Gunnsteinn Ármann Snævarr fæddist á Nesi í Norðfirði hinn 18. september 1919 og ólst þar upp. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 15. febrúar síðastliðinn.

Foreldrar hans voru Valdemar V. Snævarr, sálmaskáld og skólastjóri, f. 22. ágúst 1883, d. 18. júlí 1961, og Stefanía Erlendsdóttir, húsmóðir, f. 6. nóvember 1883, d. 11. desember 1970. Systkini Ármanns voru Gunnsteinn, f. 16. mars 1907, d. 12. júní 1919. Árni Þorvaldur, verkfræðingur og ráðuneytissjóri, f. 27. apríl 1909, d. 15. ágúst 1979. Laufey Guðrún, húsmóðir, f. 31. október 1911, d. 9. nóvember 2002. Stefán Erlendur, prófastur, f. 22. mars 1914, d. 26. desember 1992. Gísli Sigurður, f. 21. júlí 1917, d. 21. janúar 1931. Eftirlifandi fóstursystir Ármanns er Guðrún, húsmóðir, f. 5. júlí 1922.

Ármann kvæntist hinn 11. nóvember 1950 Valborgu Sigurðardóttur uppeldisfræðingi og fyrrv. skólastjóra Fósturskóla Íslands, f. 1. febrúar 1922. Foreldrar hennar voru Sigurður Þorólfsson, skólastjóri Lýðháskólans á Hvítárbakka, og seinni kona hans Ásdís Margrét Þorgrímsdóttir, húsmóðir. Börn Ármanns og Valborgar: 1) Sigríður Ásdís, f. 23. júní 1952, sendiherra, gift Kjartani Gunnarssyni, f. 4. október 1951, lögfræðingi, sonur þeirra er Kjartan Gunnsteinn, f. 5. júlí 2007. 2) Stefán Valdemar, f. 25. október 1953, prófessor í Lillehammer í Noregi. 3) Sigurður Ármann, f. 6. apríl 1955, borgarhagfræðingur, kvæntur Eydísi Kristínu Sveinbjarnardóttur, f. 24. júní 1961, aðstoðarframkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala. Börn Sigurðar eru Jóhannes, f. 2. nóvember 1982, og Ásdís Nordal, f. 21. ágúst 1984. Börn Eydísar eru Sveinbjörn Thorarensen, f. 26. nóvember 1984, og Sigurlaug Thorarensen, f. 18. desember 1990. 4) Valborg Þóra, f. 10. ágúst 1960, hæstaréttarlögmaður, gift Eiríki Thorsteinsson, f. 17. september 1959, kvikmyndagerðarmanni. Sonur Valborgar er Gunnsteinn Ármann Snævarr, f. 18. janúar 1981. Dóttir Eiríks er Oddný Eva Thorsteinsson, f. 16. maí 1988. 5) Árni Þorvaldur, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum í Brussel, f. 4. mars 1962. Börn hans eru Ásgerður, f. 1. ágúst 1988, og Þorgrímur Kári, f. 12. október 1993.

Ármann varð stúdent frá MA 1938 og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1944. Hann stundaði framhaldsnám í lögum við háskólana í Uppsölum, Kaupmannahöfn og Ósló árin 1945-1948 og sérnám og rannsóknir við Harvard Law School 1954-1955. Hann var skipaður prófessor í lögum við Háskóla Íslands árið 1948 og gegndi því starfi til ársins 1972. Árið 1960 var Ármann kjörinn rektor Háskóla Íslands og gegndi því starfi til 1969. Ármann var skipaður hæstaréttardómari árið 1972, en lét af því embætti árið 1984. Eftir Ármann liggur mikill fjöldi bóka og annarra fræðirita um lögfræði. Vorið 2008 þegar hann var á 89. aldursári sendi hann frá sér mikið fræðirit um hjúskapar- og sambúðarrétt. Kennsluferill hans við lagadeild Háskóla Íslands spannaði hálfa öld. Ármann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands árið 1993 og við fjölda erlenda háskóla. Honum hlotnuðust ýmsar fleiri viðurkenningar fyrir störf sín, bæði erlendis og hér heima. Í tengslum við níræðisafmæli Ármanns setti Háskóli Íslands á fót við lagadeild sína Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni.

Útför Ármanns fer fram frá Neskirkju í dag, 26. febrúar 2010, og hefst athöfnin kl. 15.

