[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steingrímur Hermannsson fæddist í Reykjavík 22. júní 1928. Hann lést að heimili sínu í Mávanesi í Garðabæ 1. febrúar 2010.

Foreldrar Steingríms voru Hermann Jónasson forsætisráðherra, f. 25.12. 1896, d. 22.1. 1976, og Vigdís Oddný Steingrímsdóttir, f. 4.10. 1896, d. 2.11. 1976. Eftirlifandi systir Steingríms er Pálína Hermannsdóttir, f. 12.9. 1929.

Steingrímur kvæntist 14.3. 1951 Söru Jane Donovan, f. 1924. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Jón Bryan Hermannsson, f. 1951, arkitekt og verkfræðingur í San Fransisco, maki hans Lieselotte Hermannsson, starfsm. á lögmannsstofu. Börn: Bryan, f. 1983, og Stefan, f. 1985. 2) Ellen Herdís Hermannsson, f. 1955, húsmóðir í Flórída, maki hennar Cary Vhugen sölustjóri. Börn: Adam, f. 1993, Erik, f. 1995, og Hannah, f. 1999. 3) Neil Hermannsson, f. 1957, tannlæknir í Flórída.

Steingrímur kvæntist 19.10. 1962 Guðlaugu Eddu Guðmundsdóttur, f. 1937. Börn þeirra eru: 1) Hermann Ölvir, f. 1964, verkfræðingur, maki hans Erla Ívarsdóttir kennari. Barn þeirra er Steingrímur, f. 1993. 2) Hlíf, f. 1966, yfirlæknir, var gift Eyjólfi Ágústi Kristjánssyni lögfræðingi. Börn þeirra: Steingrímur, f. 1991, og Guðmundur Snorri, f. 1995. Síðari maki Halldór Ó. Zoëga verkfræðingur. Barn þeirra er Vigdís Edda, f. 2004. 3) Guðmundur, f. 1972, alþingismaður, maki hans Alexía Björg Jóhannesdóttir, leikkona og leiðsögumaður. Barn þeirra er Jóhannes Hermann, f. 2009. Barn Guðmundar og Sigríðar Liv Ellingsen er Edda Liv, f. 2004.

Steingrímur tók stúdentspróf frá MR 1948, lauk B.Sc-prófi í rafmagnsverkfræði frá Illinois Institute of Technology í Chicago 1951 og M.Sc-prófi í rafmagnsverkfræði frá California Institute of Technology í Pasadena 1952. Síðar var hann sæmdur heiðursnafnbótum við báða háskólana.

Steingrímur var verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1952-53 og hjá Áburðarverksmiðjunni hf. 1953-54. Hann var verkfræðingur við Southern California Edison Company í Los Angeles 1955-56, verkfræðingur við Verklegar framkvæmdir hf. 1957, framkvæmdastjóri atvinnumálanefndar ríkisins 1957-61 og framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins 1957-78.

Hann var kjörinn formaður Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík 1962, tók sæti í miðstjórn Framsóknarflokksins 1964, varð ritari hans 1971 og formaður 1979-94. Hann var varaþingmaður fyrir Vestfirðinga 1967-71, þingmaður þeirra 1971-87 og þingmaður Reykjaneskjördæmis 1987-94. Steingrímur var dóms-, kirkjumála- og landbúnaðarráðherra 1978-79, sjávarútvegs- og samgönguráðherra 1980-83, forsætisráðherra 1983-87, utanríkisráðherra 1987-88 og að nýju forsætisráðherra 1988-91. Hann var bankastjóri Seðlabanka Íslands 1994-98.

Steingrímur sat í fjölmörgum nefndum og ráðum um ævina. Eftir að starfsævi lauk hélt hann áfram að láta til sín taka, ekki síst á sviði umhverfismála, m.a. með stjórnarsetu í Landvernd og stofnun Umhverfisverndarsamtaka Íslands, þar sem hann var lengst af formaður. Þá var hann stjórnarmaður í Millennium Institute í Bandaríkjunum og um skeið formaður stjórnar og formaður Surtseyjarfélagins allt frá stofnun þess þar til í júlí sl., eða í 44 ár. Einnig átti hann drjúgan þátt í stofnun Sjóðs Leifs Eiríkssonar, sem veitir námsstyrki, og var stjórnarformaður hans allt þar til nýverið. Hann var sæmdur gullmerki ÍSÍ og var Paul Harris félagi í Rotaryklúbbi Reykjavíkur, þar sem hann var meðlimur frá 1969.

Útför Steingríms fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 9. febrúar 2010, og hefst athöfnin kl. 14. Jafnframt verður hægt að fylgjast með athöfninni af skjá í sal Oddfellowhússins við Vonarstræti.

Kvöld að Kletti

Eins og sól sem sest við rönd

sönn þig ævin lætur

stafa geislum, lýsa lönd

litum flétta skýjabönd.

Minning þín er mánaskin um nætur.

Hvíl í friði, pabbi minn.

Guðmundur Steingrímsson.

Á lífsleiðinni mótast fólk af ýmsum þáttum í umhverfi sínu. Margbrotin náttúra hefur haft áhrif á Íslendinga um aldir. Mestu ráða þó samskipti við fjölskyldu, vini og samstarfsmenn um það hvernig til tekst við þau verkefni sem forsjónin færir okkur í hendur. Steingrímur Hermannsson var áhrifavaldur í lífi margra. Þegar hann haslaði sér völl á sviði íslenskra stjórnmála nutu sín vel elja hans og kapp auk þess sem hann var einstaklega minnisgóður á smátt sem stórt og stundum svo að undrun sætti. Steingrímur hafði óbilandi trú á möguleikum Íslands og Íslendinga til að takast á við framtíðina og skapa komandi kynslóðum betra líf. Þekking hans og menntun var honum mikilvægt veganesti í stefnumótun og allri framkvæmd.

Nýting auðlinda landsins var honum ofarlega í huga og hann áttaði sig betur á því en flestir aðrir hversu mikilvæg framleiðsla raforku var fyrir efnahagslegar framfarir. Jafnframt var hann mikill unnandi íslenskrar náttúru. Þessi sjónarmið tókust á í huga hans. En hann var gott dæmi um sannan umhverfissinna sem lagði sig fram um að sætta sjónarmið nýtingar og verndunar. Sem forystumaður í stjórnmálum gátu ákvarðanir Steingríms verið umdeildar og sumt gat fallið í grýttan jarðveg. Miklu oftar átti hann þó mikinn samhljóm með þjóðinni og var í fararbroddi á tímum mikilla framfara og átti síðasta orðið í mörgum mikilvægum ákvörðunum sem færðu þjóðina fram á veg.

