Framþróun Gervigreind getur meðal annars komið að liði við að vinna úr því gríðarmagni upplýsinga sem internetið hefur að geyma, að sögn Yngva Björnssonar, dósent í tölvunarfræði við HR.
Framþróun Gervigreind getur meðal annars komið að liði við að vinna úr því gríðarmagni upplýsinga sem internetið hefur að geyma, að sögn Yngva Björnssonar, dósent í tölvunarfræði við HR. — Morgunblaðið/RAX
Eitt af því sem við erum að vinna í eru svokölluð leiðarvalsreiknirit. Þau eru einkum notuð til þess að finna stystu leið í gegnum stórt net og geta til dæmis gagnast til að finna stystu leiðina fyrir upplýsingar að fara á milli staða á æ flóknara neti.

Eitt af því sem við erum að vinna í eru svokölluð leiðarvalsreiknirit. Þau eru einkum notuð til þess að finna stystu leið í gegnum stórt net og geta til dæmis gagnast til að finna stystu leiðina fyrir upplýsingar að fara á milli staða á æ flóknara neti. Þessi tækni getur líka nýst í tölvuleikjum þar sem fjöldi íbúa kemur saman í leikjaheimi og þeir ferðast jafnvel í þúsundatali saman,“ segir Yngvi Björnsson, dósent í tölvunarfræði við HR og stjórnandi gervigreindarsetursins Cadia.

Manngervingar í sýndarheimum

Gervigreindarsetrið var sett á laggirnar fyrir tæpum fimm árum. „Við vinnum að rannsóknum á ýmiss konar gervigreindartækni, með sérstaka áherslu á að búa til manngervinga í sýndarheimum, ármenni (e. agent) sem þurfa að læra ýmsa félags- og samskiptatækni og geta jafnvel lært af reynslunni,“ útskýrir Yngvi. „Við störfum einnig með fjölda fyrirtækja að leiðum til að láta gervigreindartæknina nýtast þeim. Við höfum til dæmis komið að gerð gervigreindar fyrir framleiðslulínur í fiskiðnaði og smíði sýndarvera fyrir leiki CCP Games.“

Yngvi segir netið verða æ stærri hluta af daglegu lífi fólks, og að gervigreindartæknin muni leika æ stærra hlutverk í netupplifuninni. „Það þarf ekki síst að hafa í huga hversu gífurlegt magn upplýsinga er til staðar á netinu. Mannskepnan er hins vegar ekki mjög góð í að vinna úr svona miklum upplýsingum. Gervigreindartækni á eftir að koma þar til sögunnar, gera okkur kleift að vinna úr þessu gríðarlega magni upplýsinga og finna í þeim einhverja reglu og nýtanlega þekkingu,“ útskýrir hann.

Hvað er gervigreind?

Vísindi gervigreindar snúast um þá tækni að búa til skynsamar vitverur, þ.e. hugbúnað sem getur á einhvern hátt skynjað umhverfi sitt, tekið sjálfstæðar ákvarðanir, framkvæmt á eigin spýtur, og lært af reynslunni. „Þegar tölvur urðu fyrst til voru þær í raun einfaldlega risastórar reiknivélar, og þvínæst risastórar gagnageymslur. Rannsakendur fóru smám saman að huga í auknum mæli að því hvort ekki væri hægt að láta tölvur gera fleiri og áhugaverðari hluti, þar með talda hluti sem við mennirnir erum góðir í,“ segir Yngvi, en gervigreindarrannsóknir eiga sér rúmlega 50 ára sögu.

Út fyrir takmörk mannsins

„Síðan þá höfum við lært að geta mannsins er ekki endilega endapunkturinn. Til dæmis fljúga flugvélar hærra og hraðar en til dæmis fuglar í nátttúrunni. Hið sama getur verið raunin með margar athafnir mannsins og getur gervigreindin hjálpað okkur að gera enn betur á ýmsum sviðum.“

Oft er um að ræða ákaflega flókna tækni sem þarfnast mikillar reiknigetu. „Öflug tölva getur reiknað ótrúlegan fjölda möguleika á skömmum tíma, en flækjustigið getur fljótt vaxið gífurlega og fjöldi möguleika vex með veldisvexti,“ segir hann. „Ef við tökum til dæmis bara jafneinfaldan hlut og að tefla skák, sem þykir mjög einföld á mælikvarða gervigreindar: Þar er fjöldi möguleika sem upp geta komið á skákborðinu af svipaðri stærðargráðu og fjöldi atóma sem finna má í alheiminum.“

Gervigreind nýtist oft við flókin verkefni til að stýra gífurlegri reiknigetu tölvunnar þannig að hún einbeiti sér að þeim möguleikum sem skipta máli. „Fáir gera sér grein fyrir því að þessi tækni er nú þegar samofin okkar daglega lífi. Ef til dæmis er tekin mynd með stafrænni myndavél, þá er notuð gervigreindartækni til að meta hvar á myndfletinum á að stilla fókusinn. Sjálfskiptingin í mörgum nýjum bílum í dag lærir á akstursmynstur ökumannsins og aðlagar gírskiptinguna svo hún verður mun betri. Gervigreindarforrit hjá vefversluninni Amazon greina innkaupasögu viðskiptavina til að skilja betur kaupvenjur og koma með persónusniðnar tillögur að áhugaverðum vörum og tilboðum fyrir kúnnann.“