Halldór Jónsson
Halldór Jónsson
Eftir Halldór Jónsson: "Berið saman prófkjör sjálfstæðismanna og handröðun Samfylkingarinnar."

TAKIÐ eftir starfsaðferðum Samfylkingarinnar í Kópavogi. Það er forvalsfundur í Smáraskóla og hefst með skráningu kl. 10 fyrir alla sem hafa skráð sig í Samfylkinguna fyrir 23. janúar kl. 18. Berið þetta saman við opið prófkjör sjálfstæðismanna hinn 20. febrúar.

Þarna mega menn kjósa Guðríði Arnardóttur í 1. sætið þar sem búið er að ganga frá því að enginn annar býður sig fram í það sæti.

Sömuleiðis býður bæjarstarfsmaðurinn Hafsteinn Karlsson skólastjóri sig fram í annað sætið án teljandi samkeppni, því settur er í mótframboð lítt þekktur óbreyttur fótgönguliði Þorsteinn Ingimarsson, sem varla á nokkra möguleika á því sæti.

Flestir aðrir vilja svo 3. sætið. Ánægju vekur að bæjarstarfsmaðurinn Jón Júlíusson gefur ekki kost á sér enda löngu tímabært að pólitískum afskiptum hans sem bæjarstarfsmanns í Kópavogi ljúki.

Það er því fyrirfram búið að gefa í þessum kapli Samfylkingarinnar, sem með þeirra eigin orðum lítur á bæjarstjórnarstörf sem ígildi þess að flokkur sitji „sem fastast við kjötkatlana hér í bæ...“ eins og lesa má á forsíðu „Kópavogs“ . Og væna þar með Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn um að starfa ekki fyrir bæjarbúa heldur sjálfa sig og svelta aumingja Samfylkinguna. Já, svöng hljóta þau Guðríður og Hafsteinn að vera orðin.

Akkúrat það, að éta upp úr opinberum kjötkötlum hefur löngum verið talin helsta hugsjón kratanna. Helmingaskiptareglan, sem þeir kratar hafa alltaf tönnlast á um framsókn og íhaldið er ekki til, því þeir gleyma því alltaf að kratar hafa alltaf setið við opinberu kjötkatlana og veitt upp úr þeim fyrir sig. Mestöll stjórnsýslustörf hins opinbera hafa verið á þeirra höndum svo sem við blasir ef litið er yfir sviðið og stærstu útgjaldastofnanir landsins. Þar hafa kratar yfirburðaþátttöku.

Dæmigerður fulltrúi þeirra alikrata hér í Kópavogi er bæjarstarfsmaðurinn Hafsteinn Karlsson skólastjóri. Hann vill skiljanlega vera yfirmaður sjálfs sín í bæjarstjórn til þess að geta varið það að sem skólastjóri hefur hann hunsað fjárhagsáætlanir Kópavogskaupstaðar ítrekað eftir eigin vali. Það er auðveldara hjá honum að kveða alla gagnrýni niður sitjandi sem yfirmaður sjálfs sín og komast þannig frá því sem undirmaður að hlýða sjálfum sér sem yfirmanni og meðhöfundi fjárhagsáætlunar. Það væri óskandi að samfylkingarmenn áttuðu sig á því að Hafsteinn Karlsson ætti annaðhvort að vera bæjarfulltrúi eða skólastjóri. Ekki hvort tveggja. Það er líklega til of mikils mælst að Hafsteinn átti sig á þessu sjálfur héðan af. En við Kópavogsbúar eigum því láni að fagna að eiga úrvals skólastjóra í bænum.

Guðríður Arnardóttir er hins vegar starfsmaður Garðabæjar sem kennari. Hún á auðvitað heldur ekki að vera í bæjarpólitík þó að hún sé tæknilega ekki starfsmaður Kópavogs heldur vinni hinum megin við línuna. Opinberir starfsmenn eiga ekki að sitja báðum megin borðsins þegar verið er að semja um hluti eins og kaup og kjör bæjarstarfsmanna.

Annars er þetta bara fríður og föngulegur listi hjá Samfylkingunni og margt um ágætis einkaframtaksfólk sem vert er að kjósa umfram aðra. Vonandi meta kjósendur Samfylkingarinnar þetta út frá réttum forsendum, þó að góð tilraun hafi verið gerð til að handjárna þá við flokkseigendurna.

Höfundur er verkfræðingur.