Steingrímur var formaður Framsóknarflokksins í hálfan annan áratug og helgaði flokknum mikinn hluta starfsævi sinnar, sat í umboði hans í ríkisstjórn í rúman áratug, lengst af sem forsætisráðherra.Við sem nutum leiðsagnar hans og forystu minnumst einstaks dugnaðar hans og baráttuþreks. Sem forystumaður í ríkisstjórn þurfti Steingrímur oft að taka mikið tillit til samstarfsmanna í öðrum flokkum í málum sem voru umdeild í hans eigin flokki. Hann vissi sem var að án málamiðlana næst sjaldnast árangur og án samstöðu verður verkefnum sem framtíðin kallar á aldrei sinnt. Samtímamenn hans leggja sjálfsagt mat á störf hans með misjöfnum hætti.

Í mínum huga gerði hann best þegar hann hafði forystu um að taka þátt í samningum um aðild landsins að Evrópska efnahagssvæðinu. Hann var ekki sáttur við niðurstöðu samningaviðræðna en án forystu ríkisstjórnar hans hefði sennilega ekkert orðið af þeim samningum. Sama má segja um þjóðarsáttarsamningana fyrir tuttugu árum, sem voru upphaf stöðugleika og mikilla framfara í efnahagslífinu. Farsæll forystumaður er fallinn frá. Með honum er jafnframt genginn mikill keppnismaður og íþróttamaður. Hans hinsta barátta við ólæknandi sjúkdóm sýndi vel þrekið og baráttuviljann.

Það var ekki vani Steingríms að gefast upp og snúa við í miðri brekku. Að þessu sinni varð hann þó að láta í minni pokann eftir frækilega baráttu. Eftir lifir minningin um góðan dreng, sem lagði sig fram og lagði mikið af mörkum til heilla fyrir íslenska þjóð. Við Sigurjóna þökkum langa samferð og vináttu og vottum Eddu og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð. Við biðjum góðan Guð að styrkja þau á erfiðum tímum.

Halldór Ásgrímsson.

Með Steingrími Hermannssyni er genginn merkur stjórnmálamaður sem markaði spor í þjóðarsöguna. Hann var mannþekkjari í stjórnmálum sem kom mörgu góðu til leiðar.

Hann hóf þátttöku í stjórnmálum tiltölulega seint á ævinni en bjó fyrir bragðið að fjölþættri reynslu og staðgóðri menntun, auk þess að vera mótaður af þeim viðhorfum sem ríktu í föðurhúsum þar sem baráttan við atvinnuleysi og fátækt á kreppuárunum og hugsjónirnar sem stuðluðu að stofnun lýðveldisins voru í forgrunni.

Steingrímur átti sér baráttumál og hugsjónir en varð oft að láta sér lynda að gera gott úr flóknum og erfiðum stöðum, ná fram málmiðlunum, eiga samvinnu við andstæðinga, og fást við ýmsar aðrar þverstæður sem upp koma í lífi stjórnmálamanns. Fáir hafa verið eins reiðubúnir og hann til þess að viðurkenna efasemdir um ákvarðanir eða stefnu stjórnvalda og játa mistök eða yfirsjónir í framkvæmd mála. Hann afvopnaði menn oft í umræðum með hreinskilnislegum frávikum frá hefðinni í pólitískri umræðu.

„Ég var plataður,“ sagði hann þegar óprúttnir útgerðarmenn höfðu fengið leyfi til skipakaupa á fölskum forsendum. Og stundum átti hann það til að svara með þeim hætti að ríkisstjórnin hefði eina skoðun, Framsóknarflokkurinn aðra en í rauninni hallaðist hann sjálfur að þriðju skoðuninni. Þetta var ekki endilega lagt honum til lasts sem vingulsháttur heldur oftar tekið til vitnis um að þarna færi maður sem þyrði að velta fyrir sér málum og skipta um skoðun ef rök stæðu til þess.

Hann var um 15 ára skeið formaður í Framsóknarflokknum, ráðherra litlu skemur og var forsætisráðherra samanlagt í sjö ár, í þremur ríkisstjórnum. Mér féll ákaflega vel að starfa undir forystu Steingríms í ríkisstjórn. Síðar hefur mér skilist að margt í starfsvenjum ríkisstjórna fram á þennan dag eigi rætur sínar í skipulögðum vinnubrögðum verkfræðingsins sem endurskipulagði vinnuna við ríkisstjórnarborðið þegar hann settist fyrst í stól forsætisráðherra 1983. Hann var alla tíð fylginn sér en lipur og úrræðagóður í samningum. Þegar við sátum saman í ríkisstjórn hafði honum lærst að traust milli manna ræður úrslitum um farsæld stjórna og úrlausn margra málefna. Hann lagði sig því fram um að skapa slíkt traust í samskiptum og leysti marga deiluna áður en hún varð að hörðum hnút. Eiginleikar hans sem samningamanns nutu sín best í þjóðarsáttarsamningunum 1990 sem lögðu grunn að löngu tímabili stöðugleika og velsældar. Sú framganga ein hefði nægt til þess að halda nafni hans á lofti í stjórnmálasögunni en væri sjálfsagt flokkuð sem baktjaldamakk í fjölmiðlum í dag.

Þegar árin tóku að færast yfir var eins og Steingrímur hneigðist meir að gagnrýnum viðhorfum til þjóðmála. Stuðningur hans við myndun Reykjavíkurlistans var afar mikilvægur. Athygli vakti umhyggja hans fyrir náttúrunni, umhverfismálum og efasemdir í garð ofuráherslu á stóriðju.

Samferðamenn Steingríms minnast hans með hlýhug og þakklæti. Ég færi Eddu ekkju hans og afkomendum Steingríms hugheilar samúðarkveðjur og þakkir.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Steingrím Hermannsson sá ég fyrst í eigin persónu árið 1978 eða 1979 og þá sem landbúnaðarráðherra á fundi um þau málefni norður á Þórshöfn. Man ég enn glöggt að mér fannst mikið til koma af hve miklu hispursleysi hann ræddi við fundarmenn, sem að uppistöðu til voru bændur og skyldulið, um vandamál landbúnaðarins eins og t.d. framleiðslu langt umfram þarfir innanlandsmarkaðar.

Á þessu kvað Steingrímur þurfa að taka og stuggaði svo við ýmsum, nær heilögum beljum kerfisins, að mörgum framsóknarbóndanum varð ekki um sel.

Síðan lágu leiðir okkar saman á Alþingi vorið 1983. Áttum við þá kannski ekki á yfirborðinu mikið sameiginlegt nema nafnið. Að afloknum árangurslausum viðræðum um mögulegt samstarf, eða öllu heldur, áframhaldandi samstarf Framsóknar og Alþýðubandalags, sem ég tók lítillega þátt í, myndaði hann sína fyrstu ríkisstjórn.