Myndin af pabba. Heimildarmyndin sem tekur níutíu ár að sýna og aldrei verður endursýnd. Lífið framundan var pabba alltaf óendanleg uppspretta nýrra sóknarfæra, hann gaf sig allan í verkið, marksækinn með afbrigðum. Sem betur fer var aldrei hægt að gera honum ónæði, því hann elskaði ys og þys í kringum sig, kyssti litlar barnahendur, svaraði síma sem hringdi og hélt ótrauður áfram við verkið. Fram á síðustu mánuði var lífið framundan fullt viðfangsefna: níræðisafmælið, athöfnin í kringum Stofnun Ármanns Snævarr, jólakortin til vinanna, vorið framundan. En nú hafa augun hans fallegu og hlýju lokast í síðasta sinn. Hann biður ekki lengur bænirnar sínar, fer ekki á göngu, semur ekki texta, les ekki yfir próförk, mætir ekki á fundi, fer ekki í samkvæmi, hlustar ekki á mömmu lesa blöðin og sagnfræðiritin, kyssir ekki börnin sín og barnabörnin, gleður ekki lengur hvern einasta mann sem verður á vegi hans. Hann tekur ekki ofan hattinn, hann talar ekki endurminningar sínar inn á diktafón, Rótarý er ekki á miðvikudögum.Veröld sem var. Dauðinn er óafturkræfur, alltumvefjandi kærleikurinn er nú minning um mann. Pabbi lifir í sorg okkar og söknuði, hann lifir í hjarta okkar og minningu. Við þurfum að halda áfram að segja söguna um pabba, fallegu söguna af kærleikanum sem allt fyrirgaf, bjartsýninni og framfarahyggjunni, marksækninni, metnaðinum fyrir Íslands hönd. Í nær sextíu ár hef ég notið ríkulegrar föðurástar og að missa þá ást er eins og að missa límið í tilverunni. Ég reyni að finna brotin og líma þau saman, ber brotin upp að ljósinu í von þess að fá skýrari mynd, ég breytist í litla stelpu með flaxandi fléttur sem situr flötum beinum á gólfinu og raðar saman því sem brotnaði. Ég kalla á mömmu og þakka Guði fyrir að eiga hana enn og njóta yndislegra samvista. Finn pabba fylgjast með mér, er ég að lesa eitthvað sem hann taldi „skilja eitthvað eftir“? Er ég að nýta tímann í það sem þroskar, byggir upp og „skilur eftir“? Hvernig gengur námið eða vinnan, beiti ég mér, legg ég fram minn skerf til góðra mála? Hvað segja vinirnir? Hvað er í fréttum, veit ég eitthvað sem ekki er enn komið í fjölmiðla? Vil ég koma með á göngu og eigum við ekki að biðja saman? Stöldrum við bænina og látum hana ljúka þessum minningarorðum. Bænin hans pabba og sambandið við Guð var enginn tepruskapur eða formhyggja. Trúboð var fjarri hans huga, því hann átti auðvelt með að virða önnur sjónarmið í öllum málum. Sjálfur bað hann á hverju kvöldi klukkan ellefu. Hann bað fyrir öllu sínu fólki og öllum sem honum þótti vænt um og samfélaginu í heild. Hann talaði við Guð eins og við samherja, reifaði mál í bæninni, gat hindrunarlaust tjáð huga sinn í hinu andlega samfélagi sem aldrei brást honum. „Algóður Guð verndi okkur og styrki, við skulum biðja,“ sagði hann í öllu andstreymi. Kveðjuorð hans til mín voru: „Þú veist að ég bið fyrir ykkur öllum á hverjum degi. Ég kemst yfir þessa slæmsku um leið og elsku mamma er orðin góð.“

Sigríður Ásdís Snævarr.

Mig langar að minnast tengdaföður míns Ármanns Snævarr með nokkrum orðum. Hann kvaddi þennan heim í lok þorra þegar daginn er tekið að lengja og hillir undir yndislega birtu íslensks sumars. Það var um jólin sem við hjónin heyrðum Ármann í fyrsta skipti, á tíræðisaldri, tæpa á því að með hækkandi sól kynni ævigöngu hans senn að vera lokið. Hann taldi ólíklegt að hann kæmi til okkar Sigurðar um næstu jól og það var eins og hann væri að búa okkur undir það sem koma skyldi. Þrátt fyrir þreytuna sem var farin að hrjá grannan líkamann var andinn skýr og einbeittur og lífsviljinn óbugaður. Þannig var hann alveg framundir það síðasta þegar hann lagði augun aftur og ákvað að stundin væri komin til að yfirgefa þessa jarðvist. Þegar við Sigurður kynntumst voru foreldrar hans, Ármann og Valborg, bæði á áttræðisaldri. Ég skynjaði fljótt hversu gæfuríka ævi þau hjónin höfðu átt saman, í lífi og starfi, um áratuga skeið. Ég fann einnig fljótt hvað Sigurður minn var tengdur þeim, vildi hafa þau nærri sér, og við hlið sér í viðfangsefnum hversdagsins. Sigurður og Ármann töluðust við eftir tíufréttir á hverju kvöldi, þeir fóru yfir fjölskyldu- og þjóðmál í stuttu símtali áður en góð nótt var boðin. Það verður erfitt að venjast því að heyra ekki símann hringja á þessum sama tíma í Þingholtsstrætinu. Heyra þá feðgana ljúka deginum á þennan fallega hátt. Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast honum tengdaföður mínum. Það sem einkenndi hann alla tíð var mikill lífsvilji, bjartsýni og vonin um að allt mundi batna og verða betra. Hann hafði einlægan áhuga á menntun og starfi allra fjölskyldumeðlima. Hann fylgdist vel með börnum og tengdabörnum okkar Sigurðar. Gjarnan voru kvöldsímtölin góðu um viðfangsefni þeirra og líðan.

Ármann varð 70 ára stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 17. júní 2008. Hann var viðþolslaus hann langaði svo norður – það var líka búið að bjóða honum að halda ræðu fyrir hönd 70 ára afmælisárgangsins. Við hjónin ákváðum að fara með honum norður og taka þátt í afmælinu með honum. Við gengum með Ármanni um gamla skólann hans, MA, fórum á milli kennslustofanna. Hann rifjaði upp góðar minningar frá skólavist sinni þar og samfylgd með góðu fólki.

Frá því ég kynntist Ármanni fyrir rúmum áratug höfum við átt mörg gefandi samtöl. Hann sagði mér hvernig hann hafði stutt það sem rektor Háskóla Íslands að hjúkrunarfræði yrði námsbraut innan skólans. Ég hafði mikla ánægju af þessum samtölum okkar og er þakklát fyrir þau.

