Jóhannes Þorsteinsson bifreiðastjóri fæddist í Reykjavík 8. desember 1930. Hann lést í Svíþjóð 31. desember síðastliðinn. Foreldrar Jóhannesar voru Þorsteinn Arberg Guðni Ásbjörnsson prentari, f. 21.8. 1904, d. 13.7. 1971, og Sæunn Jófríður Jóhannesdóttir húsmóðir, f. 18.2.1908, d. 14.1. 1997. Systkini Jóhannesar eru Helga, f. 16.12. 1931, Guðni Arberg, f. 29.4. 1934, Málfríður Ólína, f. 2.12. 1935, d. 17.9. 2003, Steini Sævar, f. 28.6. 1939, og Árni Hreiðar, f. 29.12. 1950. Hinn 13. maí 1950 giftist Jóhannes Amelíu Magnúsdóttur, f. 16.11. 1951, d. 12.9. 2001. Jóhannes og Amelía áttu átta börn: 1) meybarn f. 5.6. 1950, d. 5.6. 1950. 2) Magný, f. 3.8. 1951, börn Linda Hrönn, f. 7.6. 1971, Helena Dröfn, f. 2.7. 1974, og Sævar, f. 16.5. 1979. 3) Sæunn, f. 27.11. 1954, börn Anna Jóna, f. 31.1. 1973, Birna Silvía, f. 21.11. 1976, Þórhallur, f. 19.4. 1983, og Magnús, f. 13.4. 1988. 4) Magnús Jóhannes, f. 24.7. 1957, d. 2.11. 1997. 5) Sólveig Jóna, f. 17.11. 1 961, maki Haraldur Jónsson, f. 4.12. 1950, dóttir þeirra er Ásta Laufey, f. 29.3. 1989, d. 14.4. 1989. 6) Svala Guðbjörg, f. 8.4. 1964, börn Jóhannes, f. 7.4. 1981, Herbert Ásgeir, f. 30.10. 1984, Svanur, f. 11.5. 1990, og Guðmundur, f. 26.9. 1992. 7) Svanhildur, f. 28.9. 1996, maki Gunnar Sigurðsson, f. 6.5. 1965, börn Sigurður Snorri, f. 24.9. 1990, Vignir, f. 17.6. 1992, og Gunnhildur Dís, f. 23.1. 1998. 8) Sonja, f. 11.12. 1967, börn Áslaug, f. 24.11. 1987, Kristín Amy, f. 7.7. 1994, og Eva Lind f. 19.2. 1999.

Útför Jóhannesar fer fram í Fossvogskirkju í dag, 28. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku pabbi minn og elsku afi okkar. Takk innilega fyrir öll árin sem við höfum fengið að eyða með þér. Allar ferðir sem við höfum farið með þér og líka þegar mamma/amma okkar var með okkur í lífinu. Sérstök var ferðin á Íslandi þegar við fórum með Svíana frá Norrköping. Ferðin var tólf daga löng og allt vel undirbúið á rútu frá Teiti. Allir sem tóku á móti hópnum, bæði fjölskyldan og fólkið á þeim stöðum sem við gistum, voru alveg ógleymanlegir. Í Norrköping í Svíþjóð er ennþá verið að tala um þessa flottu ferð sem var farin til Íslands og mikið talað um Jóhannes bílstjóra. Þú varst svo góður ferðafélagi og þægilegur við alla. Þú og mamma kynntust á unglingsárunum ykkar og ég er barn númer þrjú. Þú sagðir öllum að þú hefðir verið heima þegar ég fæddist og að ljósmóðirin hefði lagt mig í fangið á þér og þú sagðir alltaf „þessi stóru augu þín voru svo biðjandi“ og stundin fyrir þig og Magný stóru systur mína var víst alveg einstök á þessum tíma. Þú varst hamingjusamur yfir þessari stund. Pabbar og systkin voru víst ekki með á þessum tíma þegar börnin voru að koma í heiminn.

