Höfundurinn Lucky One og Bein leið mörkuðu fyrstu skref KK inn í íslenskt tónlistarlíf.
Höfundurinn Lucky One og Bein leið mörkuðu fyrstu skref KK inn í íslenskt tónlistarlíf. — Morgunblaðið/ Jim Smart
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is „ÞETTA eru fyrstu plöturnar sem ég gaf út hérlendis, '91 og '92,“ segir Kristján Kristjánsson, KK, aðspurður um tildrög tónleikanna.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

„ÞETTA eru fyrstu plöturnar sem ég gaf út hérlendis, '91 og '92,“ segir Kristján Kristjánsson, KK, aðspurður um tildrög tónleikanna. „Þær skoruðu hátt í valinu um hundrað bestu plötur Íslandssögunnar og þess vegna var ákveðið að kýla á þetta. Við leikum þær í heild sinni, og gerum hlé á milli.“

Allir upprunalegir meðleikarar KK verða með, utan Sigtryggur Baldursson sem er á ferð Emilíönu Torrini.

„Við ætluðum að sjálfsögðu að taka þær í réttri röð en verðum að snúa henni við þar sem Matti Hemstock er fastur með Sinfóníuhljómsveitinni að spila Jón Leifs,“ segir KK og kímir. „Hann á víst að slá fimmtán takta rétt undir lokin, þannig að hann kemur ekki í hús fyrr en hálftíu. Tónleikarnir byrja níu.“

KK á ekki von á því að hann taki fleiri plötur sínar sömu tökum og það liggi líka fleiri ástæður að baki tónleikunum en hann nefndi í upphafi.

„Plöturnar höfðu verið ófáanlegar um hríð og JPV endurútgaf þær í fyrra í fallegum „digipack“-umslögum. Ég lofaði svo tónleikum í staðinn!“