Ármann og Valborg áttu samfylgd í 60 ár. Það tók á þau bæði að vera aðskilin síðustu daga Ármanns. Hann naut hjúkrunarþjónustu á Grund en Valborg var á Landspítala. Ármann náði því sem betur fer að heimsækja Valborgu á sjúkrahúsið stuttu áður en hann dó.

Elsku Valborg, megi góðar minningar hjálpa þér að takast á við sorgina. Ég veit að þú verður umvafin elsku og hlýju barna, barnabarna og tengdabarna. Guð blessi minningu Ármanns Snævarr.

Eydís Kristín

Sveinbjarnardóttir. mbl.is/minningar

Bonus Pater familias,

hinn góði og grandvari maður eða fjölskyldufaðir – er ein þekktasta persónan í lögfræðinni. Hafi nokkur maður verið holdtekja þess hugtaks, þá var það Ármann Snævarr, tengdafaðir minn. Svo góður maður og grandvar sem hann var og elskur að fólkinu sínu.

Það er erfitt að kveðja Ármann Snævarr bæði vegna þess að söknuðurinn er svo þungur þegar hrifinn er á brott lífsstólpi sem manni fannst nánast óumbreytanlegur og vegna minninga- og verkafjöldans sem réttilega ætti að gera skil.

Ármann var ungur kvaddur til ábyrgðarstarfa, varð prófessor við lagadeild Háskóla Íslands aðeins 28 ára gamall og átti eftir það samleið með Háskóla Íslands með einum eða öðrum hætti til æviloka. Ármann unni Háskóla Íslands og vildi veg hans sem mestan.

Áratuginn sem Ármann var rektor Háskólans urðu undir forystu hans einhverjar mestu framfarir og breytingar sem þar hafa orðið. Til marks um víðsýni hans og framfarahug er besta dæmið að hinn forfallni hugvísindamaður, sem hann var, lét það verða nánast sitt fyrsta verk sem rektor að hrinda af stað vinnu við stofnun Raunvísindastofnunar Háskólans. Fræðistörf hans í lögfræði, þátttaka í alþjóðlegu lagasamstarfi, samning og útgáfa bóka, samning lagafrumvarpa og stjórnsýslustörf ýmisleg eru ótrúleg að gæðum og vöxtum. Forystustörf í félagsmálum voru einnig fjölbreytt, stofnun Lögfræðingafélags Íslands, Bandalags háskólamanna, Náttúruverndarráðs auk þátttöku í flestum félagasamtökum sem lúta að fræðum og vísindum .

Kynslóð Ármanns og aldamótakynslóðin komu á sínum manndómsárum að ónumdu Íslandi á mörgum sviðum. Þessir landnámsmenn voru fullir metnaðar og ástar á landi sínu og þjóð og voru reiðubúnir til að verja öllum sínum kröftum og getu í þjóðar þágu. Þar skipaði Ármann Snævarr sér í fremstu röð alla ævi.

Ármann var einstakur láns- og gæfumaður í einkalífi sínu, þau Valborg Sigurðardóttir, skólastjóri og frumkvöðull í uppeldis- og kennslumálum, voru samhent og studdu hvort annað í erfiðum forystustörfum sínum. Bæði helguðu þau framtíðinni starfskrafta sína. Menntun og uppfræðslu nýrra kynslóða. Er hægt að verja lífinu betur?

Ég hef nú verið heimagangur á heimili þeirra Ármanns og Valborgar í fjóra áratugi, kynnst þeim, börnum þeirra og barnabörnum, ættingjum og vinum. Þau kynni öll hafa verið mér ánægjuleg og örvandi. Þegar horft er til baka verða Ármann og Valborg þó auðvitað miðdepill minninganna. Ármann var t.d. í hópi allra bestu tækifærisræðumanna. Í tækifærisræðum hans nutu allir bestu kostir hans sín til fulls. Yfirburðaþekking á ótal sviðum, óbrigðult minni hans á samtöl og atburði fyrir átatugum, hafsjór af sögum af mönnum og málefnum. Gott skopskyn og fundvísi á skoplegar hliðar manna og málefna, en gamanið ávallt kersknislaust. En þrátt fyrir gamansemina var ávallt í ræðum Ármanns öflugur kjarni sem bætti og göfgaði þá sem á hlýddu.

Þrátt fyrir einstakan og djúpan áhuga á lögfræði var því víðsfjarri að Ármann væri hlekkjaður við lögin. Það var maðurinn í öllum sínum myndum og mannlífið sem var hans mikla áhugamál. Í hverjum manni fann hann áhugaverðan viðmælanda og allir sem töluðu við hann fundu að hann var áhugasamur hlustandi. Þessi einlægi og fölskvalausi áhugi á öðru fólki og kjörum þess auðgaði Ármann og gerði honum kleift að auðga svo ríkulega alla sem hann umgengust, hvort sem var í starfi, heima fyrir eða á öðrum vettvangi. Þessum ótrúlegu samskiptahæfileikum hélt hann til hinstu stundar ásamt öllu öðru.

Kynnin af Ármanni hafa smám saman kennt mér að maður á ekki að reyna að fresta lífinu. Lífinu á að lifa dag fyrir dag og skilja við hvern dag sáttur við Guð og menn.

Meðan þetta er sett á blað sefur við hliðina á mér tveggja og hálfs árs gamall drengur sem á sinni stuttu ævi hefur í fangi nafna síns og afa notið þess að hlusta á vísur og barnagælur af munni afa síns. Notið friðarins og kærleikans, ástarinnar á öllu lifandi sem frá Ármanni heitnum stafaði. Kjartan Gunnsteinn kveður afa sinn fullur trega sem hann skilur ekki enn, en sem síðar breytist í ljúfar minningar.