Það er af mörgu að taka pabbi minn núna þegar maður lítur til baka og skoðar lífið þitt. Þá eru áhugamálin þín mörg og fjölskyldan var öll með í þeim áhuga, hvort sem það var veiði, flug eða bílarnir og öll ferðalögin sem við höfum farið saman í. Við fórum nýlega til Tallin og það var með Baltic Queen, nýjasta skipinu þeirra Silja Line. Þú varst eins og kóngur, alltaf svo sætur og fínn. Þegar við fórum í fyrstu ferðina með Silja Symphony fyrir fimmtán árum, þegar þú og mamma komuð hingað til okkar og ég vildi gleðja ykkur sérstaklega, líka út af því að mamma var mikið veik og ekki vissi maður hversu mörg ár maður myndi fá að hafa ykkur heldur, runnu tárin þín niður kinnarnar þínar og þú sagðir: „Maður er bara sjanghæaður“. Þú varst svo glaður og við öll að sjálfsögðu. Þú fórst nokkrar ferðir til Norrköping eftir að mamma dó og svo ákvaðst þú að flytja hingað. Þú sagðir: „Ég verð ánægður ef ég fæ tvö góð ár hérna,“ og þau fékkstu. Þú hafðir það best auðvitað. Þér fannst gaman að koma til Tuppen og vera með á danskvöldum og þegar mikil músík var þar. Þú spilaðir líka oft á nikkuna fyrir fólkið. Tungumálið skipti þig engu, þú skildir alla og allir skildu þig. Guðjón var svo góður að hjálpa þér með tölvuna þína svo þú gast verið í daglegu sambandi við alla á Íslandi. Þú varst líka í fluginu á tölvunni og þú varst að reikna út hversu mikið eldsneyti vélin fór með frá Reykjavík til Færeyja og þetta var þitt áhugamál. Þú varst líka glaður uppi á sjöttu hæð og sólin, tunglið og stjörnurnar voru nágrannarnir þínir. Þú varst mikill spekúlant þar. Þú varst, eins og maður segir, þúsundþjalasmiður. Þú kunnir margt og allt sem þú gerðir gerðir þú svo vel.

Elsku pabbi minn, mest af öllu elskaðir þú okkur öll. Takk fyrir öll árin sem við fengum saman.

Dóttir þín og barnabörn,

Sæunn, Anna Jóna, Peter og Tinna, Birna Sylvía, Tommy og fjölskylda, Þórhallur og Magnús og Ása.

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima.

Ó, elsku pabbi, ég enn þá er

aðeins barn, sem vill fylgja þér.

Þú heldur í höndina mína.

Til starfanna gekkstu með glaðri lund,

þú gleymdir ei skyldunum eina stund,

að annast um ástvini þína.

Þú farinn ert þangað á undan inn.

Á eftir komum við, pabbi minn.

Það huggar á harmastundum.

Þótt hjörtun titri af trega og þrá,

við trúum, að þig við hittum þá

í alsælu á grónum grundum.

Þú þreyttur varst orðinn og þrekið smátt,

um þrautir og baráttu ræddir fátt

og kveiðst ekki komandi degi.

(Hugrún.)

Þín dóttir,

Sonja.

Elsku pabbi, nú er komið að kveðjustund og margs er að minnast.

Þú elskaðir að ferðast og þið mamma voruð dugleg að fara saman bæði innanlands og utan. Þegar við vorum lítil var farið upp í sumó með fullan bíl af fólki og þar var nú margt brallað, farið í búleiki, tínd ber, farið út í læk að sækja vatn til að sjóða kakó og hella upp á kaffi, svo var farið í yfir og snú snú og út í á að veiða. Þú elskaðir að veiða með Magga Jóa bróður og við stelpurnar fengum stundum að vera með. Svo þegar fiskurinn beit á þá kallaðir þú í okkur og leyfðir okkur að klára að draga aflann í land, þá vorum við afskaplega glaðar.

