List Fagurlega uppraðaðir grjónasekkir og drengur með plast.
List Fagurlega uppraðaðir grjónasekkir og drengur með plast. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er margt lífið sem lifað er. Það er mörg listin í lífinu. Og Kleppur er víða. Þetta eru þrjú af mörgum þeim spakmælum sem vert er að hafa í huga í dagsins amstri. Við erum sífellt að óskapast yfir einhverju sem aðrir gera öðruvísi en okkur hugnast.

Það er margt lífið sem lifað er. Það er mörg listin í lífinu. Og Kleppur er víða.

Þetta eru þrjú af mörgum þeim spakmælum sem vert er að hafa í huga í dagsins amstri.

Við erum sífellt að óskapast yfir einhverju sem aðrir gera öðruvísi en okkur hugnast. Hvort sem það er hvernig þeir kjósa að lifa sínu lífi eða hvernig þeir koma fram í list sinni.

Við erum líka fljót að dæma marga listina sem eitthvert ómerkilegt rugl af því að hún rúmast ekki innan þess sem er opinberlega samþykkt sem list.

Og stundum er þetta alveg á hinn veginn. Hver hefur ekki lent í því að standa fyrir framan myndlistarverk eða sitja úti í sal og horfa á leikrit og hugsa: Nú er verið að hafa mig að fífli. En þora ekki að segja það upphátt, af því að allir hinir (og líka hin háæruverðuga elíta) segir:

Þetta er frábært meistarastykki.

Stundum er svo ágætt að fá hvíld frá því sem hefur fengið stimpilinn LIST og opna augun, heilann og hjartað fyrir listinni á ólíklegustu stöðum. Listinni í drullunni í kjallara- tröppunum, formfögrum frostrósunum á bílrúðunni á morgnana, listinni í ruslinu sem fýkur um með þokka á bílastæðinu, í uppröðun gámanna á höfninni, hreyfingum handar sem fiktar í hári einhvers á næsta borði, síbreytilegri birtunni á himninum...það er endalaus listaveisla allt í kringum okkur alla daga.

Það er gott að vera minntur reglulega á að horfa betur í kringum sig. Nota nefið betur.

Góður vinur minni hringdi í mig um daginn og minnti mig á að gleyma nú ekki að finna ilminn af andartakinu. Hann var staddur á Mokka, því listakaffihúsi sem er einn af þeim fáu stöðum sem hafa fengið að halda sér nokkuð óbreyttir.

Hann bað hógværlega um aðeins eina og hálfa mínútu af mínum dýrmæta tíma til að spjalla við mig.

Eins og við manninn mælt tókst honum að láta mig gleyma mér í miklu lengra en mjög ánægjulegu samtali.

Ævinlega þegar ég á samskipti við fólk af þessari sjaldgæfu tegund, fólk sem talar hægt og virðist hafa allan tímann í heiminum á sínu valdi, fer ég að velta fyrir mér hvað tímaleysið sem flest okkar glíma við daglega, rænir okkur mikilli upplifun.

Það er full ástæða til að minna fólk sem oftast á að gefa sér tíma til að staldra við augnablikið, af því að:

„Life is what happens.....while your making other plans,“ eins og Lennon komst svo ágætlega að orði.

khk@mbl.is

Kristín Heiða Kristinsdóttir