Við Sigríður vonum heitt að litli afanafninn megi geyma með sér og þroska einhverja af þeim ótal mannkostum sem gerðu afa hans að þvílíkum mannkostamanni og mannvini sem hann var.

Guð blessi Ármann Snævarr og minningu hans.

Kjartan Gunnarsson.

Ég hef búið í afa- og ömmuhúsi mest allt mitt líf. Húsið þeirra á Aragötu er það heimili sem ég þekki best. Fyrst bjó ég þar með móður minni er við vorum ein og svo aftur er ég hafði flutt að heiman. Þetta hús er hlýtt og gott alveg eins og eigendur þess.

Hann afi minn kenndi mér margt þessi ár sem við áttum saman. Það mikilvægasta sem hann kenndi mér var að reyna að vera góður og hjálpsamur öðru fólk og að ekki hika við að láta það vita hve vænt mér þykir um það. Ég lærði þetta ekki í neinni kennslustofu hjá honum heldur með því að fylgjast með honum og hvernig hann kom fram við annað fólk. Ég skildi afhverju þetta er svona mikilvægt þegar hann faðmaði mig að sér og kyssti mig á kinn. Afi átti besta faðmlag í heimi.

Þegar afi og amma urðu að flytja frá Aragötu fyrir nokkrum árum síðan og ég varð einn eftir þar var það mjög skrítið fyrir mig. Ég var svo vanur því að hafa þau á hæðinni fyrir ofan mig. Þegar ég var lítill var það mikið öryggi fyrir mig að vita hve stutt ég þurfti að hlaupa til að komast í fangið á afa. Ég fékk líka að kynnast því hve gott var að sofa á milli afa og ömmu því þau bættu hvort annað svo vel upp. Afi var gríðarlega heitfengur og ég komst fljótt að því að ef ég hafði vinstri fótinn undir hans sæng og þann hægri undir ömmu sæng þá skapaðist fullkomið jafnvægi. Ég hélt fyrst að ég einn vissi þetta leyndarmál en komst síðar að því að margir fjölskyldumeðlimir þekktu þetta vel af eigin raun.

Gildin og hlýjan hans afa verða með mér það sem ég á eftir ólifað. Hann er nú aftur kominn á hæðina fyrir ofan mig eins og þegar ég var yngri. Það að vita af honum og faðmlaginu hans þar gefur mér mikinn innri styrk og frið.

Gunnsteinn Ármann Snævarr.

Ég á svo erfitt með að átta mig á að afi Ármann sé farinn. Hann, sem var eins og klettur í lífi mínu. Mér fannst eins og hann yrði alltaf til staðar, að hann væri ódauðlegur. Hann var þessi maður sem gat allt, hafði gert allt og gerði það best. Ég var viss um að hann gæti sigrast á öllu, jafnvel dauðanum.

Ég get ekki ímyndað mér að nokkrum manni hafi verið í nöp við afa. Hann var einhver sá hlýjasti og yndislegasti maður sem ég hef kynnst. Vildi öllum vel og hafði einlægan áhuga á fólki. Það voru forréttindi að eiga hann að.

Hann lét sér mjög annt um fjölskylduna sína og hringdi í það minnsta einu sinni í viku til þess að spyrja fregna auk þess sem þau amma buðu okkur systkinunum í te á hverjum sunnudegi. Þar var rætt um heima og geima enda var afa ekkert óviðkomandi. Oftar en ekki var umræðuefnið lærdómsríkt og hann vann meðal annars markvisst að því að auka orðaforða okkar með því að hlýða okkur yfir hin ólíklegustu orð. Ég man eftir nokkrum tilvikum þar sem gripið var til orðabóka og jafnvel alfræðiorðabóka. Hann hafði mikinn áhuga og metnað fyrir okkar hönd og hvatti okkur áfram í því sem við tókum okkur fyrir hendur. Áhugi hans og kraftur fyllti mig metnaði og löngun til þess að standa mig vel. Eldmóður hans var smitandi.

Afi Ármann hefur alltaf verið mér mikil fyrirmynd og ég lagði mig alla fram til þess að hann yrði stoltur af mér. Það var að vísu aldrei erfitt því afi var skilyrðislaust stoltur af okkur barnabörnunum. Hann varð himinlifandi þegar ég hóf nám við lagadeild Háskóla Íslands en mér er þó minnisstæðast þegar ég tilkynnti honum um árangur minn í almennri lögfræði. Það er ekki nema rúmur mánuður síðan að ég hringdi í hann á Þorragötuna og hann hrópaði upp yfir sig. Það er í eina skiptið sem ég heyrði afa hækka róminn. Ég hef aldrei á ævinni verið stoltari.

Við áttum svo margar góðar stundir saman og það er óendanlega sárt að hugsa til þess að þær verði ekki fleiri. En allar þær minningar sem ég á um hann lifa og ég mun aldrei gleyma honum, elsku afa.

Ásgerður Snævarr.

Nei, nei, nei, bókin er ekki göl, hún er guuuul. Enn hljómar þetta langa u í eyrum mér og enn sé ég fyrir mér stútinn sem Ármann Snævarr setti á munninn. Bókin sem Ármann vitnaði til var heiðgul nótnabók, „fjárlögin“, sem stóð á orgelinu á æskuheimili mínu í Bót. Ármann var að reyna að venja undirritaðan systurson sinn, þá fimm ára gamlan, af flámælinu, sem þá var aðal okkar Héraðsbúa.