Við bjuggum á Kleppsveginum þar sem var mikið af yndislegu fólki og allir voru eins og ein fjölskylda og allir pössuðu alla. Þú varst alltaf svo mikið snyrtimenni, fórst aldrei út úr húsi nema á nýpússuðum skóm og þú varst alltaf að þvo og bóna bílinn. Þú vildir alltaf vera á fínum bíl í leigubílaakstrinum. Þoldir illa skítuga bíla og það þurfti að pússa felgurnar líka því þær voru tærnar á bílnum eins og þú sagðir alltaf. Þú pússaðir meira að segja ofan í húddinu og varst aldrei ánægður nema allt væri tandurhreint. Þú elskaðir að sýna bílana þína og opna húddið þar sem allt var glansandi hreint. Þú keyrðir leigubíl í fimmtíu og tvö ár og þakkaði mamma fyrir hvern dag sem þú komst heill heim úr umferðinni sem var oft þung og dagarnir langir.

Við fluttum svo í Hamrabergið og þar elskaðir þú að vera, gerðir garðinn fallegan, elskaðir að slá Amy og Jói í grasflötina og gerðir hjarta í kringum nöfnin. Garðurinn var mjög fallegur og þar var snyrtimennskan í fyrirrúmi eins og í öllu hjá þér.

Þú spilaðir á harmonikku, spilaðir eftir eyranu og gast spilað hvað sem var. Þið Maggi Jói spiluðuð saman, þú á nikkuna og hann á trommurnar, og þá var alltaf gaman hjá okkur.

Þú elskaðir að fljúga og fórst stundum með okkur í flugtúra. Við fórum kannski í sunnudagsbíltúr og enduðum niðri á velli þar sem þú leigðir vél og fórst með okkur í flugferð. Við fórum líka á flugdaginn þar sem við skoðuðum flugvélarnar og horfðum á sýningarnar.

16 ára flutti ég að heiman, fór norður í Skagafjörð þar sem ég bý enn með mína fjölskyldu. Þið mamma voruð dugleg að koma til okkar bæði í Hofsós og á Krókinn. Eftir að barnabörnin fæddust komuð þið í öll afmæli og þú varst duglegur að hjálpa til ef eitthvað þurfti að dytta að og laga. Þú elskaðir að koma á ættarmótin í Melsgilinu þar sem þú hittir allt þitt fólk og áttir góðar stundir með okkur. Við viljum þakka þér fyrir að koma á ættarmótið í sumar þar sem við fórum í frábæra ferð saman í Hóla og á Sleitustaði þar sem við skoðuðum virkjunina og drukkum nesti í Fagralundi. Við heimsóttum Gunnar og Sólveigu í Stóragerði og skoðuðum bílasafnið. Þar var yndislegt að koma og þar varstu á heimavelli innan um bílana með bræðrum þínum. Þið voruð eins og kóngar í bílnum hjá Þorsteini frænda þegar hann keyrði ykkur um fjörðinn. Gott að þú komst pabbi.

Þú misstir mikið þegar mamma dó en nú ertu kominn til hennar, í fallega garðinn ykkar þar sem ljósið er og allt er svo bjart og fallegt. Þar getið þið dansað eins og þið gerðuð þegar þið kynntust fyrst, ung og áhyggjulaus.

Við fjölskyldan þökkum fyrir allt.

Þín dóttir,

Svanhildur.

Góður drengur er genginn,

góður maður er dáinn.

Minnir hann oft á máttinn

maðurinn slyngi með ljáinn.

Allra okkar kynna

er ánægjulegt að minnast.

Mér finnst slíkum mönnum,

mannbætandi að kynnast.

(Kristján Árnason frá Skálá.)

Elsku pabbi minn. Á kveðjustundu vil ég þakka þér samfylgdina í gegnum lífið og það að þú reyndir ávallt að kenna mér að breyta rétt og verða þannig að þroskaðri og betri manneskju. Innra með þér blundaði ávallt mikið náttúrbarn. Þú kenndir mér allt um veiðar og ófáar ferðir fékk ég að fara með þér sem barn. Í slíkum ferðum eru engin vandamál til í huga barnsins og það móttækilegt fyrir allri tilsögn sem ég minnist nú með mikilli hlýju.

