Dræm þátttaka í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um síðustu helgi hlýtur að vera til marks um vantrú fólks á stjórnmálamönnum.

Dræm þátttaka í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um síðustu helgi hlýtur að vera til marks um vantrú fólks á stjórnmálamönnum. Engin ástæða er til að ætla að þetta áhugaleysi sé einungis bundið við sjálfstæðismenn, enda eru stjórnmálamenn í þeirra röðum hvorki betri né verri en stjórnmálamenn í öðrum flokkum.

Um þessa helgi fer fram prófkjör Samfylkingar í borginni og kjósendur þess flokks munu varla streyma að til að setja númer við missviplausa borgarfulltrúa eða nýliða sem virðast fátt hafa fram að færa. Enda er engin ástæða til að leggja í ferðalög nema maður sjái tilganginn með þeim og viti að maður hafi ánægju af ferðinni.

Upp til hópa eru íslenskir stjórnmálamenn svo ótrúverðugir að fólk nennir ekki að hreyfa sig úr stað til að gera upp á milli þeirra með því að setja númer við þá í lokuðum klefa. Einn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sagði í einkasamtali að það hefðu að stærstum hluta verið miðaldra karlmenn sem hefðu nennt að mæta til að kjósa í prófkjöri flokksins. Mann grunar að hjá Samfylkingunni verði það aðallega miðaldra „rétthugsandi“ vinstrikonur sem mæti til að kjósa í prófkjöri. Niðurstaðan verður mjög sennilega í takt við það.

Meðan almenningur sýnir prófkjörunum áhugaleysi forðast hæft fólk að gefa kost á sér í stjórnmálastörf. Það er beinlínis orðið að þjóðfélagslegu vandamáli hversu andlega vanmáttugir íslenskir stjórnmálamenn eru. Þeir hafa ekki næga yfirsýn, geta þeirra er sannarlega takmörkuð og margir þeirra virðast hreinlega ekki nógu vel gefnir. Í íslensku þjóðfélagi vinnur og starfar fólk sem býr yfir góðum gáfum, er hugmyndaríkt, kann að leysa úr vanda og þolir álag. En þetta fólk er bara svo vel gert að ekki hvarflar að því að fara út í pólitík þar sem menn verða að nenna að bulla, ekki bara tímunum saman heldur stanslaust í nokkrar vikur eða jafnvel mánuði fram að næsta langa sumarfríi eða jólafríi. Vel upplýst manneskja með sæmilega sómakennd hefur einfaldlega ekki geð í sér til að taka þátt í þeim skrípaleik sem íslensk pólitík er orðin að.

Maður breytir ekki fólki. Fólk verður sjálft að sjá þegar það er komið í öngstræti. Það er hins vegar stundum nauðsynlegt að segja fólki til. Hvað eftir annað hefur íslenska þjóðin sent stjórnmálamönnum þau skilaboð að hún treysti þeim ekki. Stjórnmálamennirnir eru hins vegar orðnir svo vanir því að hlusta bara á það sem þeim líkar að þeir nema ekki þessi sterku skilaboð. Þeir halda bara áfram sínu tilgangslausa flokkspólitíska rausi. Þeir vilja ekki breyta sér enda sjá þeir engan tilgang með því. Þeim finnst þeir standa sig alveg ágætlega miðað við aðstæður. Meðan þeir lifa í þeim misskilningi er engin ástæða til að fara sérstaklega út úr húsi til að greiða götu þeirra.

kolbrun@mbl.is

Kolbrún Bergþórsdóttir