Framsetning Litlu búðirnar eru ekki með lager þar sem verslunin er einskonar tengiliður kaupanda og framleiðanda. Áskell að störfum.
Framsetning Litlu búðirnar eru ekki með lager þar sem verslunin er einskonar tengiliður kaupanda og framleiðanda. Áskell að störfum. — Morgunblaðið/Heiddi
Það gerðist einn daginn að Áskel Þórisson var að leita að tiltekinni vöru og byrjaði að þræða síður netsins í leit að íslensku handverki.

Það gerðist einn daginn að Áskel Þórisson var að leita að tiltekinni vöru og byrjaði að þræða síður netsins í leit að íslensku handverki. „Ég varð fyrir vonbrigðum, því þeir fáu vefir sem ég fann voru ekki nógu vandaðir, ljósmyndir ekki nógu góðar og upplýsingum áfátt um vöruna eða handverksmanninn,“ segir hann um hvernig hugmyndin að vefversluninni Litlu búðirnar varð til.

Neytendur gera kröfur

„Þegar fólk er að versla á netinu – sérstaklega þegar um er að ræða nokkuð dýra hluti – dugir ekki að sjá til dæmis mynd sem er úr fókus eða illa tekin. Kaupandinn vill sjá vöruna að ofan, neðan og frá öllum hliðum. Þegar mér tókst ekki að finna neitt á netinu sem uppfyllti mínar kröfur tók ég þá ákvörðun að gera þetta einfaldlega sjálfur.“

Litlu búðirnar (www.litlubudirnar.is) er vefverslun helguð íslensku handverki og vörum framleiddum úr íslenskri náttúru. „Nú þegar má finna í versluninni varning frá rösklega 30 handverksmönnum og framleiðendum, sem bjóða allt frá einni og upp í 15 vörutegundir hver,“ segir Áskell og bætir við að markmiðið sé að vera með 50 framleiðendur í hópnum í vor og 80 með haustinu. „Frá því vefurinn var opnaður á Þorláksmessu hafa margir framleiðendur haft samband, en í hverju tilfelli er metið og skoðað sérstaklega hvort varan mæti stöðlum verslunarinnar og eigi heima í vöruúrvalinu.“

Þjónusta við framleiðendur

Litlu búðirnar eru ekki með vöruhús og lager. „Ég er ekki með nokkurn skapaðan hlut hjá mér og hvet raunar fólkið sem tekur þátt í litlu búðunum að framleiða ekki á lager. Vefurinn byggist á að kaupandinn sjái eitthvað sem hann vill eignast, lesi sér til um vöruna og greiði fyrir hana. Ég hef svo samband við framleiðandann; bið hann um að gera tiltekna vöru. Þegar því lýkur sendir handverksmaðurinn vöruna til kaupandans sem getur því þurft að bíða allt að þrjár vikur eftir afhendingu, en fær fyrir vikið sérsmíðaða vöru í hendurnar,“ segir Áskell og bætir því við að næsta skref sé að þýða vefverslunina á þýsku.

Þjónustan sem Áskell býður framleiðendum felst í að ljósmynda vörurnar, taka viðtal við handverksmanninn og koma vörunni á framfæri á aðgengilegum og faglega gerðum vef. Einu gjöldin fyrir að vera hluti af Litlu búðunum koma í formi prósentu sem bætist ofan á verð vörunnar.

Framleiðendur losna við þá fyrirhöfn að þurfa að búa til eigin svæði á netinu til að koma vöru sinni á framfæri, og njóta góðs af auknum sýnileika í krafti stærðar síðunnar. „Um leið fær handverksmaðurinn aðgang að mun fleiri viðskiptavinum. Um allt land má finna frábæra listamenn sem búa til einstaka hluti og hafa núna tækifæri til að sýna heiminum.“

Er hægt að selja handverk á netinu?

Á Íslandi eru það einkum flugmiðar og miðar á skemmtanir og leikhús sem tekist hefur með góðum árangri að selja gegnum netið. Á íslenskt handverk heima á þessum vettvangi?

„Margir geta hugsað sér að kaupa handverk á vefnum og fæstir eiga greiðan aðgang að handverki annarra þjóða í eigin landi,“ segir Áskell. „Það er auðvitað gaman að heimsækja handverksverslanir og ræða við handverksmanninn við búðarborðið, en þegar þess er ekki kostur er netið hentugasta leiðin í augum flestra.“

Áskell bendir líka á að margt það besta í íslensku handverki hefur þegar öðlast gott orðspor úti í heimi, en neytendur erlendis átt erfitt með að finna vöruna boðna til sölu. „Í Litlu búðunum koma saman nokkrir tugir handverksmanna undir sama þaki, og sá sem leitar að íslensku handverki getur verið nokkuð viss um að geta fundið þar það sem hann leitar að.“