Eftir það var hlutverkum svo skipt að hann var hinn prúðmannlegi forsætisráðherra og ég kjaftfor strákur í stjórnarandstöðu, yngstur og hvað óheflaðastur þingmanna. Aldrei minnist ég annars en að hann hafi svarað og brugðist við málefnalega og af þolinmæði, sem var örugglega á köflum meira en ég átti skilið. Smátt og smátt myndaðist hlýlegt samband milli okkar og við fórum að kalla hvor annan nafna, þegar vel lá á okkur.

Í næsta ráðuneyti Steingríms Hermannssonar, sem myndað var á skömmum tíma í kjölfar nokkurra pólitískra sviptinga haustið 1988, var ég yngstur ráðherra og fór með tvo málaflokka, ráðuneyti landbúnaðarmála og samgöngumála. Er skemmst frá því að segja, að Steingrímur Hermannsson reyndist mér afar vel og gott var að lúta verkstjórn hans og eiga hann að. Hann hafði þann hátt á að standa gjarnan með þeim ráðherra eða ráðherrum sínum sem áttu á brattann að sækja með sín mál hverju sinni og skiptu þá flokkar engu máli. Hann var næmur á það ef deilur eða átök gætu verið í uppsiglingu, fljótur að bera vopn á klæðin og slökkva elda ef einhverjir voru að taka sig upp. Ég var ekki alltaf vinsælastur við ríkisstjórnarborðið, með útgjaldafrek vandamál landbúnaðarins og fjárfrekar samgönguframkvæmdir á herðunum, en átti yfirleitt vísan stuðning nafna, eða a.m.k. skilningi hans að mæta.

Steingrímur var kappsamur til vinnu sjálfur og gat átt það til að boða mann til fundar eldsnemma að morgni, eins þótt útstáelsi hefði verið kvöldið áður. Hann ætlaðist til hins sama af öðrum og kunni líka vel að meta ef menn drógu ekki af sér. Þegar menn gerðu sér dagamun var hann kátastur manna og get ég vel játað það á mig nú, að ég átti til á þessum árum að lauma að honum hugmyndum um slíkt sem var yfirleitt vel tekið.

Þegar um hægðist hjá Steingrími eftir langan feril í stjórnmálum og opinberum störfum gat hann helgað sig áhugamálum sínum og tómstundagamni. Það gerði hann af sínum alkunna dugnaði og kappsemi og eins lengi og kraftar leyfðu. Umhverfismálin urðu honum sífellt hugleiknari sem og varðstaða um sjálfstæði og fullveldi landsins. Leiðir okkur lágu saman af og til, tengt slíkum viðfangsefnum, fram undir hið síðasta og urðu jafnan fagnaðarfundir.

Að leiðarlokum færi ég nafna mínum þakkir fyrir samstarfið, votta mikilhæfum manni virðingu og aðstandendum samúð mína og fjölskyldu minnar.

Steingrímur J. Sigfússon.

Menn hafa það enn í dag fyrir satt að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafi verið tekin af í beinni útsendingu á Stöð 2 eftir kvöldfréttir hinn 16. september 1988. Þetta er að vísu of mælt. Ríkisstjórnin hafði naumast greinst með lífsmarki allt sumarið. Talsamband formanna samstarfsflokkanna var slitrótt. Ákvarðanir fengust ekki teknar. Þjóðarskútan var á reki. Það vantaði kúrsinn.

Það var við þessar tvísýnu aðstæður, að við Steingrímur Hermannsson sórumst í pólitískt fóstbræðralag.Við náðum, ásamt samstarfsmönnum okkar, samstöðu um úrræði sem dugðu við bráðavanda þess tíma. Svo settum við kúrsinn um hvert skyldi halda. Niðurstaðan varð myndun vinstristjórnar, undir forystu Steingríms, sem var við völd til loka kjörtímabilsins vorið 1991. Þetta kom mörgum í opna skjöldu. Það hafði verið fátt með frændum, jafnaðar- og samvinnumönnum, um hríð. En aðsteðjandi vandi neyddi okkur Steingrím til að slíðra sverðin og snúa bökum saman svo sem gert höfðu feður okkar, Hermann og Hannibal, forðum daga.

Það var þessi ríkisstjórn sem réð niðurlögum verðbólgunnar í nánu samstarfi við verkalýðshreyfingu og samtök atvinnurekenda um þjóðarsátt. Sá árangur hefði ekki náðst, hefði forsætisráherrann ekki notið trausts samningsaðila. Þessi ríkisstjórn beitti sér fyrir róttækum kerfisumbótum sem breyttu þjóðfélaginu þótt síðar yrði. Þetta á ekki hvað síst við um EES-samninginn. Hann var, hvað inntak varðar, til lykta leiddur í stjórnartíð Steingríms þótt ekki bæri hann gæfu til að fylgja því verki eftir. Það voru mistök eins og Steingrímur viðurkennir í merkri ævisögu sinni, sem Dagur B. Eggertsson skráði.

Þessi vinstristjórn Steingríms Hermannssonar var trúlega best mannaða ríkisstjórn lýðveldisins hingað til ásamt með fyrstu viðreisnarstjórninni 1959-63. Það var ekki heiglum hent að halda saman svo óstýrilátu liði í þriggja flokka stjórn (og reyndar fjögurra, síðar meir). Það var viðtekin trú manna, studd heilli kenningu í stjórnmálafræði að þriggja flokka samsteypustjórnir gætu ekki haldið út saman í heilt kjörtímabil. Sundurlyndið yrði þeim óhjákvæmilega að aldurtila. Steingrímur afsannaði þessa kenningu í verki og sannaði um leið að hann væri föðurbetrungur að þessu leyti.

Steingrímur var maður hermannlegur á velli og kippti því í kynið til föður síns, glímukappans og Strandagoðans. Hann var vel íþróttum búinn á yngri árum og harður keppnismaður þegar á reyndi. Hann undi lítt sínum hlut nema hann stæði fremstur meðal jafningja. Hann var því vel til forystu fallinn. En öðrum þræði reyndist hann vera mannasættir sem átti auðvelt með að laða aðra til samstarfs. Talsamband hans við þjóðina var gott. Almenningur skynjaði einlægni hans og vændi hann hvorki um hroka, undirhyggju né óheilindi.

Steingrímur var einn fárra verkfræðinga sem gert hafa stjórnmál að ævistarfi (Jón Þorláksson og Emil Jónsson koma þó upp í hugann).

