Ólafur Stefánsson
Ólafur Stefánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðmund Hilmarsson í Vín gummih@mbl.

Eftir Guðmund Hilmarsson í Vín

gummih@mbl.is ÓLAFUR Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, segir ekki koma til greina að klúðra því tækifæri að komast í undanúrslitin á Evrópumótinu en með sigri gegn Norðmönnum í dag spilar Ísland í undanúrslitunum á laugardaginn. Það mun mikið mæða á fyrirliðanum en Ólafur er markahæsti leikmaður Íslands í keppninni ásamt Snorra Steini, báðir hafa þeir skorað 22 mörk.

„Við höfum lent í þessari stöðu áður. Oft höfum við misst af tækifærinu en nú vil ég endurtaka leikinn frá 2002 og gera svo betur í undanúrslitunum en þá. Ég lít svo á að ef við höldum okkar striki, spilum sterka vörn, höfum góða markvörslu og spilum sóknina ákveðið og markvisst þá höfum við betur í þessum slag,“ sagði Ólafur í samtali við Morgunblaðið í gær.

Ólafur segir að norska liðið sé öflugt og það verði að taka mjög alvarlega.

Norðmenn án örvhentrar skyttu

„Þeir eru með tvær skyttur í hverri stöðu, góðan línumann og góðan markvörð. Einu vankantarnir hjá þeim eru kannski að þá vantar örvhenta skyttu í sitt lið, en þeir hafa náð að bæta það upp hér á mótinu með öðrum leikstíl. Þeir reyna að opna fyrir línuna en þó svo að það komi ekkert rosalega mikið flæði í sóknarspil þeirra eru þeir hættulegir,“ sagði Ólafur.

Duglegur að skjóta á markið

„Mér finnst við allir stefna í rétta átt. Það er góð stemning í liðinu, líkamlegt ástand er fjandi gott og við erum bara tilbúnir í að fórna okkur í 60 mínútur og rúmlega það. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég spila mikilvægt hlutverk í liðinu. Ég verð að vera duglegur að skjóta og vera áræðinn svo þeir komi út úr stöðum sínum og með því gætu opnast færi fyrir Robba á línunni.“