Bakkabræður Lýður og Ágúst Guðmundssynir munu stýra Bakkavör áfram verði nauðasamningar samþykktir.
Bakkabræður Lýður og Ágúst Guðmundssynir munu stýra Bakkavör áfram verði nauðasamningar samþykktir. — Morgunblaðið/Heiddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í kynningu vegna nauðasamninga Bakkavarar er félagið sagt skuldsett upp í rjáfur og útilokar sjóðstreymi eignarhaldsfélagsins að það geti staðið í skilum við lánardrottna hér á landi.

Eftir Agnesi Bragadóttur og

Örn Arnarson

SKULDSETNING Bakkavarar Group er tilkomin vegna kaupa á fyrirtækjum og eignum sem hafa runnið inn í dótturfélög samstæðunnar. Dótturfélögin eru hinsvegar kirfilega afgirt og geta því íslenskir kröfuhafar Bakkavarar Group ekki gengið að þeim verðmætum þar sem erlendir lánardrottnar eiga fyrsta veðrétt í þeim. Auk þess felur þessi girðing það í sér að ekki er hægt að færa fé úr rekstrarfélögunum upp í móðurfélagið.

Engar eignir í Bakkavör Group

Fram kemur í kynningu um nauðarsamningana að brýnt sé að leysa úr málefnum Bakkavarar sem fyrst. Sagt er að viðskiptavinir, birgjar og starfsmenn Bakkavarar óttist í vaxandi mæli skuldastöðu samstæðunnar og hætta sé á því að litið verði á fyrirtækið sem einhverskonar uppvakning sem ekki sé traustur gagnaðili í viðskiptum.

Bakkavör Group skuldar íslenskum lánardrottnum 60 milljarða króna. Engar eignir eru í sjálfu sér í móðurfélaginu þar sem þær eru girtar af í rekstrarfélögunum eins og fyrr segir. Erfitt er að koma auga á út á hvað íslensku lánardrottnarnir lánuðu félaginu á sínum tíma. Morgunblaðið fjallaði um þetta mál síðasta sumar í kjölfar þess að Bakkavör Group gat ekki staðið í skilum á skuldabréfaflokki.

Nauðasamningur frestar afskrift

Fram kom að kaupendur skuldabréfanna hefðu ekki sett nein skilyrði fyrir rekstri Bakkavarar þegar þeir fjármögnuðu reksturinn og þar af leiðandi ættu þeir bara sjálf bréfin án haldbærra veða og trygginga. Í því ljósi er sérstaklega áhugavert að þrír helstu lífeyrissjóðir landsins eru meðal stærstu kröfuhafa Bakkavarar Group auk Arion banka og þrotabúa Kaupþings og Glitnis. Lífeyrissjóðirnir sem um ræðir eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Gildi.

Ljóst má vera af ofangreindu að staða lífeyrissjóðanna í hópi kröfuhafa er afar veik. Þeir, ásamt öðrum, fjármögnuðu rekstur Bakkavarar Group án þess að skuldabréf í þeirra eigu hefðu neinar haldbærar tryggingar eða veð í undirliggjandi eignum. Gjaldþrot Bakkavarar hér á landi myndi litlu skila til kröfuhafa og þyrftu lífeyrissjóðirnir þá að afskrifa skuldabréfin að fullu.

Afskriftir af slíkri stærðargráðu myndu ugglaust vekja upp enn áleitnari spurningu um sjóðstýringu og fjárfestingastefnu íslensku lífeyrissjóðanna. Það er því ekki að furða að sjóðirnir séu reiðubúnir til þess að samþykkja þá nauðsamninga sem lagðir hafa verið fram og samkvæmt heimildum blaðsins gildir það sama um bankana sem eiga hlut að máli.

Verða að greiða fyrir 2014

Samkvæmt heimildum blaðsins telja því lánardrottnar hér á landi affarasælast að fara þessa leið. Þó eru yfirgnæfandi líkur á því að samningarnir verði samþykktir með fyrirvörum vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á þeim Bakkabræðrum og ennfremur vilja ákveðnir fulltrúar kröfuhafa sjá hvort ákæra verði gefin út vegna kaupa á Bakkavör úr Exista á tvo aura á hlut.