Svo sem vænta mátti af verkfræðingi var hann tæknilega þenkjandi og leitandi að praktískum lausnum. Hann treysti sér vel til að rökræða vandamál til niðurstöðu; og þar með að taka tillit til málflutnings annarra ef hann var studdur sannfærandi rökum. Kannski var einmitt þetta lykillinn að því hve vel honum fórst úr hendi pólitísk verkstjórn. Hann kunni að láta aðra njóta sannmælis.

Með formannsferli Steingríms Hermannssonar lauk stórveldistímabilinu í sögu Framsóknarflokksins þegar arftakar Jónasar frá Hriflu höfðu bæði metnað og burði til að etja kappi við íhaldið um forystu fyrir landstjórninni. Þeir tímar eru nú liðnir og koma ekki aftur.

Steingrímur Hermannsson var farsæll stjórnmálamaður sem setti sterkan svip á samtíð sína. Um leið og við þökkum góð kynni og árangursríkt samstarf flytjum við Bryndís Eddu, afkomendum þeirra, fjölskyldu allri og frændgarði hugheilar samúðarkveðjur.

Jón Baldvin Hannibalsson.

Steingrímur Hermannsson gekk ungur inn á leikvang stjórnmálanna, hann kom með hugarfari íþróttamannsins og ný blæbrigði. Í honum bjó gott innsæi og var hann drenglyndur heiðursmaður. Hann bar sterkt svipmót ættar sinnar og þjóðar. Jafnframt var hann heimsmaður í framgöngu með yfirbragð Kennedyanna. Hann var ofinn úr margbreytilegum gullþráðum sem einstaklingur, aðdáun, vinsældir og velgengni sköðuðu hann ekki. Hjartahlýr, umhyggjusamur og lítillátur gekk hann fram í hverjum leik, þótt mikið skap og metnaður byggi í honum. Hann var einlægur og öll hreinskilin svör skópu honum lýðhylli um leið og framgangan var glæsileg. Þjóðinni fannst hann föðurlegur leiðtogi, henni fannst að hún ætti mikið í honum.

Hann var borgarbarn en landið allt var hans, bundinn órofaböndum við náttúruna og fólkið í landinu. Þrátt fyrir nám erlendis var það landið og þjóðin sem kallaði hann heim, hér var vettvangurinn sem hann þráði að umbreyta. Steingrímur var frumkvöðull og mörg fyrirtæki í nýsköpun síðustu ára voru hans. Hann var maður málamiðlana og sátta, kunni öðrum betur að lægja öldur.

Leiðtogahæfileikar forsætisráðherrans voru einstakir um það deila menn ekki. Stundum var eins og fjölflokka stjórnir hans ættu sér sjö líf, með lagni skákaði hann mönnum og flokkum inn á völlinn og hélt ótrauður áfram. Steingrímur var mikill fundarmaður og ötull á sínum pólitíska ferli að halda sambandi við fólkið í landinu, lagði áherslu á að fundarmenn töluðu og var góður hlustandi.

Ég minnist þess þegar hann sat undir ómaklegri gagnrýni og stóryrðum á Alþingi, þá gneistaði af kappanum, og þegar hann svaraði réð hann yfir tilfinningum og tókst á við andstæðinginn af föðurlegri mýkt. Stefnuræða forsætisráðherra er skrifuð og oft tilþrifaminni fyrir bragðið. Hins vegar er eldhúsdagsræðan frjálsari, þá sótti Steingrímur oft orku í gönguferð upp í Heiðmörk og andaði að sér vorkomunni. Angan vors og gróðurs gaf honum þrótt. Í blaðlausum ræðum þar sem hann var frjáls og honum hitnaði við hjartarætur var hann bestur og höfðu fáir roð í hann í kappræðum. Steingrímur var í raun mjög stefnufastur maður og sjálfum sér samkvæmur. Þjóðfélagsmyndin var skýr, hann studdi undirstöðuatvinnuvegi landsins, landbúnað og sjávarútveg. Hann var baráttumaður iðnaðar og nýsköpunar og sá mannauðinn og menntun í hyllingum. Steingrímur var framsóknarmaður af þeim meiði sem flokkurinn var stofnaður til í öndverðu og var meðvitaður um veginn sem flokknum ber að fylgja í þjóðfélagi breytinganna. Jafnframt var hann einlægur samvinnumaður en studdi frelsi og framtak einstaklingsins en græðginni varð að halda í skefjum.

Steingrímur var aldrei einn, við hlið hans stóð eiginkonan Edda Guðmundsdóttir, myndin af þeim saman er stór og glæsileg í mikilvægum störfum fyrir okkur Íslendinga. Á kveðjustund þökkum við Margrét honum góð kynni og vinarþel. Minningin um mikilhæfan þjóðarleiðtoga mun lifa. Stærst er þó minningin um drengskaparmanninn sem var alltaf hann sjálfur einlægur opinskár og hlýr.

Guðni Ágústsson.

Á níunda tug síðustu aldar var Steingrímur Hermannsson í hópi þeirra sem áhrifaríkastir voru í íslenskum stjórnmálum. Fáum afgerandi málefnum var þá ráðið til lykta án þess að hann ætti þar hlut að. Hann var flokki sínum happadrjúgur leiðtogi ekki síst fyrir þá sök að hann naut almennra vinsælda langt utan eigin raða.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn áttu tvívegis samstarf um ríkisstjórn á þessum áratug. Það var hlutskipti okkar Steingríms í báðum þessum stjórnum að leiða það samstarf, hvor fyrir sinn flokk. Þetta var áratugur óstöðugleika á vettvangi stjórnmálanna.

Frá gamalli tíð ríkti tortryggni í báðum fylkingum eins og gengur og gerist á átakavelli stjórnmálanna. Í fyrri ríkisstjórn flokkanna á þessum þverbrestasama áratug var Steingrímur forsætisráðherra. Þrátt fyrir margvíslega erfiðleika og efasemdir tókst það samstarf vel. Forsætisráðherrann varð oft og tíðum að sýna lipurð og víkja af hefðbundinni línu flokks síns til að tryggja þann árangur.

Í síðari ríkisstjórn flokkanna á þessum tíma bættist Alþýðuflokkurinn í samstarfið. Gömul tortryggni gróf þá fljótt um sig og upp úr samstarfinu slitnaði. Sams konar rof varð í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þrjátíu og tveimur árum áður með svipuðum pólitískum afleiðingum. Stundum verða slíkir atburðir ekki umflúnir.

Þvílík tíðindi verða tæpast án þess að þau snerti strengi tilfinninganna. Öðru verður heldur ekki haldið fram. Hitt er annað að lögmál tímans kennir mönnum að meta þær taugar sem héldu þeim saman til góðra verka en huga minna að hinum sem slitnuðu. Hjartað kemur þar líka lítið eitt við sögu.

