EFTIR því sem rafbók Amazon, Kindle, verður vinsælli vestan hafs eykst þrýstingur á útgefendur að gefa bækur út á rafrænu sniði. Þetta kom glöggt í ljós þegar bókin Game Change kom út, en hún fjallar um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2008.

EFTIR því sem rafbók Amazon, Kindle, verður vinsælli vestan hafs eykst þrýstingur á útgefendur að gefa bækur út á rafrænu sniði. Þetta kom glöggt í ljós þegar bókin Game Change kom út, en hún fjallar um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2008.

Game Change kom út á pappír 11. janúar og vakti þegar mikið umtal og athygli, enda skaust hún á toppinn á sölulista New York Times og líka á toppinn hjá Amazon. Bókin hefur og fengið ágætis dóma og því vekur furðu þegar hún er skoðuð á Amazon að 185 manns hafa þar aðeins gefið henni eina stjörnu.

Þegar rýnt er í þær neikvæðu umsagnir kemur í ljós að fæstir þeirra sem gefa henni svo lélega einkunn hafa lesið bókina, heldur er Kindle-eigendur að láta í ljós gremju sína með það að bókin sé ekki til í rafrænni útgáfu og ekki væntanleg fyrr en 23. febrúar næstkomandi.

Fram til þessa hefur útgefandinn, HarperCollins, haft að sið að seinka rafrænni útgáfu bóka til að draga ekki um of úr sölu á pappírsútgáfum bókanna. Fleiri útgefendur hafa gert slíkt hið sama og ganga jafnvel svo langt að seinka rafrænni útgáfu um fjóra mánuði eða meira. Eftir því sem fleiri kaupa rafbækur eykst þó þrýstingur á útgefendur að gefa bækurnar úr rafrænt jafnharðan, og sumir hafa gert því skóna að vatnaskil verði í þeim málum á þessu ári.

arnim@mbl.is