Í víking Leikurinn Vikings of Thule er spilaður á Facebook og lofar mjög góðu. Hér má sjá Jónas Björgvin Antonsson í höfuðstöðvum Gogogic.
Í víking Leikurinn Vikings of Thule er spilaður á Facebook og lofar mjög góðu. Hér má sjá Jónas Björgvin Antonsson í höfuðstöðvum Gogogic. — Morgunblaðið/Ómar
Þó svo að merkin hafi verið óljós á þeim tíma, þá var hægt að sjá fyrir fjórum árum síðan að ákveðin samfélagsvæðing ætti sér stað á vefnum.

Þó svo að merkin hafi verið óljós á þeim tíma, þá var hægt að sjá fyrir fjórum árum síðan að ákveðin samfélagsvæðing ætti sér stað á vefnum. Púslin voru að smella saman hægt og rólega, en stóra spurningin var hvort og hvernig mætti hafa tekjur af þessari nýju þróun,“ segir Jónas Björgvin Antonsson aðspurður um uppruna og viðskiptamódel leikjafyrirtækisins Gogogic sem hann stýrir í dag.

Hægt að spila frítt eða borga

Gogogic sérhæfir sig í leikjum sem spilaðir eru á netinu í gegnum vafra, og leggur sérstaka áherslu á leiki sem tengjast vinsælum samfélagsvefjum eins og Facebook. „Þegar við fórum af stað voru tvenns konar viðskiptamódel algengust fyrir leiki af þessu tagi. Annars vegar gátu leikmenn keyptu áskriftir, ekki ósvipað og til dæmis í heimi World of Warcraft , og var þessi leið algengust á Vesturlöndum. Hins vegar var hið svokallaða microcurrency- módel eða freemium- módel sem var öflugra í Asíu og gengur út á að notendur geti spilað leikinn frítt, en geti keypt ákveðna hluti eða aðgerðir inni í leiknum,“ útskýrir Jónas. „Menn höfðu ekki mikla trú á microcurrency-leiðinni fyrir nokkrum árum síðan, en þetta módel hefur nú heldur betur sannað sig á stöðum eins og Facebook og er sú tekjuleið sem notuð er af þeim leikjafyrirtækjum sem hraðast vaxa í dag.“

Alvörufjölspilunarupplifun

Þetta sama sölumódel er notað í leiknum Vikings of Thule sem gefinn var út í beta-útgáfu í september: „Það sem gefur okkur sérstöðu umfram flesta aðra vafraleiki er að við leggjum áherslu á að skapa alvörufjölspilunarupplifun. Þannig skapast ákveðin dýpt í leiknum og um leið helst fólk lengur við leikinn. Það myndast samfélag kringum leikinn og inni í honum líka,“ útskýrir Jónas. „Hægt er að spila leikinn ókeypis út í eitt og hafa mjög gaman af, en einnig er hægt að kaupa ákveðinn búnað og vopn eða hraða ákveðnum verkum í leiknum með því sem við köllum silfur, og hægt er að kaupa. Það má síðan líka komast yfir silfur með öðrum hætti, svo sem með vöruskiptum við aðra leikmenn, svo það verður til hagkerfi innan sjálfs leiksins.“

Jónas bendir á að samfélagsvinkillinn auðveldi, þegar upp er staðið, að viðhalda vinsældum leiksins. „Við sjáum að framleiðendur annarra leikja á Facebook þurfa mjög reglulega að gefa út nýja leiki til að viðhalda vinsældum, og um leið færa til það samfélag sem skapast hefur í kringum fyrri leiki, oft með tilheyrandi markaðsherferðum og kostnaði.“

Í hnotskurn
» Gogogic hóf starfsemi árið 2006 og eru starfsmenn í dag 21 talsins.
» Á síðasta ári gaf fyrirtækið út þrjá leiki og er stefnt á að minnsta kosti tvo á þessu ári auk viðbóta við fyrri leiki.
» Leikirnir hafa náð til tugþúsunda notenda og allt upp í hundruð þúsunda.
» Stærsta og efnilegasta verkefni Gogogic til þessa er Vikings of Thule á Facebook.
» Víkingaleikurinn verður senn tekinn úr beta-útgáfu en nýtur þegar ágætra vinsælda.
» Gogogic fékk styrk frá Nordic Game Programm-sjóðnum árin 2008 og 2009 en aðeins þrjú fyrirtæki hafa fengið tvo styrki frá þeirri stofnun.

Víkingar herja á Facebook

Nýjasta og viðamesta útspil Gogogic til þessa er Facebook-leikurinn Vikings of Thule. Um er að ræða fjölspilunarleik þar sem leikmaðurinn er settur í spor víkings sem nemur land á Íslandi til forna. „Þar þarf leikmaðurinn að byggja sér orðspor, komast til áhrifa, og um leið spila beint við alla aðra sem taka þátt í leiknum, en ekki bara vinahópinn eins og gerist með svo marga aðra Facebook-leiki,“ segir Jónas. „Leikurinn gengur út á að vera sterkastur og stærstur, heyja einvígi og hafa betur á móti öllum heiminum.“

Viðmótið í leiknum segir Jónas að minni á eldri ævintýraleiki. Þar sem leikurinn er spilaður í gegnum vafra er ekki með góðu móti hægt að bjóða til dæmis upp á þrívíddarheim. „Leikurinn notast við Flash-forritun og býður upp á mjög sjónrænt og fallegt viðmót. Þetta er skemmtilegur tvívíður teiknistíll sem dugar ansi vel.“

Ný markaðslögmál í leikjabransanum

Jónas segir netleiki kalla á annars konar hugsun og markaðssetningu en hefðbundna tölvuleiki. „Áður fyrr var það þannig að ef það tókst ekki að selja svo og svo mörg þúsund box á fyrstu 6-8 vikum eftir útgáfu hafði allt mistekist og fyrirtækið var farið á hausinn,“ segir hann. „Netleikir gefa hins vegar tækifæri á að byggja upp notendahóp yfir lengri tíma, hægt og rólega, og má jafnvel á meðan vinna að því að bæta leikinn. Það þarf ekki að slá í gegn með einum stórum hvelli.“

Netmarkaðurinn er líka, að sögn Jónasar, orðinn svo stór að ekki þarf að ná nema til örlítils brots af til dæmis notendum Facebook til að geta skapað verulegar tekjur. „Bara á Facebook eru um 350 milljón virkir notendur. Það má síðan margfalda þá tölu því hver notandi á Facebook er tengdur hingað og þangað, og er kannski að spila 5 eða jafnvel 10 leiki í einu.“