Það var mikil sól á Austurlandi sumarið 1944. Ármann Snævarr dvaldi þá um hríð hjá systur sinni og mági í Bót á Fljótsdalshéraði. Hann var að lesa undir embættispróf í lögfræði. Undirritaður bar mikla virðingu fyrir þessum frænda sínum, sem var í hvítri skyrtu og stakk nokkuð í stúf við umhverfið í sveitinni. Rétt farinn að lesa var ég að glugga í þessa stóru doðranta og hraus hugur við. Einkum olli „gagnstefndi“ mér heilabrotum og ég ákvað að verða ekki lögfræðingur.

Ármann Snævarr ólst upp við mikið ástríki á heimili foreldra sinna í Neskaupstað, þeirra Valdemars Snævarr skólastjóra og sálmaskálds og konu hans Stefaníu Erlendsdóttur. Börnin voru mörg og þar var einnig í heimili Árnína systir húsfreyju, guðhrædd og grandvör piparmey. Hún breiddi sig yfir barnahópinn og ól hann í guðsótta og góðum siðum. Heimilið var mikið menningarheimili, þrátt fyrir lítil efni, og húsbóndanum var mikið kappsmál að koma börnum sínum til mennta. Börnin tóku líka að létta undir með heimilinu strax og þau höfðu burði til. Ég hef fyrir satt að Ármann Snævarr og Jónas Haralz hafi verið annálaðir beitningamenn í Neskaupstað á þessum árum.

Það var alltaf mikil birta yfir æskuárunum á Norðfirði í huga Ármanns. Þó gekk lífið ekki áfallalaust. Tveir ungir bræður Ármanns létust með stuttu millibili. Þá orti afi minn sálminn „Þú Kristur ástvin alls sem lifir“ sem enn hljómar í kirkjum landsins. Það var hans „Sonatorrek“.

Að loknu embættisprófi hvarf Ármann til framhaldsnáms erlendis og dvaldist lengi. Lögvísindi voru honum bæði áhugamál og ástríða. Móðir mín var farin að hafa áhyggjur af að hann Manni, eins og Ármann var kallaður, myndi aldrei ná sér í konu. En svo skeði hið óvænta. Það barst austur á land að Ármann Snævarr ætlaði að fara að gifta sig. „Það má vera ákveðin kona,“ sagði móðir mín. Það kom líka í ljós. Valborg Sigurðardóttir er engin venjuleg kona. Einstakt samband þeirra hefur nú varað í nær 60 ár.

Aðrir munu rekja farsælan starfsferil Ármanns sem prófessors, háskólarektors og hæstaréttardómara. Eitt hlutverk veittist honum þó erfitt. Að dæma ógæfumenn. Ármann hafði drukkið þá afstöðu með móðurmjólkinni að ógæfumenn hefðu tilfinningar eins og annað fólk og ættu sínar vonir og þrár.

Ég geng þess ekki dulinn að Ármann naut ómældrar virðingar og væntumþykju meðal fyrrverandi nemenda sinna. Lögfræðinemar segja mér að andi hans svífi enn yfir í tímum. Það kæmi mér heldur ekki á óvart þótt þeir ættu lengi enn eftir að heyra lesið úr kvennagiptingar- eða framfærslubálki Jónsbókar á síðkvöldum í Lögbergi.

Pétur Stefánsson.

„Milli fjölskyldnanna voru sterk vináttubönd, bæði milli foreldra okkar og systkinahópanna tveggja. Við vorum leikfélegar þeirra systkina og eru margar ljúfar og góðar minningar frá þeim árum sem gott er að ylja sér við.“ Svo reit Ármann Snævarr um föður minn, Bjarna Vilhjálmsson, að honum látnum fyrir aldarfjórðungi. Þeir voru miklir vinir og frændur, þó að skyldleikinn væri aðeins frá fyrri hluta 19. aldar.

Jóhannes Stefánsson lýsti æskuárum sínum svo: „Það var mikið líf á uppvaxtarárum okkar í Tröllaneshverfinu og inn á Strönd. Mikill fjöldi báta, skúra, fiskreita og bryggja. Börnin fóru ung að hjálpa til við útgerðina. Heimilin voru barnmörg. Alltaf nógir leikir, fara í húsbolta, slagbolta, felingaleik, rúlla gjörð, Hróa Hött inn á Villatúni og margt fleira. Krakkarnir komu oft saman frá Mel, Stóra-Tröllanesi, Hátúni, Hinrikshúsi, Framnesi, Valdemarshúsi, Bjarnarborg, Lárusarhúsi og inn að Jakobshúsi.“ Svona var lífið á Nesi í Norðfirði á uppvaxtarárum Ármanns og Bjarna.

Því set ég þessar línur á blað að ekkert fólk mér vandalaust hefur haft jafn mikil áhrif á fjölskyldu mína og fjölskylda Ármanns Snævarr, og spunnið mér og systkinum mínum örlagavef til þess, sem við erum. Faðir Ármanns, Valdemar Snævarr, skólastjóri, „...reri að því öllum árum að Bjarni færi í menntaskóla...“ . Stefán bróðir Ármanns og faðir minn voru herbergisfélegar í Brattagerði á heimavistinni í MA í 5 vetur. Síðar gaf sr. Stefán foreldra mína saman í hjónaband, sem gat af sér 4 börn. Enn áttu örlögin eftir að grípa í taumana, því svo bar til í maí 1947 að Ármann og faðir minn hittust í Bankastræti eftir 2ja ára fjarvistir Ármanns á Norðurlöndum við framhaldsnám. Faðir minn hafði þá pantað sér flugfar til Akureyrar næsta dag, en Ármann mæltist til þess að þeir yrðu heldur samferða í rútu þann dag. Þegar þeir félagar komu til Blönduóss bárust þeim þær hörmulegu fréttir að Akureyrarvélin væri týnd. Síðar kom í ljós að vélin hafði farist og með henni 4ra manna áhöfn og 21 farþegi.