Á áttræðisafmæli Steingríms Hermannssonar þótti mér gott að finna að við gátum báðir litið til liðinnar tíðar í þessu ljósi. Sjálfstæðismenn sem tóku þátt í pólitísku samstarfi með Steingrími Hermannssyni við ríkisstjórnarborðið kveðja með þökk og einlægri virðingu fyrir því fjölmarga sem hann vann þjóð sinni vel.

Í dag beinist hugurinn til þeirra sem stóðu Steingrími Hermannssyni næst og sakna mest þegar hinsti spölurinn með honum er á endann genginn.

Þorsteinn Pálsson.

Það hafa verið mikil forréttindi fyrir Grænlendinga að eiga Ísland að næsta nágranna. Í þau 37 ár sem ég átti sæti á grænlenska þjóðþinginu, þar af í sjö ár sem formaður landstjórnar, varð mér sífellt betur ljóst hversu mikill pólitískur, efnahags-, menningar- og atvinnulegur ávinningur það var fyrir Grænland að eiga náin og góð samskipti við Ísland.

Allt frá æskuárum mínum í Suður-Grænlandi og minnist ég með þökk allra þeirra íslensku bænda og fræðimanna sem allt fram á þennan dag hafa stutt við bakið á grænlenskum landbúnaði sem, ásamt fiskveiðum, hefur verið annar undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar frá þeim tíma er norrænir menn námu land í þessum hluta Grænlands fyrir um eitt þúsund árum.

Ég er einn þeirra Grænlendinga sem vona og trúi því að gott samstarf og góð persónuleg tengsl muni um alla framtíð verða ríkjandi milli þessara tveggja vinaþjóða. Þau pólitísku og persónulegu viðhorf til Grænlands einkenndu Steingrím Hermannsson alla hans stjórnmálatíð.

Við, grænlenskir stjórnmálamenn, eigum fjölmargar skemmtilegar minningar um heimsóknir til Steingríms og eiginkonu hans, Eddu, á heimili þeirra, með starfsliði í stjórnarráðunum, og um ferðir þeirra til Grænlands. Við erum þakklátir fyrir allt það sem Steingrímur kom til leiðar eða átti virkan þátt í fyrir Grænland, t.d. að opna íslenskar hafnir fyrir grænlenskum togurum.

Nýting fiskistofnanna í Norður-Atlantshafi verður alla tíð að byggjast á góðum, vísindalegum grunni og Steingrímur gerði sér góða grein fyrir því. Ég minnist þess að á erfiðum samningafundi um fiskveiðikvóta í Norður-Atlantshafi lét íslenskur fiskifræðingur þau orð falla að „fyrirhugaðir, pólitískir fiskveiðikvótar stefna framtíð Íslands í hættu“. Steingrímur tók þessari athugasemd vel og tekið var tillit til hennar.

Við lát Steingríms Hermannssonar vil ég, fyrir hönd fjölmargra grænlenskra vina og kunningja, votta konu hans og fjölskyldu dýpstu samúð. Grænland hefur misst einn af bestu og tryggustu vinum sínum. Ég þakka Steingrími af alhug fyrir langa, persónulega vináttu og óska þess að samstarf og vinátta Grænlands og Íslands, sem hann átti ríkan þátt í að byggja upp með svo margvíslegum hætti, haldi áfram að aukast og styrkjast, báðum þessum þjóðum á norðurslóð til velfarnaðar.

Blessuð sé minning Steingríms Hermannssonar.

Jonathan Motzfeldt,

fv. formaður landstjórnar

og þjóðþings Grænlands.

Þess verður getið í sögubókum að áratugirnir 1971 til 1991 hafi verið áratugir framfara á Íslandi. Í upphafi var landhelgin færð út í 50 sjómílur, svo í 200 sjómílur. Í upphafi fór verðbólgan úr öllum böndum; að lokum tókst að hemja hana með þjóðarsáttinni. Í upphafi var farið að ræða um náttúruvernd sem alvarlegt og brýnt pólitískt viðfangsefni. Í lok tímans var umhverfisráðuneytið stofnað þrátt fyrir eitraða andstöðu. Umbætur í félags-, heilbrigðis og menntamálum urðu stórstígari en nokkru sinni fyrr eða síðar. Og í byggðamálum.

Á þessum tíma sátu margar ríkistjórnir. Alþýðubandalagið átti aðild að fimm þeirra ráðuneyta. Steingrímur Hermannsson sat í sex ráðuneytum; fjórum með Alþýðubandalaginu. Hann var ritari Framsóknarflokksins á tímabili fyrstu vinstri stjórnarinnar 1971 til 1974 sem var jafnframt önnur vinstri stjórnin í sögunni. Frá 1971 er hann alltaf í aðstöðu til þess að hafa áhrif á þróun mála; á meirihluta þess tímabils er hann í samstarfi við Alþýðubandalagið. Þessi staðreynd sýnir að Steingrímur og Framsóknarflokkur hans málaði sig aldrei út í horn; hann var alltaf gerandi. Ég var svo heppinn að við Steingrímur vorum saman í fjórum þessara ráðuneyta sem hann sat í – á áttunda ár alls. Sátum saman í ríkisstjórnum á svona 800 ríkisstjórnarfundum fyrir utan alla hina fundina. En ég á ekkert nema jákvæðar minningar frá öllum þessum fundum, sem segir heilmikið um Steingrím Hermannsson. Og kunningskapur okkar og gleði stundum fram eftir kvöldum var engu líkur. Landsbergis spilaði á píanóið þegar best lét.

Því miður fékk stjórnin ekki að sitja áfram eftir 1991 þó hún hefði þingmeirihluta til þess.

Stærsta mál síðustu stjórnar Steingríms var þjóðarsáttin. Einmitt nú er hann kveður er meiri þörf en nokkru sinni fyrir breiða sátt – ekki þannig að hver og einn hafi neitunarvald heldur þannig að allir virði niðurstöður hinna lýðræðislegu stofnana samfélagsins. Lokahnykkurinn í þjóðarsáttinni voru afar umdeild bráðabirgðalög um kjaramál. Þau hefðu örugglega verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu en þá hefðum við líka haft verðbólguna í amk. 20 ár í viðbót.

Eddu og niðjum þeirra Steingríms og tengdabörnum sendum við Guðrún samúðarkveðjur þegar Steingrímur Hermannsson er allur. Við sem unnum með honum og glöddumst með honum þekktum hlýja og manneskjulega hlið hans. Í því lá hans styrkur einnig sem stjórnmálamanns. Þær ylja hans nánustu á erfiðri stund.

Svavar Gestsson.

Framsóknarmenn kveðja nú mikilhæfan og vinsælan foringja. Steingrímur Hermannsson tók við formennsku í Framsóknarflokknum eftir mikið umbrotaskeið í sögu flokksins. Hann sameinaði flokksmenn að baki sér og leiddi Framsókn og þjóðina til margvíslegra framfara. Steingrímur var vel menntaður frá virtum skólum vestanhafs. Þegar hann sneri heim flutti hann með sér nýja strauma, hugmyndir og hugsjónir. Hann var maður nýjunga og frjálsrar hugsunar. Allt taldi hann mögulegt ef vilji væri fyrir hendi. En um leið og hann dáðist að dugnaði og framtakssemi skildi hann öðrum fremur að siðað þjóðfélag ber ríkar skyldur gagnvart þeim sem standa höllum fæti. Steingrímur lagði áherslu á drenglyndi og heiðarleika í samskiptum, var alþýðlegur í viðmóti og átti gott með samskipti við annað fólk. Manngildi ofar auðgildi voru hans einkunnarorð. Steingrímur Hermannsson naut ekki aðeins hylli meðal framsóknarmanna heldur stórs hluta þjóðarinnar. Einlægni og augljós velvilji Steingríms skapaði honum vinsemd og virðingu íslensks almennings. Steingrímur hafði mikla trú á dugnaði og getu ungs fólks til góðra verka og var óhræddur við að fela ungu fólki flókin og mikilvæg verkefni en um leið var hann sjálfur hamhleypa til verka. Steingrímur var raunsæismaður í pólitík en jafnframt hugsjónarmaður með skýr markmið. Hann hafði sterka sýn á hvernig standa bæri vörð um hagsmuni og stöðu íslenskrar þjóðar og þeirri baráttu lagði hann lið allt til síðasta dags. Hann unni náttúru landsins og lagði sitt af mörkum til umhverfisverndar og skógræktar. Stjórnmálaforingjar eiga ekki margar frístundir en Steingrímur var duglegur að nýta vel þær stundir sem gáfust. Útivist, gönguferðir, skíði og veiði voru áhugamál hans, auk þess sem hann var lagtækur smiður.

Sem stjórnmálamaður markaði Steingrímur áberandi spor í sögu samtímans. Baráttan fyrir nýjungum og fjölþættara atvinnulífi var honum ofarlega í huga ásamt nýsköpun og tækniframförum. Hann lagði grunn að gerð þjóðarsáttar í efnahags- og atvinnumálum og átti stóran þátt í þeim árangri sem náðist í baráttu við verðbólguna. Steingrímur Hermannsson skipar stóran og verðskuldaðan sess í sögu íslensku þjóðarinnar á síðustu áratugum 20. aldar. Framsóknarmenn minnast mikils foringja með djúpri virðingu og þakklæti.

Fyrir hönd Framsóknarflokksins votta ég aðstandendum innilega samúð og þakka ómetanlegt framlag í þágu Framsóknarflokksins og íslensku þjóðarinnar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Steingrímur okkar er dáinn. Glæsilegt æviskeið er á enda runnið. Miklar vonir voru bundnar við Steingrím þegar í æsku, sakir atgjörvis og ætternis. Hann var vel íþróttum búinn, námsmaður ágætur, hraustur og ákaflega kappsamur. Hann nam verkfræði í Bandaríkjunum og gerðist framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs ríkisins. Hann var kjörinn á þing fyrir Vestfirði 1971 og starfaði hann að stjórnmálum til 1994.

Steingrímur var maður hins nýja tíma, áhugamaður framan af ævi um stórvirkjanir og stóriðju fremur en flestir flokksbræður hans. Leiðir okkar lágu saman á Alþingi 1974. Hann var starfsamur stjórnmálamaður, einkar skipulagður og prýðilegur ræðumaður. Hann var ritari Framsóknarflokksins og sinnti flokksstarfi af dugnaði og ósérhlífni. Haustið 1978 tók hann sæti í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar og gegndi störfum í öllum ríkisstjórnum til 1991 nema nokkra mánuði haustið 1979.

Árið 1979 var Steingrímur kjörinn formaður flokksins og leiddi hann til mikils kosningasigurs þá um haustið. Hann var fæddur foringi, glæsilegur, framsýnn og ráðagóður. Hann hafði traustvekjandi og alúðlega framkomu, stálminni og ótrúlegt líkamlegt þrek. Honum var einkar lagið að laða menn til samstarfs. Hann lagði sig fram um að hlusta á tillögur annarra og reyna að finna samhljóm fremur en að gefa fyrirmæli eða setja úrslitakosti. Ég var formaður þingflokks Framsóknarmanna nær alla formannstíð Steingríms og starfaði alltaf náið með honum. Oft dáðist ég að lagni hans og þolinmæði þegar hann hélt saman fjögurra flokka ríkisstjórn árum saman eða starfaði með naumum meirihluta. Þó get ég ekki neitað því að stundum fannst mér umburðarlyndi hans keyra úr hófi. Þá kom honum með tímanum vel einstæð reynsla, en hann varð ráðherra í sex mismunandi ráðuneytum.

Steingrímur var alltaf í góðu sambandi við fólkið í landinu, það kunni að meta einlægni hans og hreinskilni. Með tímanum varð hann landsfaðir í hugum þorra þjóðarinnar. Merkasti atburður á stjórnmálaferli Steingríms er tvímælalaust þjóðarsáttin. Þar komu að vísu fleiri að verki, en forysta hans var ómetanleg þótt ýmsir aðrir vilji þá Lilju kveðið hafa.

Á síðari hluta ferils síns varð náttúruvernd honum mjög hugstæð og einnig hvernig Íslendingum mundi vegna best í samfélagi þjóðanna. Hann sá glögglega háskann af því að innlimast í ESB og lagðist einnig eindregið gegn aðildarsamningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það urðu honum sár vonbrigði að þingflokkur okkar klofnaði í því máli og stuðlaði það að því að hann ákvað að hætta virkri stjórnmálaþátttöku. Reynslan sýnir að aðildin var óheillaspor. Frjáls flutningur fjármagns um efnahagssvæðið varð okkar óreiðumönnum fótakefli. Það er rótin að því að nú er illa komið fyrir íslenskri þjóð, glæframenn þoldu ekki frelsið. Nú er Steingrímur allur. Við Sigrún kveðjum hann með hlýrri þökk fyrir áratuga vináttu og ljúft og skemmtilegt samstarf. Við vottum Eddu, hans ágætu konu, innilega samúð okkar, svo og öðrum aðstandendum.

Blessuð sé minning höfðingjans Steingríms Hermannssonar.

