Dofri Hermannsson
Dofri Hermannsson
Dofri Hermannsson: "Borgarfulltrúar ættu að hafa verulegar áhyggjur af horfum í íslenskum kvikmyndaiðnaði en nafn borgarinnar er órjúfanlega tengt kvikmyndahátíðum á við Reykjavík Film Festival, íslensk og erlend kvikmyndaverk draga hingað erlenda gesti og flest fyrirtæki..."

Borgarfulltrúar ættu að hafa verulegar áhyggjur af horfum í íslenskum kvikmyndaiðnaði en nafn borgarinnar er órjúfanlega tengt kvikmyndahátíðum á við Reykjavík Film Festival, íslensk og erlend kvikmyndaverk draga hingað erlenda gesti og flest fyrirtæki í kvikmyndaiðnaðinum eru búsett í Reykjavík. Í kvikmyndageiranum felast ekki aðeins tækifæri til mikillar atvinnu- og verðmætasköpunar heldur búa þar líka ósagðar sögur okkar og sjálfsmynd.

Það er því erfitt að horfa þegjandi upp á þessari mikilvægu atvinnugrein teflt fram sem peði í refskák útvarpsstjóra við ríkisvaldið um meiri peninga fyrir RÚV. Af yfirlýsingum hans mætti ætla að stærsti hluti útgjalda stofnunarinnar færi til kaupa á dagskrárefni frá íslenskum kvikmyndagerðarmönnum. Því fer fjarri. RÚV hafði 4,4 milljarða tekjur á liðnu ári. Af útgjöldum fóru á bilinu 120 til 150 milljónir í innkaup á íslensku efni. Brotabrot af útgjöldum stofnunarinnar. Milljónirnar 150 sem RÚV ætlar nú að skera burt nema um 3,4% af rekstrarfé síðasta árs. Sparnaðurinn er því sáralítill en ákvörðunin setur í gang dómínóeffekt sem ekki sér fyrir endann á.

RÚV hefur greitt eftir geðþótta fyrir sýningarrétt á íslensku efni, bæði heimildarmynda og kvikmynda. Fyrir heimildarmyndir að jafnaði eina milljón og á bilinu tvær til fjórar milljónir fyrir kvikmyndir. RÚV hefur því nærst á kvikmyndaiðnaðinum en ekki öfugt, því áratug eftir áratug hefur íslenski kvikmyndageirinn lagt stofnuninni til dagskrárefni á spottprís. Hagsmunir beggja aðila hafa verið tryggðir með ákveðinni samvinnu. Samningur við RÚV, hversu smánarlegur sem hann hefur verið fjárhagslega, opnar aðgengi að framleiðslufjármagni og samstarfsaðilum annars staðar frá – bæði innlendum og erlendum. Íslensk framleiðsla getur ekki þrifist án þessa fyrirkomulags.

Menn geta ekki leyft sér að taka íslenska kvikmyndagerð í gíslingu eins og hér er gert. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að málin séu leyst með öðrum hætti.

Höfundur býður sig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.