Í hnotskurn má segja að samkomulagsdrög nauðasamninganna gangi út á það, að bræðurnir þurfa að greiða lánardrottnum sínum allt til baka fyrir júní 2014 og ef þeim tekst það ekki, þá munu lánardrottnar breyta skuldinni í hlutafé og ná þannig yfirráðum í félaginu. Vextirnir verða 300 til 400 punktar ofan á REIBOR. Þeir vextir eru nú 7% til eins árs þannig að ljóst má vera að greiðslan verði hærri en 100 milljarðar á endanum. Jafnvel mun hærri, verði verðbólga að vandamáli hér á landi næstu árin. Ef samkomulagið tekur gildi eignast lánardrottnar strax 26,7% hlut í fyrirtækinu; allar tryggingar sem ekki hafa þegar verið látnar af hendi falla lánardrottnum í skaut og lánardrottnar fá tvo af fimm stjórnarmönnum. Bakkabræðrum verða sett ströng skilyrði hvað varðar rekstur Bakkavarar, svo sem það að þeim verður óheimilt að skuldsetja fyrirtækið frekar og óheimilt verður að selja eignir út úr félaginu eða kaupa nýjar, án þess að hafa til þess heimild lánardrottnanna.

Misjafnlega bjartsýnir

Lánardrottnar verða þannig í raun með talsverð ítök í stjórnun Bakkavarar, þótt Bakkabræður verði áfram við stjórnvölinn og fara strangt til tekið með 34% hlut í Bakkavör, sem er hluturinn sem Exista átti. Exista mun hins vegar fá öll verðmæti sem hugsanlega skapast af bréfunum á tímabilinu til 2014. Bakkabræður fá enga peningalega eign af þeim bréfum. Samkvæmt heimildum verður þessi háttur hafður á, verði nauðasamningsfrumvarpið að samningi, til þess að koma í veg fyrir að áðurnefnt ákvæði um eignarhald verði virkt og Exista verði því ráðandi eigandi Bakkavarar frá og með miðju ári 2014.

Þeir sem blaðið hefur rætt við eru misjafnlega bjartsýnir á það hvort nauðasamningarnir séu raunhæfir. Miðað við áætlanir sem koma fram í kynningu til kröfuhafa er gert ráð fyrir að hagnaður fyrir EBITDA í fyrra verði 26 milljarðar króna og hafi aukist um 20% frá árinu á undan. Þó svo að þetta gangi eftir er ekki hægt að ganga að slíkum afkomubata vísum á næstu árum. En eflaust skiptir það ekki sköpum í þessu samhengi þar sem lánadrottnar Bakkavarar Group hafa hvorki veð né tryggingar gegn útlánum sínum.

Skipta eignarákvæði lánasamninganna máli?

Heildarskuldir Bakkavararsamstæðunnar nema um 200 milljörðum króna og er stærstur hluti þeirra tilkominn vegna skuldsetningar Bakkavarar London Ltd. Um er að ræða sambankalán sem inniheldur ákvæði um að heimilt sé að gjaldfella lánið verði breyting á yfirráðum þeirra Ágústs og Lýðs Guðmundssona yfir félaginu. Í upphafi var þetta ákvæði bundið við eign Exista í Bakkavör en í kjölfar kaupa þeira Ágústs og Lýðs á Bakkavör úr Exista árið 2008 var svo bundið um hnútana að það fluttist yfir á aðkomu þeirra bræðra að félaginu. Heimildir Morgunblaðsins segja þó að þetta ákvæði skipti ekki sköpum að öllu óbreyttu þar sem enginn áhugi sé meðal eigenda lánsins á að gjaldfella það.

Þetta ákvæði kann þó að skipta máli fyrir framgöngu mála þar sem hver og einn lánardrottna getur ákveðið gjaldfellingu en venjan er í sambankalánum að einfaldan meirihluta þurfi til að knýja slíkt fram. Rætt hefur verið um að þessi staða hafi gert þeim bræðrum kleift að styrkja stöðu gegn innlendum lánardrottnum Bakkavarar Group. Vandséð er að þetta skipti sköpum eins og staðan er nú þar sem lánardrottnar hér á landi eiga engar tryggingar í Bakkavör yfirhöfuð.