Jared Bibler
Jared Bibler
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jared Bibler Í þeim umræðum sem sprottið hafa upp í kjölfar þess að íslenska bankakerfið féll í október 2008 hefur lítið verið talað um stærð og umfang fallsins, hvort sem reiknað er í íslenskum krónum eða í samanburði við önnur gjaldþrot.

Eftir Jared Bibler

Í þeim umræðum sem sprottið hafa upp í kjölfar þess að íslenska bankakerfið féll í október 2008 hefur lítið verið talað um stærð og umfang fallsins, hvort sem reiknað er í íslenskum krónum eða í samanburði við önnur gjaldþrot.

Þetta er ekki gott, því ef við gerum okkur ekki grein fyrir umfangi fallsins er erfitt fyrir okkur skilja hversu miklu áfalli hagkerfi okkar varð fyrir. Það gerir okkur líka illmögulegt að útskýra stærð kerfishrunsins fyrir útlendingum. Gjaldþrot bankanna var sögulegur viðburður, ekki bara á Íslandi heldur einnig alþjóðlega og því verðum við að geta gert okkur grein fyrir umfangi þess.

Við skulum líta á nokkrar tölur sem hjálpa okkur að setja íslensku fjármálakrísuna í alþjóðlegt samhengi.

Í lok júnímánaðar 2008, um það bil þremur mánuðum áður en stóru viðskiptabankarnir féllu, jafngiltu samanlagðar eigur þeirra, þ.e. Kaupþings, Landsbanka og Glitnis, fjórtánfaldri þjóðarframleiðslu Íslendinga.

Stóru bankarnir þrír voru ekki bara stórir miðað við þjóðarframleiðslu Íslendinga heldur einnig á alþjóðlegan mælikvarða. Lítum fyrst á alla bankana sem eina heild í ljósi þess að þeir voru settir í sama flokk af mörgum þátttakendum markaðarins utan Íslands og að þeir féllu allir með nokkurra daga millibili. Ein leiðin til þess að sýna stærð þeirra er að skoða hverjar heildareignir þeirra voru við fall. Þessi fjárhæð nam 182 milljörðum bandaríkjadala í júní 2008 og er hún mjög há, jafnvel á breskan eða bandarískan mælikvarða.

Það varð heimsfrétt haustið 2007 að breskir innstæðueigendur stóðu í biðröðum til að taka fé sitt út úr Northern Rock-bankanum. Bresk stjórnvöld voru tilneydd að grípa inn í og ábyrgjast innstæður í bankanum til að hrinda áhlaupinu. Að lokum var Northern Rock-bankinn þjóðnýttur. Stærð þriggja stóru bankanna á Íslandi setur þá í flokk með þessu fræga breska áfalli. Stærð þeirra samanlagt var meira en 80% af stærð Northern Rock við árslok 2007.

Hinum megin við Atlantshafið hefði samanlagt gjaldþrot íslensku bankanna þriggja fært þeim sæti sem þriðja stærsta gjaldþrot í Bandaríkjunum frá upphafi. Einungis Lehman-bankinn og Washington Mutual voru stærri og þeir féllu á nánast sama tíma og íslensku bankarnir. Ef við berum sameiginlegt fall stóru íslensku bankanna þriggja saman við þau gjaldþrot sem urðu í Bandaríkjunum fyrir árið 2008 myndu þeir ná sæti sem langstærsta bandaríska gjaldþrot sögunnar, 75% stærra en fall WorldCom 2002.

Tölurnar eru líka hrikalegar ef litið er á hvern banka fyrir sig. Gjaldþrot Kaupþings var til dæmis næstum 30% stærra en Enron þegar það fræga fyrirtæki varð gjaldþrota og Enron var þá sjöunda stærsta fyrirtæki í Ameríku. Gjaldþrot Landsbankans og Glitnis voru hvort um sig um það bil 25% stærra en nýlegt gjaldþrot Chrysler.

Til þess að skilja stærð áfallsins hérlendis er hægt að draga upp mynd af því ef Bandaríkin eða Bretland hefðu lent í svipaðri kreppu. Það sem gerðist á Íslandi í byrjun október 2008 hefði jafngilt meira en 140 Northern Rock áföllum í Bretlandi. Yfirfært á Bandaríkin myndi það jafngilda því að næstum 300 Lehman Brothers-bankar hefðu orðið gjaldþrota samtímis. (Stærð efnahagskerfisins í Bretlandi árið 2008 var um 175 sinnum stærra en efnahagskerfi Íslands og efnahagskerfi Bandaríkjanna var 1.100 sinnum stærra.)

Frá miðjum september til ársloka 2008 féll vísitala Standard & Poor‘s („S&P 500“) í Bandaríkjunum úr 1.200 niður í tæplega 900 punkta og því var lýst sem hræðilegu markaðsáfalli af viðskiptamiðlum. Ímyndaðu þér ef vísitalan hefði fallið niður fyrir 100 punkta. FTSE 100 í Bretlandi hefði á sama hátt fallið úr 5.000 niður fyrir 500 ef landið hefði orðið fyrir svipuðu áfalli og Ísland.

Þegar við hjá Fjármálaeftirlitinu setjum kreppuna í samhengi fyrir starfsbræður okkar erlendis halla þeir sér venjulega fram og leggja við hlustir. Ég vona að þessi samanburður hjálpi þeim sem hér búa að skilja betur stærð íslensku fjármálakrísunnar.

Heimild: BankruptcyData.com, Seðlabanki Íslands, ársfjórðungsskýrslur Q2 2008: Landsbanki Íslands hf., Kaupþing banki hf. og Glitnir banki hf.

Höfundur er rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins.