Herranótt Leikarar í LoveStar eru um þrjátíu talsins. Hér er leikstjórinn, Bergur Þór Ingólfsson, með hópnum á æfingu í Norðurpólnum í gær.
Herranótt Leikarar í LoveStar eru um þrjátíu talsins. Hér er leikstjórinn, Bergur Þór Ingólfsson, með hópnum á æfingu í Norðurpólnum í gær. — Morgunblaðið/hag
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is HERRANÓTT, Leikfélag Menntaskólans í Reykjavík, frumsýnir LoveStar á morgun. Leikritið er unnið upp úr samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar og er leikgerð eftir Berg Þór Ingólfsson sem jafnframt er leikstjóri.
Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

HERRANÓTT, Leikfélag Menntaskólans í Reykjavík, frumsýnir LoveStar á morgun. Leikritið er unnið upp úr samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar og er leikgerð eftir Berg Þór Ingólfsson sem jafnframt er leikstjóri. Þetta er í fyrsta skipti sem LoveStar er sett á svið og var handritið unnið í samstarfi leikstjóra og leikara. „Ég vann handritið jafnóðum, skrifaði senu upp úr bókinni, fór á æfingu og sá hvert það leiddi, skrifaði svo næstu senu og vann mig þannig í gegnum verkið. Krakkarnir vissu ekkert í hvaða hlutverkum þau voru fyrr en við vorum búin að æfa verkið í gegn,“ segir Bergur spurður út í hvernig verkið var unnið upp úr bókinni. „Það er svo stór heimur í þessari bók að ég þurfti að henda mörgu skemmtilegu. Ég lagði aðaláherslu á ástarsögurnar, elskendurna tvo og ást LoveStars sjálfs á hugmyndum sínum og hans baráttu við hugmynd sem verður að skrímsli sem enginn ræður við.“

Það var Bergur sjálfur sem kom með hugmyndina að því við Herranótt að gera leikrit upp úr LoveStar . „Ég rakst á bókina á bókamarkaði og stakk upp á þessu um leið og ég var búinn að lesa hana. Þau vildu taka eitthvað létt og skemmtilegt, ég veit ekki alveg hvort LoveStar fellur undir það, en jafnframt voru þau metnaðargjörn. Sagan hentaði hópnum vel auk þess sem hún er mjög áhugaverð,“ segir Bergur.

Í verkinu segir frá heimi þar sem íslenska stórfyrirtækið LoveStar hefur sölsað undir sig jörðina með byltingarkenndum tækninýjungum, markaðssett dauðann og ástina. Því hefur tekist að reikna út hvaða tvær manneskjur passa saman, ástin er því ekki lengur náttúruleg, heldur hávísindaleg. Í Reykjavík býr ástfangið par, þau Indriði og Sigríður. Dag einn fær Sigríður bréf frá LoveStar sem segir að hún hafi verið reiknuð saman við annan mann og að samband hennar við Indriða sé dauðadæmt. Hlutirnir byrja að fara til fjandans þegar LoveStar gengur of langt og kemst að því að sumt á ekki að markaðssetja eða rannsaka. Með aðalhlutverk í leikritinu fara Björg Brjánsdóttir og Elías Bjartur Einarsson en um þrjátíu leikarar koma við sögu í uppsetningunni.

Frumsýning er á morgun í Norðurpólnum, Bygggörðum 5 á Seltjarnarnesi.

Söguna má rekja aftur á átjándu öld

Sögu Herranætur, leikfélags Menntaskólans í Reykjavík, má rekja allt aftur á átjándu öld þegar skólapiltar í Skálholtsskóla hófu skólaárið á nokkurs konar uppistandi þar sem aðhlátursefnið voru ræður presta á staðnum. Í gegnum árin þróaðist svo uppistandið yfir í uppsetningu á leikritum á sviði. Talið er að fyrsta leikrit Herranætur hafi verið Bjarglaunin eftir Geir Vídalín, sem einnig er jafnvel talið fyrsta íslenska leikritið sem leikið er á sviði. Frá því MR komst í sitt núverandi húsnæði við Lækjargötu árið 1846 hefur Herranótt sett upp leikrit á hverju ári nær óslitið.