Ármann var gæfumaður. Hann var mikill námsmaður og þar fóru saman gáfur og gjörvileiki. Um Ármann má hafa hans eigin orð: „...einkar geðfelldur maður, ljúfmenni og prúðmenni í viðmóti og framkomu“. Hann átti langan embættisferil og bætti mannlíf með störfum sínum. Hann leit á lögfræðina sem vísindi, list og fegurð.

Síðustu árin tókum við stundum tal saman þar sem nestorinn í Háskólahverfinu var í gönguferðum sínum. Sjón Ármanns hafði daprast en hugsunin skýr. Þegar við mættumst kynnti ég mig og Ármann ljómaði þegar hann sagði mér frá æskuárunum á Norðfirði. Það var ánægjulegt fyrir nýorðinn háskólakennara að kynnast manninum, sem hafði sett mark sitt á Háskóla Íslands þegar hann gegndi embætti rektors skólans í 9 ár á umbrotatímum.

Að leiðarlokum þakka ég Ármanni allt hans vinar þel við foreldra mína í blíðu og stríðu. Ég veit að það verða góðir endurfundir með Ármanni og börnunum á Fögruvöllum og í Hátúni, sem gengin eru.

Megi minningin um Ármann Snævarr heiðrast í vitund þinni.

Vilhjálmur Bjarnason.

Integer vitae scelerisque purus... Þessi orð koma mér fyrst í hug þegar ég minnist Ármanns, frænda míns. Það er hvorttveggja að latínan hæfir honum vel, sem formföstum og miklum fræðimanni en ekki síður á merking orðanna vel við hann. Þar fór hógvær og heiðarlegur maður sem valdi orð sín af kostgæfni, bar einstaka virðingu fyrir umhverfi sínu.

Ég leit alltaf á frænda sem frænda minn og prófessor í skemmtilegri merkingu þess orð. Hann var mjög skemmtilegur þegar hann tók niður svip fræðimennskunnar og formfestunnar. Hann var ekki síður skemmtilega utan við sig eins og almennilegir prófessorar eiga að vera. Frændi var mjög ættrækinn og af gamla skólanum, eins og sagt er, og það í hinni jákvæðu merkingu þess orðs. Einlægni og heiðarleiki voru honum í blóð borin og virðing fyrir þessum gildum enda hafði hann fengið slíkt uppeldi í æsku.

Frændi var óforbetranlegur Austfirðingur, nánar tiltekið Norðfirðingur. Gerði hann skýran greinarmun á stöðum á Austfjörðum. Því kynntist ég er ég ók með þá bræður, föður minn og hann, um Austfirði fyrir margt löngu. Að sjálfsögðu var rigning og þoka á Suðurfjörðum en þeir töldu að brátt birti til. Götur voru ekki malbikaðar frekar en þjóðvegurinn og því nokkur for á þeim. Þeir þurftu að sinna erindi á Eskifirði og báðu mig að aka fyrst að Kaupfélaginu því þeir þyrftu að kaupa sér skóhlífar. Þeir, tæpir meðalmenn á hæð, tipluðu eins og háfetar inn í verslunina og komu út nokkru síðar á gljáandi skóhlífum. Gengu þeir nú öruggari skrefum þangað sem þeir áttu erindi. Leiðin lá síðan til Neskaupstaðar. Þar var sama þokan og súldin og forin var jafnvel meiri ef eitthvað var. En nú hafði átthagaástin blindað þá bræður og þeir þurftu ekki að nota skóhlífarnar lengur. Sulluðu þeir, skóhlífalausir, um göturnar og niður á bryggju, hreint eins og þeir væru á stífbónuðu stofugólfinu heima. Frændi hafði sterkar taugar austur og ræddi oft um æsku sína og foreldra sem hann dáði afar mikið. Hann gerði sér auðvitað grein fyrir því að hann var tekinn að reskjast og eins og mörgum öldungnum verður honum hugsað meira og meira til æskunnar þegar maður var léttur upp á fótinn og átti öruggt skjól í örmum foreldra og systkina. Kallaði hann fjölskylduna eins oft saman og hann komst upp með og þótti honum það alltof sjaldan.

Síðasta árið var frænda erfitt og honum hrakaði ört. Það var sáttur öldungur, fræðimaður, foreldri, vinur og samferðamaður sem kvaddi heiminn hinn 15. febrúar sl. Hann hélt andlegri reisn sinni allt til þess er yfir lauk og hann gat litið stoltur til baka og kveið engu. Ég veit að vísu ekki alveg hvernig frændi leysir það að vera án Valborgar en treysti því að þeir himnafeðgar, sem hann treysti öðrum betur, hafi áttað sig á því að það gengur ekki upp og fundið á því viðunandi lausn. Valborg var hans stoð og stytta, hægri og vinstri hönd og undir lokin augu hans. Ég heyri orðin: Valborg mín, sögð í mjög sérstökum tón. Nú hafa þau fjarlægst aðeins.

Fjölskylda mín sendir samúðarkveðjur.

