Öflugur Erlend Mamelund í kröppum dansi í leik Noregs og Danmerkur.
Öflugur Erlend Mamelund í kröppum dansi í leik Noregs og Danmerkur. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erlend Mamelund skoraði 13 mörk þegar Íslendingar og Norðmenn áttust við síðast en liðin skildu jöfn, 31:31, í júní 2009 í Laugardalshöllinni í forkeppni Evrópumótsins. Morgunblaðið hitti Mamelund og spurði hann út í viðureignina við Íslendinga í dag.

Eftir Guðmund Hilmarsson í Vín

gummih@mbl.is

,,ÉG held að leikurinn verði gríðarleg barátta og spennustigið hátt hjá leikmönnum. Möguleikar okkar eru ekki eins litlir og margir álíta. Við þurfum að vinna Íslendingana með fjögurra marka mun og treysta á að Danir tapi. Þetta er alls ekkert ómögulegt og meðan möguleikinn er fyrir hendi þá berjumst við til síðasta blóðdropa. Íslenska liðið er afar sterkt og við vitum að það verður strembið að eiga við það en við teljum okkur eiga möguleika á að vinna það,“ sagði Mamelund.

Skora ekki aftur 13 mörk

Spurður út leikinn á Íslandi í fyrra þar sem hann skoraði 13 mörk sagði Mamelund:

,,Liðin voru talsvert öðruvísi skipuð þá heldur en í dag. Börge Lund, Kjetil Strand og Kristian Kjelling voru ekki í okkar liði og Íslendingar voru ekki með Stefánsson (Ólaf) og Atlason (Arnór). Ég held að ég muni ekki skora 13 mörk að þessu sinni. Ég þarf að spila í hægri skyttustöðunni sem er ekki auðvelt fyrir mig en Kjelling gæti raðað inn mörkum á Íslendingana,“ sagði Mamelund, sem er 25 ára gamall og samherji jafnaldra síns í íslenska liðinu, Arnórs Atlasonar, hjá FCK í Danmörku.

Ísland og Noregur voru í sama riðli í undankeppni Evrópumótsins og lyktaði báðum leikjunum með jafntefli. 31:31 í nóvember 2008 í Noregi þar sem Logi Geirsson skoraði 13 mörk og 34:34 varð niðurstaðan í Laugardalshöll í júní fyrra, þar sem Mamelund fór á kostum.