Farfuglinn Atriði úr rafóperunni Farfuglinn eftir Hilmar Þórðarson og Messíönu Tómasdóttur. Óperan er ætluð ungu fólki og fjallar um dauðann.
Farfuglinn Atriði úr rafóperunni Farfuglinn eftir Hilmar Þórðarson og Messíönu Tómasdóttur. Óperan er ætluð ungu fólki og fjallar um dauðann.
Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is RAFÓPERAN Farfuglinn eftir Hilmar Þórðarson verður frumsýnd á Myrkum músíkdögum í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, næstkomandi laugardag.

Eftir Árna Matthíasson

arnim@mbl.is

RAFÓPERAN Farfuglinn eftir Hilmar Þórðarson verður frumsýnd á Myrkum músíkdögum í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, næstkomandi laugardag. Óperan, sem ætluð er ungu fólki, fjallar um dauðann, en handritið er unnið upp úr Móður-inni , sögu H.C. Andersen, og Farfuglum , ljóðabók Rabindranath Tagore. Messíana Tómasdóttir, sem samdi handritið, segir að vinna að verkinu hafi hafist fyrir um tveimur árum, en þá óskaði hún eftir því við Hilmar að hann semdi óperu fyrir Strengjaleikhúsið, en handritið hafi síðan orðið til þegar hún dvaldi í París í tvo mánuði. „Handritið hjá mér varð miklu lengra en endanleg gerð, enda notar Hilmar nokkuð af endurtekningum svo ég tók út allt sem sem ekki var beinlínis að segja söguna. Vissulega var margt af því fallegt og gaman að hafa en eftir varð hreinni og betri saga.“

Eins og getið er í upphafi er óperan samin með unglinga í huga, en í raun ætluð öllum frá áttunda bekk og upp úr, enda er viðfangsefnið býsna veigamikið svo ekki sé meira sagt: Dauði og söknuður. „Dauðinn er ríkur þáttur í lífi unglingsins en hann er svo einn með þessa glímu sína við þessar erfiðu tilfinningar; barnið fær huggun hjá foreldrunum, en unglingurinn geymir og bælir tilfinningarnar innra með sér,“ segir Messíana og bætir við að hún hafi gengið með þessa hugmynd í tuttugu ár.

Móðirin eftir H.C. Andersen fjallar reyndar um móður sem missir ungt barn sitt en Farfuglinn hjá okkur er unglingsstúlka sem gerir unglingum auðveldara að setja sig í sömu spor. Í gegnum ljóð Tagores náum við síðan einhverskonar sátt við dauðann. Víst verður maður aldrei algerlega sáttur en við náum því samt; þeir eru sem eru farnir skilja eitthvað eftir sig, skilja eftir sig minningar sem við njótum. Við sýnum þetta mjög skýrt í lokaatriðinu því þó að hún sé ósátt og falli aftur og aftur í sama sorgarfarið finnur hún síðan að hún er ekki búin að missa allt, hún á minninguna eftir.“

Í hnotskurn
» Farfuglinn verður frumsýnd í Salnum kl. 17 nk. laugardag á Myrkum músíkdögum.
» Skólasýningar í framhaldinu 1., 2., 3. og 4. febrúar á vegum Tónlistar fyrir alla í Kópavogi og opin kvöldsýning 8.
» 23., 24. og 25. febrúar verða svo sýningar í Gerðubergi á vegum Tónlistar fyrir alla.