Eftir að ég og Haddi minn höfðum stofnað heimili okkar uppi á Skaga komst þú ósjaldan við ásamt mömmu og haldið var saman á undurfallega staði í náttúru landsins okkar og rennt fyrir silung. Þú kynntir mér undur landsins okkar einnig úr lofti þar sem þú að sjálfsögðu varst sjálfur við stjórnvölinn í flugvélinni. Þolinmæðin þín að fræða mig um flugvélar var engu lík og að sjálfsögðu fékk stelpan að prófa og hélt að hún væri sjálf að fljúga vélinni. Það var dásamlegt en að sjálfsögðu var sjálfstýring þín traust í þessu og mikið hlógum við seinna að þessum minningum barnsins.

Tónlistin var ávallt áhugamál þitt og spilaðir þú öll lög nótulaust. Þú hafðir næmt tóneyra og miðlaðir fallegum lögum til okkar með harmonikuleik þínum. Já, áhugmálin voru mörg og fékk ég einnig að vera þátttakandi í fornbíladellu þinni. Að fara á rúntinn með pabba í glæsilega Ford-bílnum þínum toppaði allt, fá að ýta á flautuna og vera númer. „Ætlar þessi stelpa aldrei að róast?“ – kom oft hjá þér svo hlógum við saman og nutum stundarinnar. Þannig mun ég ávallt minnast þín, elsku pabbi minn.

Nú við leiðarlok bið ég góðan Guð að styrkja okkur öll. Ég vil færa sértakar þakkir til allra sem hafa veitt okkur stuðning við fráfall þitt. Sérstakar þakkir færi ég til Guðjóns Bjarnasonar og konu hans, nágranna pabba í Svíþjóð, en pabbi var búsettur í Nörrköping síðustu tvö æviárin sín.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífs þíns nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði nú sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Sólveig Jóna Jóhannesdóttir.

Elsku afi okkar

Við eigum minningar um brosið bjarta,

lífsgleði og marga góða stund,

um mann sem átti gott og göfugt hjarta

sem gengið hefur á guðs síns fund.

Hann afi lifa mun um eilífð alla

til æðri heima stíga þetta spor.

Og eins og blómin fljótt að frosti falla

þau fögur lifna aftur næsta vor.

(Guðrún Vagnsdóttir.)

Núna hefur amma tekið á móti þér við eigum eftir að sakna þín mikið eins og hennar.

Áslaug, Amy og Eva Lind.

Elsku afi minn. Margar góðar minningar koma upp í hugann.

Sem krakki fór ég mikið í sund og á eftir var gott að koma í afa- og ömmuhús og fá súkkulaðiköku og mjólk með, í boði var alltaf súkkulaðikakan hennar ömmu, held að það hafi ekki komið upp sá dagur sem kakan var ekki nýlega bökuð á borðinu, þetta var líka uppáhaldskakan okkar krakkanna.

Eftir bæjarferð 17. júní var alltaf grillpartí í Hamraberginu og garðurinn skreyttur með blöðrum og öll fjölskyldan saman komin og mikið gaman.

Afi, þú passaðir upp á að eiga Tomma og Jenna á spólu fyrir okkur krakkana þegar við komum í heimsókn til ykkar ömmu. Flesta sunnudaga var líka komið til ykkar ömmu og horft á Húsið á Sléttunni.

Sumarbústaðarferðir með veiðiferðum eru líka í minningunni.

Á jólunum var mikið skreytt hjá ykkur og fallegasta jólaskrautið hjá ykkur ömmu var bóndabærinn sem þú bjóst til með rauðri seríu og svo spilaðir þú, afi, á nikkuna, það var svo gaman og amma bjó til heitt súkkulaði, já, alvöru súkkulaði með þeyttum rjóma, það var sko ekki neitt heitt kakó í boði hjá ykkur, bara aðeins það besta.

Garðurinn ykkar ömmu var sérstaklega fallegur og á góðum sólardegi sat amma úti í garði að sóla sig með kaffibollann en þú varst iðinn við að gera fallegt umhverfi í kringum ykkur ömmu með því að huga að gróðrinum eða úti að mála gluggana, allt leit svo vel út hjá ykkur ömmu. Einu sinni klipptir þú grasið í garðinum þannig að þú myndaðir nöfnin ykkar ömmu „Amý og Jói“, glæsilegt listaverk.

Afi minn ryksugaði og skúraði og sá um heimilið þegar amma var orðin mjög veik. Amma sagði líka einu sinni við mig: „Helena mín, ég hefði ekki getað átt betri mann en hann afa þinn sem sér svo vel um mig í veikindunum, hann afi þinn er sá allra besti.“

Karen mín var skírð á afmælisdeginum þínum 1996 og það gladdi þig mikið þegar þú komst í heimsókn frá Svíþjóð 2008 færðir þú Karen fallegt perluhálsmen sem hún mun bera á fermingardaginn sinn 18. apríl.

Elsku afi, takk fyrir allar skemmtilegu myndirnar sem þú sendir okkur eftir að þú fluttir til Svíþjóðar, þar áttir þú góðan tíma og skemmtir öðrum með því að spila á nikkuna. Gaui og Kickan reyndust þér mjög vel og þú varst heppinn að eiga þau að. Þú og Gaui líka orðnir mjög góðir vinir.

Afi minn. þú valdir aldeilis daginn til að kveðja, amma hefur tekið vel á móti þér nýlega búin að fara í lagningu í rauðu dragtinni með rauða varalitinn tilbúin fyrir gamlárskvöld. Nú eruð þið saman á ný. Þið eruð klárlega flottustu englarnir.

Elsku afi, hvíl í friði ég bið að heilsa elsku ömmu.

Kveðja,

Helena Levísdóttir.

Elsku afi okkar.

Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Farðu í friði.

Sigurður Snorri, Vignir og Gunnhildur Dís.

Þegar sú harmafregn barst okkur hjónunum á nýbyrjuðu ári, að Jói vinur okkar væri allur, hann hefði látist á gamlársdag, varð hljótt um stund á heimili okkar á Eyrarbakka. Í huga minn komu hendingar úr ljóði, sem ég heyrði á uppvaxtarárum mínum í Eyjum:

Við leiðarendann vinur, hve

lágvær ég er

og langsótt í orðanna sjóð.

Mér finnst eins og allt hafi þagnað með þér

og þrotið hvert stef og hljóð.

Við Jói kynntumst fyrir tæplega hálfri öld þegar við störfuðum báðir við akstur leigubifreiða og varð okkur strax vel til vina. Síðan hefur vináttan varðveist og verið mér og konu minni mikils virði. Hann vakti strax athygli mína, þessi prúði og hægláti maður, fyrir hve duglegur hann var til vinnu og fylginn sér. Tvö sameiginleg áhugamál áttum við, en þau voru flug og harmonikkuleikur. Jói var með einkaflugmannspróf og minnist ég margra skemmtilegra flugferða með honum. Hann var einnig mjög lipur á nikkuna. Eftir að Jói flutti til Svíþjóðar til dóttur sinnar Sæunnar vorum við síðustu árin í nær daglegu tölvusambandi með hjálp tækninnar. Fastur punktur í tilverunni var að heyra í Jóa og höfum við átt margar skemmtilegar stundir í spjalli. Stundum höfum við sýnt hvor öðrum eitthvað forvitnilegt á skjánum.

Fyrir tveimur árum fórum við hjónin í heimsókn til Svíþjóðar og nutum þá gestrisni Jóa og Sæunnar dóttur hans. Dagar okkar með þeim eru ógleymanlegir og ætíð munum við minnast þess með þakklæti hve vel þau höfðu skipulagt heimsókn okkar og hve vel þau hlúðu að okkur og sýndu umhyggju og kærleika.

Þessi ferð var ævintýri sem varðveitist sem skínandi perla í fjársjóði minninganna.

Þegar Jói kom í heimsókn til Íslands á síðastliðnu sumri urðu á ný fagnaðarfundir og áttum við góðar stundir saman.Vorum við hjónin afar þakklát fyrir að geta að nokkru endurgoldið honum gestrisnina frá Svíþjóðarferðinni góðu.

Við sendum afkomendum og ástvinum hans samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að veita þeim huggun og styrk.

Við þökkum ljúfa samferð með góðum dreng.

Sigurður Gottharð Sigurðsson, Eyrarbakka.