Gunnlaugur V. Snævarr.

„Allir þessir dagar sem líða...eru þá lífið sjálft.“ Ármann frændi er nú horfinn frá hringborði lífsins. Hann var litli bróðir móður minnar og átti alltaf sérstakan sess í hennar huga. Á menntaskólaárum mínum dvaldi ég á heimili þeirra Valborgar. Sú dvöl varð mér ómetanleg. Í byrjun þeirrar dvalar var fyrsta barn þeirra, Sigga Dísa, þriggja mánaða og brátt stækkaði systkinahópurinn. Fyrr en varði markaðist heimilislífið af gáskafullum og skemmtilegum unglingum. Alltaf var fullt að gera og fullt að gerast. Borðhaldið var þá jafnan vettvangur snarpra skoðanaskipta, engum lá lágt rómur og enginn vildi láta sinn hlut. Aldrei lognmolla. Ekkert haggaði ró Ármanns. Hann sat keikur við borðsendann og fylgdist grannt með. Skaut inn einstaka athugasemdum ef færi gafst. Foreldrarnir miðluðu börnum sínum óspart af menntun sinni, starfssviði og reynslu, bæði heima og erlendis. Það hefur án efa mótað persónu þeirra og lífsviðhorf.

Ármann gegndi fjölmörgum störfum. Hann var mikilvirkur fræðimaður, kvöld og helgar sat hann við skriftir, pikkið á ritvélina var einskonar undirspil lífsins á Aragötunni. Ritstörf voru hans ástríða og starfsþreki hans voru lítil takmörk sett. Oft kom hann fram af skrifstofunni síðla kvölds og nuddaði augun en aldrei var minnst á þreytu. Mikil rósemi var honum í blóð borin, aldrei asi né flýtir. Á þeim árum sem hann var háskólarektor var sem ætíð annasamt á heimilinu. Mikið flaut að og mig undraði oft hvernig þau hjón náðu landi. Þau hafa alltaf notið þess að hafa gesti og ótaldir eru þeir sem hafa notið gestrisni þeirra, bæði innlendir og erlendir. Þau kunnu öðrum betur að skapa ánægjulegar samverustundir.

Ármann var mikill fjölskyldumaður, vildi alltaf hafa sem flesta í kringum sig og efndi til afmælisfagnaða á stærri tímamótum í lífi sínu.

Á seinni árum fórum við hjónin með þau nokkur sumur í smáferðalög. Skemmtilegri og fróðlegri ferðafélagar voru vandfundnir. Íslensk náttúra var þeim sem uppspretta aðdáunar og söguskoðunar. Það var gaman. Ármann ók aldrei bifreið en hafði fyrir margt löngu tekið bílpróf. Hann gekk því alltaf mjög mikið – kvöldgöngur fastur liður – oftast gangandi til vinnu í Hæstarétt nema veður hamlaði. Þótt ættarsjúkdómurinn færi að herja á augun gat hann lengst af stundað sínar mikilvægu gönguferðir. Á bak við sterkan mann býr sterk kona og öfugt. Stóra gæfan í lífi Ármanns var Valborg. Á hausti komanda hefðu þau átt demantsbrúðkaup. Þau voru einstaklega samrýnd og samhent hjón, gagnkvæm virðing og væntumþykja umvafði alla þeirra sambúð. Það er aðdáunarvert hvað hún hefur upp á síðkastið stutt hann dyggilega, er heilsu hans fór hrakandi, þrátt fyrir að hún sjálf gengi ekki heil til skógar. En hjá þeim báðum var áhuginn vakandi, hugsunin skýr og minnið óbrigðult. Hugur þeirra og hjarta vann saman til loka. Afar farsælu og viðburðaríku lífi er lokið. Aðal hans var kærleikur, umhyggja og vinsemd í garð samferðamanna, gjöfult og gleðiríkt lífsviðhorf.

Heiður og þökk fylgi minningu hans.

Birna.

Síðan þetta var eru liðin 63 ár. Ég hafði legið um skeið á sjúkrahúsi erlendis, þegar í dyrunum birtist ungur maður, sagðist hafa átt leið hjá og dottið í hug að heilsa upp á mig. Ég hafði ekki hitt Ármann Snævarr fyrr, en vissi að hann hafði verið nemandi fjölskylduvinar okkar, Ólafs Lárussonar lagaprófessors, sem sagði hann uppáhaldsnemanda sinn og afburða fræðimannsefni.

Það var fyrir mig eins og hressandi vorblær að fá þessa heimsókn, kynnast bjartsýni Ármanns og vel rökstuddum skoðunum. Það varð mér einnig mikilvæg hvatning og uppörvun að heyra hann ræða um metnaðarfullar fyrirætlanir sínar um framhaldsnám í fjórum löndum sem undirstöðu að fræðistörfum á sviði lögfræði og réttarfars þegar heim kæmi. Og þess var ekki langt

að bíða að kallað væri eftir starfskröftum hans, því að jafnvel áður en hann hafði lokið áætlun sinni um framhaldsnám að fullu var að honum lagt að taka við stöðu prófessors við lagadeild Háskólans.

Ungir menn eiga sér drauma um afrek og farsæl störf, en aðeins sumir fá að njóta þess að gæfa fylgi gjörvuleika. Að þessu leyti var Ármann Snævarr mikill gæfumaður, hann setti sér snemma háleit markmið um lærdóm, vandvirkni og trúmennsku í námi og starfi, og honum auðnaðist að inna af hendi óvenju glæsilegt lífsstarf í þágu þjóðar sinnar sem háskólakennari, rektor Háskóla Íslands, hæstaréttardómari og mikilsmetinn fræðimaður. Og eftir að hann hafði lokið embættisferli sínum naut hann þess að geta stundað rannsóknir og ritstörf í fræðigrein sinni allt fram undir nírætt.

