða allar þær leiknu bíómyndir eða sjónvarpsþáttaraðir sem framleiddar voru hér undanfarin ár hafa verið seldar til erlendra sjónvarpsstöðva.

Þessi niðurskurður vinnur þvert gegn stefnu stjórnarinnar á öðrum sviðum. Iðnaðarráðuneytið hefur verið að auka endurgreiðslu vegna kvikmyndaframleiðslu í samkeppni við önnur lönd til að fá hingað kvikmyndaverkefni, endurgreiðslan er því tekjuöflunartæki ekki styrkur til kvikmynda. Þessi niðurskurður mun koma til með að kosta fjöldamörg störf. Hvað getum við þá gert með allt okkar fagfólk sem hefur byggt upp þekkingu sem skilar íslensku hugviti út í samfélagið bæði hér heima og erlendis? Fagið er enn ungt hér á landi. Íslensk kvikmyndafyrirtæki hafa í góðri trú með þann samning sem í gildi er við menntamála- og fjármálaráðuneytið til dæmis fjárfest í eftirvinnslu kvikmynda sem nú fer að mestu leyti fram innanlands í kjölfar tækniþróunar sem gerir það mögulegt. Með þessum gjörningi er verið að kippa fótunum undan þessari grein. Við höfum allan þann búnað, þekkingu og kraft sem til þarf til að halda batteríinu gangandi. Ein ástæða þess að erlend kvikmyndafyrirtæki hafa treyst sér til að koma hingað með stór verkefni er sú að til staðar er vel menntað kvikmyndagerðarfólk sem kann til verka. Með þriðjungs fækkun starfa í greininni verður þessu ekki lengur til að dreifa.

Ég vil taka það sérstaklega fram að stétt kvikmyndagerðafólks hefur lengi verið láglaunastétt. Flestir vinna þar af hugsjón. Við berum mikla ábyrgð og erum sendiherrar Íslands um heim allan. Kvikmyndir okkar eru sú landkynning sem við þurfum á að halda núna. Rannsóknir hafa sýnt að beint samband er á milli sýninga íslenskra kvikmynda erlendis og ferðamannastraums frá viðkomandi landi hingað. Hér er því ekki aðeins um almenna landkynningu að ræða heldu beinharða hagsmuni. Við erum ekki stétt sem þekkt er fyrir væl og viljum við svo sannarlega ekki byrja á því núna. Flestir sem ég þekki í greininni lepja dauðann úr skel og halda áfram að harka þrátt fyrir mótlæti. Við ætlum ekki að sitja undir þessari óréttmætu skerðingu þegjandi og hljóðalaust heldur berjast fyrir tilverurétti okkar eins og svo oft áður. Við viljum ekki berjast við stjórnvöld fyrir hönd Ríkisútvarpsins enda finnst okkur meiri þörf á því núna en nokkurn tíma að þeir sem vinna að framgangi íslenskrar menningar taki höndum saman og sýni skynsemi og sanngirni á þessum erfiðu niðurskurðartímum.

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.