Jón Gísli Þórarinsson fæddist í Reykjavík 16. ágúst 1920. Hann andaðist á hjartadeild Landspítalans sunnudaginn 17. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Þórarinn Jónsson skipstjóri, f. 24. maí 1894, d. 13. apríl 1937 og Sigríður Gísladóttir, f. 14. apríl 1892, d. 10. ágúst 1980. Systkini Jóns voru Sigþór Karl, Gyða Þórdís, Kristbjörn Borgþór og Hrefna Bryndís. Þau eru öll látin. Jón kvæntist 18. desember 1943 Helgu Jónsdóttur, f. 5. febrúar 1916. Börn þeirra eru Sigrún Stella, Þórarinn og Magnús Þór. Barnabörn Jóns og Helgu eru fjögur og barnabarnabörnin níu. Jón ólst upp í Reykjavík, stundaði ungur sjómennsku og sölumennsku auk annarra starfa. Hann lauk söngkennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1953, nam orgelleik við Söngskóla þjóðkirkjunnar 1952-1954, og orgelleik við Tónlistarskólann í Reykjavík 1954-1957. Jón stundaði nám í kennslufræðum í Denver í Colorado 1957-1958, nám í kennslu á blásturs- og slagverkshljóðfæri við University of Toronto 1959-1960, og nám í orgelleik við Staatliche Hochschule für Musik Hamburg 1965 og 1967. Jón var söngkennari við Miðbæjarskólann 1953-1969. Kenndi við Álftamýrarskóla og Laugarnesskóla 1969-1971. Við Kvennaskólann í Reykjavík 1958-1965 og 1969-1983. Við Barnamúsíkskólann 1958-1961, og skólastjóri þar 1961-1962. Við Kennaraháskóla Íslands 1971-1987. Jón var organisti Bústaðasóknar 1952-1973 og Grensássóknar 1973-1982. Einnig starfaði hann við kirkju Óháða safnaðarins og á fleiri stöðum. Jón var félagi í Karlakórnum Fóstbræðrum og Útvarpskórnum, einnig stjórnaði hann um árabil Lúðrasveitinni Svan. Jón verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, fimmtudaginn 28. janúar, og hefst athöfnin kl. 15.

Öll eigum við börnin afa og ömmur. Spurningin er bara hversu lengi okkur auðnast að ganga saman lífsins veg. Ég hef átt ömmur og afa. Fyrstur til að kveðja var afi Valdi (1916-1988). Amma Sveinsína (1916-2003) lifði blessunarlega lengur. Þau voru afi og amma í Ólafsfirði. En ég átti líka afa og ömmu í Reykjavík. Amma Helga (1916) og afi Jón G. á Háaleitisbraut 52. Nú er afi Jón G. dáinn í hárri elli (1920-2010). Þeim degi hef ég kviðið því hann var maður sem ég leit upp til alla ævi, og ekki bara af því að hann var 1,98 á hæð.
Framan af ævi vorum við afi Jón G. ekki sérlega nánir. Ég lítill, hann stór. Langt á milli og aldursmunurinn 42 ár. Ég þekkti hann ekki og hann ekki mig. Nema í sjón. Að mér fannst. Ég þekkti ömmu Helgu miklu betur. Hún hafði mýkri nærveru frá fyrstu tíð eins og títt er um ömmur. En það var alltaf mikið tilhlökkunarefni að fara suður og sjá afa og ömmu á Háaleitisbraut 52. Stundum sat ég bara í rauða stofusófasettinu og horfði á afa lesa Morgunblaðið. Hann fletti því á sérstæðan hátt; sló blaðsíðunum til af afli. En við kynntumst meir eftir því sem leið á ævina; og yðar einlægur stækkaði; svo fórum við stóru strákarnir að tala saman. Mér fannst alltaf merkilegt að eiga afa og ömmu í Reykjavík. Tók alltaf strætó - leið 3 á Hlemmi og varð ekki í rónni fyrr en ég sá Bræðurna Ormsson; þá rataði ég heim til afa og ömmu.
Það var á unglingsárum sem ég gerði mér grein fyrir því að afi Jón var merkilegur maður. Ungur missti hann föður sinn, vann fyrir móður sinni, fórnaði frama sínum til að hjálpa móður í nauð; gekk menntaveginn á miðjum aldri, giftur maður með börn. Gerðist tónlistarkennari enda var tónlist ástríða hans. Organisti sem dáði Bach. Loks small spilið saman. Allt fullkomnað.
Ég bjó hjá afa og ömmu í Háaleitisbraut 52 í tvo mánuði sumarið 1988; var í einhverju sumarnámi. Halla kom suður með elsta son okkar, Hörð, og fórum við feðgarnir í dagsferð með afa og ömmu í hesthúsið. Það var algjörlega ógleymanlegur dagur; ég tók allt upp á videó og geymi til seinni ára.
Ég hef ekki orðið vitni að sterkari hetjudáð en þeirri að sjá afa Jón G. annast ömmu Helgu í veikindum hennar síðustu ár, og ég á ekkert nema aðdáun við að sjá hann takast á við miskunnarleysi ellinnar. Hann lifði fyrir ömmu í bókstaflegum skilningi. Hvort sem það var eftir mjaðmaaðgerðina eða þegar hún missti annan fótinn og var bundin hjólastól, eða eftir að hún flutti á Sóltún. Hann var ömmu trúr allt til enda, alveg eins og við móður sína forðum. Ást hans og umhyggja átti sér engin takmörk.
Hvíl í friði, elsku afi; þakka þér trúnað og traust, og samveruna alla. Ég mun aldrei gleyma stundinni þegar ég kvaddi þig síðast. Þú lifðir með reisn og með reisn vildir þú deyja.

