Katrín J. Smári fæddist í Kaupmannahöfn 22.7. 1911. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 13. janúar sl. Foreldrar hennar voru Jakob Jóhannesson Smári, málfræðingur, rithöfundur og yfirkennari við MR, f. 9.10. 1889, d. 10.8. 1972, og kona hans Helga Þorkelsdóttir Smári, kjólameistari, f. 20.11. 1884, d. 1.2. 1974. Bróðir Katrínar er Bergþór Smári læknir, f. 25.2. 1920. Katrín giftist 8.6. 1940 Yngva Pálssyni, f. 22.5. 1909, d. 2.7. 1980. Foreldrar hans voru Páll Nikulásson, f. 11.12. 1864, d. 10.11. 1932, og Björg Pétursdóttir, f. 6.1. 1875, d. 9.4. 1962. Börn Katrínar og Yngva eru: Helga Björg, f. 6.7. 1943. Maki 1) Þorfinnur Karlsson verslunarmaður, f. 24.8. 1941, d. 26.7. 1990. Þau skildu. Börn þeirra eru: a) Yngvi Páll verkfræðingur, f. 2.1 1964, maki 1) Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur, f. 26.9. 1967. Þau skildu. Þeirra börn eru Þórdís Björg og Dagur Ingi. Maki 2) Kristín Anna Jónsdóttir þroskaþjálfi, f. 7.7. 1969. Þau slitu sambúð. Þeirra sonur er Þorfinnur Már. b) Sigríður Margrét líffræðingur, f. 16.8. 1967, maki Elías Bjarni Guðmundsson viðskiptafræðingur, f. 2.4. 1967. Þeirra börn eru Helga Guðný, Vilhjálmur Grétar og Ingólfur Bjarni. Maki 2) Ólafur Birgir Árnason hæstaréttarlögmaður, f. 8.9. 1940, d. 30.3. 2001. Þeirra dóttir er Katrín Smári lögfræðingur, f. 8.6. 1979. Sambýlismaður Karl S. Jónsson viðskiptafræðingur, f. 28.7. 1978. 2) Jakob prófessor, f. 23.11. 1945, maki Guðrún Kvaran prófessor, f. 21.7. 1943. Börn þeirra eru: a) Böðvar Yngvi MA í heimspeki og þýðandi, f. 12.2. 1977, sambýliskona Marta Guðrún Jóhannesdóttir kennari, f. 7.10. 1978. Þau slitu sambúð. Sonur þeirra er: Einar Hugi. b) Steinunn Helga MA í þróunarfræðum, f. 26.4. 1981. Katrín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1930 og stundaði nám í forspjallsvísindum og frönsku við Háskóla Íslands 1930-1931. Næstu árin vann hún ýmis störf, m.a. sem þingskrifari. Árið 1959 var Katrín kjörin varaþingmaður Alþýðuflokksins og sat á Alþingi 1960, 1964 og 1965. Hún var kennari við Hagaskóla 1960-1961 og 1962-1964. Eftir það starfaði hún sem læknaritari til 1973. Katrín var mjög félagslega sinnuð, sat í ýmsum nefndum, m.a. í stjórn Kvenfélags Alþýðuflokksins í Reykjavík og í stjórnum fleiri kvenfélaga. Útför Katrínar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 27. janúar og hefst kl. 13.

Elskuleg vinkona mín og langamma sonar míns Katrín Jakobsdóttir Smári lést þann þrettánda janúar síðastliðinn á nítugasta og níunda aldursári. Ég kynntist Katrínu fyrir rétt rúmum áratug þegar ég hóf sambúð með sonarsyni hennar Böðvari Yngva Jakobssyni. Okkur Katrínu varð fljótt vel til vina og þrátt fyrir mikinn aldursmun varð hún ein af mínum kærustu vinkonum. Við áttum margar góðar stundir saman bæði á heimili hennar í Bólstaðarhlíðinni og á flakki okkar um bæinn. Katrín var einstaklega fjörug kona og blátt áfram. Ég mun aldrei gleyma fallegu brosi hennar, kankvísu bliki og hlýju í augum hennar. Við drukkum oft saman kisukaffi eins og hún kallaði það, enda mikil kisa. Eftirminnilegastar eru rjómasvallveislurnar okkar, það er ekki hægt að kalla þær annað, enda létum við okkur ekki nægja að fá rjóma út í kaffið heldur var ótæpilega sprautað úr rjómasprautunni yfir kökurnar sem við pöntuðum okkur á kaffihúsum bæjarins eða nutum þess að borða í Bólstaðarhlíðinni. Ætli við höfum ekki átt það sameiginlegt að vera miklir sælkerar sérstaklega þegar kemur að sætmeti.

Með árunum átti Katrín sífellt erfiðara með gang sökum svima. Við létum það ekki stoppa okkur og héldum áfram að fara í leikhús og á sýningar. Við vorum einstaklega ánægðar með móttökurnar á Kjarvalsstöðum og í Borgarleikhúsinu. Þar var allt gert til þess að auðvelda okkur að komast um með hjólastólinn vandræðalaust. Þar kom þó að því sökum heilsubrests að Katrín varð að flytja sig yfir á Hrafnistu, þá nítíu og sex ára gömul.

Katrín sýndi syni okkar Böðvars, Einari Huga, ávallt mikinn áhuga og mikla væntumþykju og við mæðginin eigum eftir að sakna hennar mikið. En minningarnar eru margar og góðar. Eftir stendur mikið þakklæti yfir því að hafa kynnst þessari merkilegu og yndislegu konu, fá innsýn inn í heim hennar sem fæddist rétt eftir aldamótin 1900 en var sannarlega á undan sinni samtíð.

Það hefur verið mér ómetanlegt að eiga Katrínu að og hún mun vera mér fyrirmynd í því að lifa lífinu til fulls og hlusta á eigin rödd.  Ég mun minnast hennar sem sterkrar konu, listrænnar og lífsglaðrar.

Ég get ekki annað en hugsað til Katrínar sem ungrar konu í Varmadal þar sem hún dvaldi á sumrin hjá ættingjum og naut þess að fara í langa útreiðartúra, frjáls, rjóð í kinnum, brosandi og full af þeim krafti sem þvarr ekki fyrr en hún var komin á tíðræðisaldur. Blessuð sé minning hennar.

Lækkar lífdaga sól.
Löng er orðin mín ferð.
Fauk í faranda skjól,
fegin hvíldinni verð.
Guð minn, gefðu þinn frið,
gleddu og blessaðu þá,
sem að lögðu mér lið.
Ljósið kveiktu mér hjá.
(Herdís Andrésdóttir.)

Marta Guðrún Jóhannesdóttir.