Öll samskipti við Ármann voru innihaldsrík og gefandi, því að hugsun hans stefndi ætíð að kjarna hvers máls. Hann var einnig víðsýnn sem fræðimaður og opinn fyrir nánum og frjósömum samskiptum milli fræðigreina, og hafði í því efni sérstakan áhuga á tengslum lögfræði við rannsóknir á sviði félagsfræði og afbrotafræði. Það mátti því með réttu kalla hann alvörumann, ekki vegna þess að hann skorti gamansemi, því að hann gat verið bæði léttur í lund og gáskafullur, heldur vegna þess að hann var frábitinn hégóma og innihaldslausu hjali.

Ármann var bæði frændrækinn og vinfastur og til hans var ætíð gott að leita ráða ef vanda bar að höndum. Réttsýni og góðvild voru þeir eiginleikar sem mestu réðu um afstöðu hans til manna og málefna. Ríkast í fari hans fannst mér þó ætíð áhugi hans og umhyggja fyrir ungu fólki og börnum, en því fékk ég best að kynnast eftir að við tengdumst fjölskylduböndum og eignuðumst sameiginleg barnabörn.

Minningin mun lifa um góðan mann.

Jóhannes Nordal.

Kveðja frá Lögfræðingafélagi Íslands

Með Ármanni Snævarr er genginn einn áhrifamesti lögspekingur þjóðarinnar á 20. öld. Nutu flestir lögfræðingar, sem útskrifuðust frá lagadeild Háskóla Íslands á árunum 1948-1989, leiðsagnar hans um skemmri eða lengri tíma. Eftir Ármann liggur fjöldi fræðirita og kom síðast út árið 2008 stórvirkið Hjúskapar- og sambúðarréttur. Kennslugreinar Ármanns voru lengst af sifja-, erfða- og persónuréttur og refsiréttur. Auk þess kenndi hann almenna lögfræði á fyrri hluta kennsluferils síns sem hann mótaði frá grunni miðað við íslenskar aðstæður. Ármann var gerður að heiðursdoktor við lagadeild Háskóla Íslands árið 1993 í tilefni af 85 ára lagakennslu á Íslandi. Var þá sagt í umsögn valnefndar að sá maður væri vandfundinn sem lagt hefði drýgri skerf til íslenskrar lögfræði þann tíma sem lagakennsla hefði farið fram á landinu. Eru það orð að sönnu. Þá var Ármann rektor Háskóla Íslands í samtals 9 ár. Ármann var hæstaréttardómari 1972-1984 og jafnframt stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands til 1989.

Ármann var fyrsti formaður Lögfræðingafélags Íslands og helsti frumkvöðull að stofnun þess ásamt Theodór Líndal, prófessor. Hann var heiðursfélagi lögfræðingafélagsins og bar hag þess ætíð fyrir brjósti. Á stofnfundi félagsins 1. apríl 1948 lét Ármann þessi orð falla: „Ég er þess altrúa, að íslenzkir lögfræðingar skilji það til fullnustu, að á okkur hvílir sú menningarlega skylda að halda uppi öflugum allsherjarfélagsskap til gagns og sæmdar fyrir íslenzka lögfræðingastétt – og okkur ætti hvorki að skorta mannafla né dug til slíks félagslegs framtaks.“ Með þessum orðum Ármanns, sem enn eru í fullu gildi, var lagður sá grunnur sem starfsemi félagsins hefur byggst á.

Horfinn er yfir móðuna miklu mætur og merkur maður sem skilur eftir sig ómetanlegt ævistarf. Lögfræðingafélag Íslands kveður Ármann Snævar með virðingu og þökk og vottar eftirlifandi eiginkonu og fjölskyldu innilega samúð.

Helgi I. Jónsson, formaður.

Að lokinni ræðu Ármanns Snævarr í hátíðarsal Háskóla Íslands síðastliðið haust sagði hann mér að ræðan hefði verið með öðru efni en hann hafði undirbúið þar sem þeir sem á undan töluðu hefðu nægilega um það fjallað. Hin óundirbúna ræða þessa níræða manns var þó frábær, skipulega fram sett, hógvær, fyndin og full af speki og hvatningu til ungs fólks.

Ármann Snævarr var ótrúlega glöggur maður og fylgdist til enda vel með því sem var að gerast í lögfræðinni. Umfram allt var hann velviljaður fólki. Hann lét sér jafnan sérstaklega annt um unga lögfræðinga. Einnig mig, þótt ekki hefði hann kennt mér í skóla með öðrum hætti en þeim að rita bækur eins og Almennu lögfræðina, en sú bók er þrekvirki.

Þá kom það fyrir að hann gaf sér tíma að hringja í mig, ungan héraðsdómarann í sveitinni, og tala um einhvern dóm sem ég hafði kveðið upp. Skömmu eftir að ég var skipaður dómari við Hæstarétt boðaði Ármann mig svo á sinn fund. Áttum við langt samtal um menn og málefni. Af sinni velvild uppfræddi hann mig um reynslu sína, brýndi mig til verka og sagði mér hvað í raun þýddi að vera maður en jafnframt dómari við Hæstarétt Íslands. Það samtal hefur reynst mér mikils virði. Fyrir allt þetta ber að þakka.

Ólafur Börkur Þorvaldsson.