Við Halla þökkum fyrir allt sem þið amma Helga gerðuð fyrir okkur.

Helgi Jónsson.

Þann 17. janúar sl. lést Jón G. Þórarinsson tengdafaðir minn eftir stutt veikindi.  Þegar ég kynntist tengdaforeldrum mínum voru þau komin á áttræðisaldur og nýbúin að kaupa sér hús á Spáni. Þar áttu þau góða tíma og Spánn varð stór partur af lífi þeirra. Hann tengdapabbi var alltaf tilbúinn til þess að takast á við nýjar áskoranir og lifði lífinu til fulls. Þótt hann væri kominn á níræðisaldur fór hann enn á ýmis námskeið og fyrir jólin gaf hann okkur geisladisk sem hann tók upp og spilaði sjáfur inná í stofunni heima.

Það var einstakt að fylgjast með því hvernig Jón hugsaði um Helgu þegar hún var orðin veik.Einhvern veginn tókst þeim að gera hlutina á sinn fallega hátt, alveg sama hvað það var.  Tengdapabbi var einstakur maður. Hann var praktískur og vildi tala hreint út um hlutina, réttsýnn og greindur. Úrræðagóður var hann og gat skoðað hlutina frá ólíkum sjórnarhornum. Þess vegna var svo gott að leita til hans og heyra hans skoðanir.

Við spjölluðum oft og mikið saman og töluðum um allt milli himins og jarðar. Hann gekk mér eiginlega í föðurstað og Helga talaði alltaf um hann sem pabba minn. Það fannst mér mikið hrós. Það hefur svo sannarlega auðgað líf mitt að kynnast þessu frábæra og vel gerða fólki.

Við Magnús Þór höfum átt margar góðar stundir með Jóni og Helgu. Á jólunum áttum við okkar hátíðlegustu stundi. Þegar líða fór á aðfangadagskvöldið og matarstússi var lokið og búið að taka upp pakkana sögðu Jón og Helga okkur sögur úr fortíðinni. Alltaf gátum við talað um hluti sem skiptu máli.

Það segir margt um þrautseigju og dugnað Jóns að hann var orðinn fullorðinn fjölskyldumaður þegar hann hóf tónlistarnám.Það gerði hann bæði hér heima og erlendis.  Ef Jón ætlaði sér eitthvað þá var fátt sem gat staðið í veginum fyrir því. Hann Jón ætlaði sér heim af spítalanum, hann átti konu sem hann vildi hugsa um. En það var kominn hans tími til að kveðja.  Það gerði hann líka fallega.

Ég mun sakna þessa frábæra manns og kveð hann með þakklæti í mínu hjarta.

Hvíli hann í Guðs friði.

Þórunn Þórisdóttir.

Mig langar að minnast Jóns Þórarinssonar í nokkrum orðum.

Þegar ég var á þrettánda heltók hestabakterían mig algerlega. En þá voru góð ráð dýr. Engir voru til aurar til að fjárfesta í hesti og engir vinir eða kunningjar sem höfðu upp á aðstöðu að bjóða. Þá kynntist ég Jóni. Sonur hans, Þórarinn og hans kona, voru vinafólk foreldra minna og þau buðu mér einn daginn að koma á bak sem og ég þáði snarlega. Var svo mætt daginn eftir upp í hesthús í voninni um að fá að setjast aftur á bak. Eftir fjölskyldufund þeirra bauð Jón mér að annast um og ríða á hryssu í eigu hans, Ljónslöpp frá Kolkuósi, veturinn eftir. Hryssan sú var ekki allra, þýður brokkari en ganglítil, viljug og nokkuð sérstök í umgengni, ljóntygg og vör um sig. Ég tók ástfóstri við hryssuna, reið henni nánast upp á dag allan veturinn og lærði margt og mikið enda var hún frábær kennari fyrir áhugasaman nemanda. Eftir þetta varð ekki aftur snúið. Öll mín unglingsár var ég í hesthúsinu hjá Jóni, fékk að njóta hans góðu hrossa, fór minn fyrsta skeiðsprett á gæðingshryssu hans, Perlu frá Kolkuósi og aðstoðaði hann við hirðingar í staðinn. Ómetanlegt fyrir unga stúlku með hestaáhuga af öllu  hjarta. Jón talaði alltaf við mig eins og fullorðna manneskju og í hesthúsinu undi ég mér öllum stundum. Hann aðstoðaði mig við að eignast minn fyrsta hest, Skúf, og þegar ég þurfti að fella hann sökum óhapps, gerði hann mér ákaflega sanngjarnt tilboð þannig að mér, auralausum námsmanninum, var gert kleift að eignast hest sem varð mér mikill kennari og vinur, Sindra frá Kópavogi, og  var hann undan fyrrnefndri Perlu. Þetta lýsir Jóni vel, hvernig hann tók vandalausa stúlkukind upp á arma sína og aðstoðaði á alla lund við að geta stundað þetta frábæra sport sem hestamennskan er. Án hans er alls óvíst að mín hestamennska hefði þróast eins og raun ber vitni.

Þrátt fyrir að hin seinni ár höfum við ekki haft mikið samband þá á Jón mikið pláss í mínum minningum, hann gerði mér kleift að stunda áhugamál sem seinna meir varð mín atvinna.

Ég votta Helgu, eftirlifandi konu hans og afkomendum þeirra innilega samúð.

Jón Þórarinsson var góður maður og reyndist mér vel. Blessuð sé minning hans.

Hulda Gústafsdóttir.