Páll Pétursson.

Nú á tímum kreppu og hruns er eðlilega mikið spurt um hlut stjórnmálamanna í atburðarás liðinna ára. Þeir sem gengu út af sviðinu fyrir tveimur áratugum eru ekki líklegir til að fá á sig mikla brotsjói í því sögulega uppgjöri. Tími Steingríms Hermannssonar var öðru fremur níundi áratugur liðinnar aldar þegar hann var í tvígang forsætisráðherra og vann það afrek að halda saman ríkisstjórn fjögurra stjórnmálaflokka til loka kjörtímabils 1991. Inn í þá mynd falla þjóðarsáttarsamningar sem margir komu að en þolinmóð stjórnarforysta Steingríms átti þátt í að náðust. Hann var laginn við að miðla málum en spurði sjálfan sig eftir á hvort ekki hefði stundum verið gengið of langt á kostnað efnislegrar niðurstöðu. Þar koma einkum við sögu EES-samningurinn sem bar í sér frækorn hrunsins og markaðsvæðing í sjávarútvegi sem lagði svo um munaði til spilapeninga í íslensku útrásina.

Mikilvægur eiginleiki í fari Steingríms var hæfileiki til endurmats á eigin viðhorfum. Því spáðu fáir að rafmagnsverkfræðingur menntaður í Vesturheimi og boðberi erlends fjármagns ætti eftir að halla sér til vinstri í Framsóknarflokknum er fram liðu stundir, hvað þá að verða liðsmaður í náttúruverndarstarfi. Reynsla hans sem landsbyggðarþingmanns í hálfan annan áratug víkkaði sjóndeildarhring borgarbúans og treysti þjóðlegar rætur. Á þær reyndi þegar áþreifingar hófust um aukið samstarf ESB og EFTA haustið 1988. Steingrímur útilokaði frá upphafi aðild Íslands að Evrópusambandinu en gerði sér ekki ljóst að af hálfu forystumanna sósíaldemókrata og hægri manna á Norðurlöndum var markmiðið að koma þáverandi EFTA-ríkjum sem fyrst inn í ESB. Sú fyrirætlan tókst að hluta en var stöðvuð hvað Noreg varðaði í þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 1994. Í lokagerð EES-samningsins stóð lítið eftir af þeim fyrirvörum sem íslenski forsætisráðherrann hafði fært til bókar á leiðtogafundi í mars 1989. Þessar brigður dró Steingrímur skýrt fram á Alþingi í lokaumræðu um EES-aðildina, taldi hana stjórnarskrárbrot og greiddi atkvæði gegn samningnum.

Sem framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins fyrr á árum hafði Steingrímur fengið innsýn í rannsókna- og þróunarstarf og það gagnaðist honum síðar meir. Eftir að hann varð forsætisráðherra 1983 kom hann af stað svonefndri framtíðarkönnun, setti til verka fjölmenna nefnd sjálfboðaliða en sjálfstæðismenn bundu enda á þessa viðleitni hans. Sjálfur áttaði hann sig hins vegar betur en áður á því sem var að gerast í umhverfismálum og undir hans forystu tókst loks að koma á fót umhverfisráðuneyti hérlendis árið 1990. Um framgang þess máls áttum við góða samleið. Eftir að Steingrímur yfirgaf stjórnmálin setti hann sig vel inn í samhengi umhverfis- og efnahagsmála en við litla hrifningu ýmissa samstarfsmanna. Því fylgdi margháttað endurmat hans á ríkjandi stefnu, ekki síst í umhverfis- og auðlindamálum. Nú þegar við kveðjum hann á ögurstundu fyrir íslenskt samfélag gerðu menn rétt í að rifja upp þær áherslur sem hann hafði að miðla af reynslu sinni síðasta spölinn.

Hjörleifur Guttormsson.

Með Steingrími er genginn mikilhæfur stjórnmálaleiðtogi og góður vinur. Hann fékk einstaka forgjöf í vöggugjöf því foreldrar hans voru merkt og mikilhæft fólk, æskuheimilið í senn skapandi og hvetjandi. Steingrímur bar gæfu til að nýta sér þessa forgjöf því auk ágætra ytri aðstæðna var hann góðum gáfum gæddur, glæsimenni og viljasterkur, og fremstur meðal jafningja á sinni tíð. Kappsamari maður var vandfundinn og skipulagður var hann. Hvert það verkefni sem hann fékkst við tók hann fyrir eins og sannur íþróttamaður, vel undirbúinn og tilbúinn til að leggja allt í leikinn, já, ég segi „í leikinn“ þrátt fyrir að oft væru verkefnin flókin og alvarleg. Þá leit hann á sínar skyldur sem um væri að ræða mikilvægan kappleik og sætti sig ekki við annað en góðan árangur. Þannig var hann í lífi sínu öllu og starfi.

Steingrímur gat haldið ólíkum hópum með mismunandi skoðanir saman í liði með þolinmæði og kunni þá að stilla sitt mikla skap og nýta það sem hreyfiafl í stað þess að láta það stöðva gang góðra mála. Hann hafði sveigjanleika sem getur gert gæfumuninn. Hann hafði frábær tök á fjölmiðlum og gat virst óþreyttur og sallarólegur þó að allt væri í raun í grænum sjó. Hann kunni þá list að láta fólki líka vel við sig. Láta fólki líða vel í návist sinni. Steingrímur var ófeiminn við að viðurkenna mistök og ófeiminn við að segja það sem honum bjó í brjósti í það og það skiptið. Þetta meðal annars gerði hann að einstökum stjórnmálamanni og hann var nógu stór af sjálfum sér til að vera hann sjálfur; lét sér í léttu rúmi liggja þótt einhverjum þætti hann einlægur um of. Hann kunni þá list að tala beint til fólks og talaði mál sem allir skildu. Gæfumenn, eins og hann sannarlega var, eru sjaldan einir á ferð og Edda var hans besti leiðsögumaður, glæsilegur og góður lífsförunautur. Heimili þeirra var gestkvæmt og við flokksfélagar hans eigum þaðan margar góðar minningar.

Að ferðast með Steingrími um landið var skemmtun út af fyrir sig. Hann þekkti landið eins og lófann sinn, hvern hól og hvern dal og hafði gengið á ótal fjöll og heimsóknir með honum á bæi urðu ævintýri. Áður en knúið var dyra hafði hann kynnt sér fjölda barna á bænum, hvar börnin voru í skóla, hversu margar mjólkandi kýr væru í fjósi og stundum jafnvel hvert nafnið á hundinum var (!), þannig að gestgjafarnir fundu að það var kominn gestur sem hafði áhuga á því sem að þeim sneri og ekki skorti umræðuefnin. Að heimsókn lokinni punktaði hann niður hjá sér þau helstu mál sem efst voru á baugi hjá hverri fjölskyldu. Í ræðum sínum og við mótun stefnumála notaði hann sér svo reynslu þessa fólks, sem hann hafði hitt og rætt við. Hann hlustaði og var fljótur að átta sig.

