George Gagnidze í hlutverki Scarpia í óperu Giacomo Puccinis, Tosca, í Metropolitan-óperunni.
George Gagnidze í hlutverki Scarpia í óperu Giacomo Puccinis, Tosca, í Metropolitan-óperunni. — AP
Sæbjörn Valdimarsson

Þegar byltingin sem kennd er við fjölsalabíóin, gjörbreytti kvikmyndahúsaumhverfinu, var ljóst að sætaframboðið ykist til muna. Bíó sem var illmögulegt að stækka, hrukku upp fyrir, þau sem voru betur búin til að aðlagast nýjum kröfum, blésu út. Afleiðingin nýtt og aukið sæta- og ekki síður salaframboð. Gömlu bíóin fengu andlitslyftingu, margfalt betri sæti og aðkomu. Sem dæmi má nefna að óbreyttur Stóri salurinn (sá gamli, góði) í Háskólabíói, var í mínum huga hinn fullkomni sýningarsalur. Nú er búið að dekra svo við mann að á dögunum stóð ég upp hálflerkaður úr gömlum sætum hans eftir að hafa setið í fyrrverandi Mekka bíófíkilsins.

Það er önnur saga. Vandamálið sem blasti við bíóstjórum eftir aukninguna, var að nýta þetta mikla sæta- og salaframboð. Sem skákaði eftirspurninni á hefðbundnar kvikmyndasýningar með tímanum.

Óperan og leikhúsið koma til skjalanna

SAM-bíóin riðu á vaðið með að útvíkka notkunargildi nýju kvikmyndahúsanna, en bíóin þeirra bjóða upp á 9 eða 10, vel búna sali. Einum var fljótlega breytt í VIP-sal, lúxussal með leðursófum sem er hægt að stilla margvíslega, jafnvel skjóta út fótskemlum. Og drekka með ómælt gos í boði hússins, sama er uppi á teningnum hvað varðar hið ómissandi popp. Sena er með hliðstæðan sal í Smárabíói.

Fljótlega datt einhverjum góðum manni í hug að sýna á bíótjaldi beinar útsendingar af fótboltaleikjum og voru undirtektirnar miklu betri en reiknað var með. Boltinn fór að rúlla, á síðasta ári fengu SAM-bíóin þá snjöllu hugmynd að gera samning við Metropolitan í New York og sýna beinar útsendingar í hágæðum frá þessari frægu óperu. Óperuhúsið hóf þessa nýjung fyrir fáeinum árum og hefur hún slegið í gegn í öllum heimshornum. Svipaðan samning gerðu Sambíóin síðan við The National Theatre í London og hefur aðsóknin að verkum þess verið hliðstæð.

Flestar sýningarnar eru á laugardögum kl. 18 að íslenskum tíma og fara fram í SAM-bíóunum Kringlunni. Meðal sýninga sem verið hafa á dagskrá fyrsta sýningarársins eru Tosca, Aida, Turandot, Les Contes D'Hoffmann, Der Rosenkavalier, Carmen, Simon Boccanegra.

Hamlet verður sýndur í dag, laugardaginn 27. mars, og Armida, laugardaginn 1. maí nk.

Landinn hefur tekið fagnandi þessari skemmtilegu nýjung og nauðsynlegt reyndist að bæta við aukasýningum á nokkur verkanna. Mesta aðsókn hlaut Tosca, sem var sótt af um 2.000 óperuunnendum

Nýjungar næsta sýningarár

Fyrsta beina, hágæðaútsendingin frá Metropolitan-óperunni á næsta sýningartímabili (því fimmta í röðinni), verður 9. október, og verður þá búið að númera öll sætin svo viðskiptavinir geta gengið að sínu sæti vissu með því að panta það fyrirfram eins og í alvöruleikhúsi.

Það er óneitanlega spennandi og ánægjuleg sjón að renna yfir verkefnaskrána 2010-11:

9.10

Wagner: Das Rheingold

James Levine; Wendy Bryn Harmer, Stephanie Blythe.

23.10

Mussorgsky: Boris Godunov

Valery Gergiev; Ekaterina Semenchuk, Aleksandrs Antonenko.

13.11

Donizetti: Don Pasquale

James Levine; Anna Netrebko, Matthew Polenzani.

11.12

Verdi: Don Carlo

Yannick Nézet-Séguin; Marina Poplavskaya, Anna Smirnova, Roberto Alagna.

8.01

Puccini: La Fanciulla Del West

Nicola Luisotti; Deborah Voigt, Marcello Giordani, Juha Uusitalo

26.02

Gluck: Iphigénie en Tauride

Patrick Summers; Susan Graham, Plácido Domingo, Paul Groves.

19.03

Donizetti: Lucia di Lammermoor

Patrick Summers; Natalie Dessay, Joseph Calleja, Ludovic Tézier,

9.04

Rossini: Le Comte Ory

Maurizio Benini; Diana Damrau, Joyce DiDonato, Susanne Resmark, Juan Diego Flórez, Stéphane Degout, Michele Pertusi

23.04

Strauss: Capriccio

Andrew Davis; Renée Fleming, Sarah Connolly, Joseph Kaiser.

30.04

Verdi: Il Trovatore

James Levine; Sondra Radvanovsky, Dolora Zajick, Marcelo Álvarez.

14.05

Wagner: Die Walküre

James Levine; Deborah Voigt, Eva Maria Westbroek.

Dagskrá National Theatre 2010-11, verður kynnt við tækifæri