Guðrún Guðmundsdóttir fæddist á Kópaskeri 14. apríl 1922. Hún lést á Landakotsspítala 16. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðmundur Kristjánsson, f. 1. júní 1884 á Víkingavatni í Kelduhverfi, d. 18. desember 1965, og Björg Indriðadóttir, f. 18. ágúst 1888 í Keldunesi í Kelduhverfi, d. 22. janúar 1925. Alsystkini Guðrúnar voru: Árni og Indriði, sem létust í frumbernsku, Jónína Sigurveig, f. 1916, d. 2006, og Björn, f. 1918, d. 2006. Hálfsystkini hennar voru: Kristján, f. 1933, d. 1975, Árni Ragnar, f. 1935 og Björg, f. 1944. Guðrún ólst upp á Víkingavatni í Kelduhverfi og á Kópaskeri. Hún varð gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri 1941. Eftir gagnfræðapróf vann hún við húsmæðraskólann á Ísafirði en fluttist til Reykjavíkur 1943. Hún vann um nokkurt skeið á skrifstofu Olíuverslunar Íslands í Reykjavík. Í lok ársins 1948 hóf Guðrún störf við bókhald hjá Áfengis- og lyfjaverslun ríkisins, síðar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Hún var aðalbókari frá 1957 til starfsloka 1992. Guðrún var mikill unnandi klassískrar tónlistar. Um nokkurra ára skeið stundaði hún nám í píanóleik, söng, tónfræði og tónlistarsögu við Tónlistarskóla Reykjavíkur. Hún var um tíma í Samkór Reykjavíkur og var ein af stofnendum Söngsveitarinnar Fílharmóníu, þar sem hún söng í nokkur ár. Eiginmaður Guðrúnar var Eggert Eggertsson, f. 14. ágúst 1909, aðalgjaldkeri hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Þau hófu sambúð um 1960 en hann lést 11. febrúar 1969. Eftir fráfall Eggerts hélt Guðrún heimili með systur sinni Jónínu Sigurveigu, allt þar til Jónína lést sumarið 2006. Eftir það bjó hún ein í íbúð þeirra systra á Dalbraut 16. Útför Guðrúnar verður gerð frá Langholtskirkju í dag, fimmtudaginn 28. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.

Allt frá því að við bræðurnir vorum ungir drengir höfum við ávallt átt margt gott fólk að. Þar voru afasystur okkar, Nonna og Gúgú, framarlega í flokki með endalausa hlýju og velvild í okkar garð. Ekki skemmdu heldur fyrir þær botnlausu byrgðir af góðgæti sem okkur stóð ávallt til boða þegar við komum í heimsókn.
Síðustu árin hef ég fengið að kynnast Gúgú betur og eitt af því sem ég hef lært að meta er hversu blátt áfram og hreinskilin hún var. Góðu dæmi um hreinskilni hennar fengum við Sigurborg Ósk, þá kærasta mín til fáeinna mánaða, að kynnast þegar við tilkynntum Gúgú og ömmu Jonnu í sameiningu að við ættum von á barni. Sterk viðbrögð Gúgú komu fljótt í ljós, Nei, þið eruð nú meiru vitleysingarnir!, var það fyrsta sem við fengum að heyra. Þrátt fyrir harkaleg viðbrögð hennar var aldrei djúpt á velvildinni og eftir að Sveinn Jörundur kom í heiminn var eins og við hefðum fært henni fullkomið, nýbakað kraftaverk í hvert sinn sem við heimsóttum hana.
Þessar heimsóknir til hennar með Svein Jörund á sínu fyrsta ári eru þær bestu stundir sem ég hef átt með Gúgú. Gleðin og hamingjan yfir þessum stuttu heimsóknum okkar skein úr hjarta hennar eins og nýir logar úr gömlum glæðum.

Við Sigurborg og Sveinn Jörundur erum afar þakklát fyrir að hafa átt þessar góðu stundir með Gúgú síðastliðið ár. Þeim munum við aldrei gleyma.


Björn Hákon Sveinsson, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir og Sveinn Jörundur Björnsson.