Það er ekki sjálfgefið að samherjar í stjórnmálum verði vinir í lífsins ólgusjó. Ég tel það mér til happs að hafa átt vináttu Steingríms. Ég kveð góðan vin og leiðtoga með virðingu og þakklæti og bið Eddu og hennar stóru fjölskyldu allrar blessunar á komandi tíð.

Ingibjörg Pálmadóttir.

Leiðir okkar Steingríms lágu fyrst saman þegar við störfuðum í utanríkisþjónustunni á sjötta áratug seinustu aldar. Síðar urðum við baráttufélagar í stjórnmálunum um fimmtán ára skeið. Hann fékk snemma gott veganesti til þátttöku í stjórnmálum. Náin samskipti okkar Steingríms á sviði stjórnmálanna hófust, þegar við tókum báðir sæti í stjórn Framsóknarflokksins, Steingrímur sem ritari og ég gjaldkeri. Síðar tók ég við starfi ritara og Steingrímur við formennskunni. Við sátum saman í tveim ríkisstjórnum á árunum 1978-1983. Þessi samskipti tókust með ágætum. Steingrímur var hreinskiptinn, sanngjarn og góður baráttufélagi. Þá var hann hamhleypa til vinnu og sparaði hvorki tíma né fyrirhöfn. Hann gaf sér ávallt góðan tíma til að tala við fjölmiðla og kom ævinlega til dyranna eins og hann var klæddur. Síðan skildu leiðir, þegar ég hætti þátttöku í stjórnmálum og fór í Seðlabankann. Þó höfðum við alltaf veruleg samskipti, sem leiddi af störfum okkar.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja starfssögu Steingríms. Það gerði efnilegur stjórnmálamaður rækilega í þriggja binda frásögn af lífi og starfi hans. Auðvitað fjallaði Steingrímur um hin ýmsu mál samtíðarinnar, en ég vil sérstaklega minnast á tvö stórmál, sem einkenndu vinnubrögð hans. Hið fyrra var hin svokallaða þjóðarsátt. Ég held að á engan sé hallað, þótt þáttur Steingríms í lausn þessa þýðingarmikla máls hafi verið verulegur, þótt margir ágætir menn hafi komið þar við sögu. Það var verkefni forsætisráðherra og ríkisstjórnar að stilla saman strengi ríkisstjórnar, verkalýðshreyfingar og atvinnulífsins. Hér naut Steingrímur sín vel, þar sem hann var sérlega laginn og úthaldsgóður samningamaður. Þjóðarsáttin varð grundvöllur eins mesta framfaraskeiðs í sögu þjóðarinnar. Hitt málið, sem ég vil nefna til sögunnar er hinn heimssögulegi fundur forseta Bandaríkjanna Ronalds Reagans og aðalritara kommúnistaflokks Sovétríkjanna, Mikhaíls Gorbatsjovs. Steingrímur var þá forsætisráðherra og Matthías Á. Mathiesen utanríkisráðherra. Þeir voru sammála um að samþykkja fundinn. Með aðeins 12 daga fyrirvara kom fram ósk um að fundurinn yrði haldinn í Reykjavík. Auðvitað var þetta óþægilega skammur tími til stefnu. En hér naut sín elja Steingríms og hann hellti sér út í þetta erfiða verkefni af miklum dugnaði og fundurinn fór fram með myndarbrag, Íslandi til hins mesta sóma. Þótt margir fleiri kæmu hér við sögu var forysta, lagni og hikleysi forsætisráðherrans mjög mikilvæg.

Það er vissulega sjónarsviptir að Steingrími við fráfall hans, en eftir lifir sögnin um frábæran Íslending, sem vann þjóð sinni af lífi og sál.

Um leið og ég sendi frú Eddu og fjölmennum frændgarði þeirra Steingríms innilegar samúðarkveðjur þakka ég honum samstarfið, sem var í senn ánægjulegt og minnisstætt. Fer vel á að enda þessi fátæklegu minningarorð um Steingrím Hermannsson með hinni þjóðfrægu vísu Havamála

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

Tómas Árnason.

Kveðja frá Fóstbræðrum

Steingrímur Hermannsson fv. alþingismaður og forsætisráðherra hefur kvatt þetta jarðlíf. Með honum er genginn þjóðskörungur, einbeittur og giftudrjúgur, forvígismaður í íslenskum stjórnmálum. Hvar sem hann fór mátti skynja þann mikla kraft sem hann hafði til að bera og fólk tók sannarlega eftir. Steingrímur var laginn félagsmálamaður og mannasættir. Hann naut sín vel meðal góðra félaga og var hvers manns hugljúfi. Karlakórinn Fóstbræður var honum kær og ég held ég segi með sanni, að þar átti hann góða vini og kunningja. Hann var fastur gestur á þorrablóti Fóstbræðra í 20 ár og tók þátt í gleði kórmanna einsog honum einum var lagið. Hann var sjálfsagður gestur þegar stórafmæli voru hjá kórnum. Fóstbræður fundu vel að þar áttu þeir góðan talsmann sem skildi hversu mikils virði það er að taka þátt og starfa saman af einurð og góðum vinskap. Steingrímur átti létt með að kynnast fólki. Hann kunni ekki að gera sér mannamun og kom fram við alla sem jafningja

Fóstbræður hafa verið svo gæfusamir að eiga marga góða stuðningsmenn. En það sem skiptir mestu máli er að þeir hafa verið tryggir kórnum í gegnum tíðina og því má ekki gleyma. Á fyrri árum var skemmtilegt að fylgjast með því, þegar formlegri dagskrá þorrablóts lauk, er menn fóru gjarnan í sjómann og þar var Steingrímur gjarnan fremstur í flokki og fæstir báru sigurorð af honum.

Steingrímur var gæfumaður. Hann var miklum kostum búinn og nýtti þá vel. Hamhleypa til vinnu og átti mörg áhugamál. Þar má nefna smíðar, skógrækt, göngur og hverskyns útivist. Við sundfélagarnir í laugunum munum sakna hans, þar var hann fastagestur um áratugaskeið og sérlega góður félagi.

Ég vil að lokum þakka Steingrími fyrir góð kynni og notalegar samverustundir í gegnum tíðina.

Fjölskyldunni er vottuð samúð.

Einar Geir Þorsteinsson.