Frá sýningu danska listamannsins Adam Saks í Nordiska Akvarellmuseet.
Frá sýningu danska listamannsins Adam Saks í Nordiska Akvarellmuseet.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Norræna vatnslitasafnið var í liðinni viku valið Besta safn Svíþjóðar árið 2010. Bera Nordal stýrir safninu sem þykir í fremstu röð fyrir sýningar á heimsmælikvarða og einnig fyrir rannsóknir og menntun.

Safnið er tíu ára í júní og þessi viðurkenning er besta afmælisgjöf sem við gátum fengið,“ segir Bera Nordal forstöðumaður Nordiska Akvarellmuseet, Norræna vatnslitasafnsins, en það var í liðinni viku útnefnt „Besta safn Svíþjóðar árið 2010“. Safnasamtökin í Svíþjóð og alþjóðlegu safnasamtökin ICOM standa að tilnefningunni.

Í úrskurði dómnefndar kemur fram að safnið hafi náð framúrskarandi árangri í að vekja athygli almennings á þeirri breidd og gæðum sem finna megi í vandaðri vatnslitalist, auk þess að það hafi náð að viðhalda miklum vinsældum meðal gesta. Þá er safnið sagt búa til og setja upp sýningar sem eru á heimsmælikvarða og sé til fyrirmyndar hvað varðar samþættingu sýninga, rannsókna og menntunar. Með starfinu í safninu hafi tekist að umbreyta nærsamfélaginu.

„Vitaskuld erum við mjög ánægð með þetta álit,“ segir Bera, sem hefur nú stýrt Nordiska Akvarellmuseet í nær sjö ár. Áður starfaði hún sem forstöðumaður Listasafns Íslands og stýrði hinum kunna sýningarstað Malmö Konsthall. „Það er ánægjulegt að fá viðurkenningu fyrir að vera með sýningar á heimsmælikvarða en ekki síður fyrir safnfræðsluna, menntun og rannsóknir, sem við höfum lagt sífellt meiri áherslu á,“ segir hún. „Vissulega höfum við breytt þessum litla bæ. Umheimurinn á erindi hingað.“

Í fyrra heimsóttu 235.000 gestir þetta fallega safn við hafið á eynni Tjörn norðan við Gautaborg. Bera segir það vissulega vera afar góð aðsókn, jafnvel þótt miðað sé við listasafnið í Gautaborg eða söfnin í Stokkhólmi.

„Við erum hér úti á eyju; staðsetningin við hafið er mjög sérstök. Ég féll fyrir þessum stað strax þegar ég sá hann, áður en ég var ráðin hingað. Náttúran og safnið mynda sterka heild. Taka þarf tillit til hvors tveggja – það er ekki hægt að sýna lélega list í þessu safni. Náttúran er það áhrifamikil.“

Upplifunin af hverri sýningu komi á óvart

Nordiska Akvarellmuseet er sjálfseignarstofnun. Bera segir að ekki hafi verið auðvelt að koma rekstrinum af stað en nú sé hann kominn með sterkar stoðir. „Við höfum notið mikils stuðnings, bæði frá sýslunni og sveitarfélaginu, og ríkið kemur einnig að þessu, í minna mæli þó,“ segir hún. „Þetta litla sveitarfélag veitir safninu tvær milljónir sænskra króna á ári. Það er aðdáunarvert hvað fólkið hér hefur sýnt mikinn skilning á starfseminni. Það hefur líka verið mikilvægt fyrir okkur að því finnst þetta vera þess safn.“

Þetta er sérhæft safn sem sýnir og safnar eingöngu verkum sem byggjast á vatni og litarefnum.

„Þessi sérhæfing er styrkur. Enginn annar er að vinna á þessu sviði. Grunnurinn í sýningarstefnunni eru vatnslitaverk á pappír, í samtímamyndlist og klassík. Akrílmyndir tengjast oft vatnslitum. Við höfum ekki verið mjög stíf í þessum skilgreiningum, sérstaklega ekki innan samtímalistarinnar. Í stað þess reynum við að skapa spennu.“

Bera segir safnið sýna norræna listamenn og alþjóðlega í bland. „Hrynjandin í sýningunum skiptir miklu máli, að setja ekki upp sýningu sem er lík þeirri sem var á undan. Upplifunin af hverri sýningu þarf að koma gestum á óvart.

Sumarsýningar eru klassískari en á vorin og haustin sýnum við yfirleitt samtímalist, alþjóðlega eða norræna.“ Sem dæmi nefnir hún að nú standi yfir sýning finnsku listakonunnar Elina Merenmies en í haust verður opnuð sýning Louise Bourgeois sem er 98 ára gömul, án efa einn allra kunnasti og virtasti myndlistamaður samtímans.

„Bourgeois er einstök,“ segir Bera. „Ég setti á sínum tíma upp mjög umfangsmikla sýningu á verkum hennar í Malmö Konsthall en þetta verður allt öðruvísi sýning. Þetta eru verk sem hún hefur gert á síðustu árum, gvassmyndir á pappír sem fjalla um móðurina og barnið. Faðirinn er alveg horfinn úr verkum hennar. Hún er farin að upplifa sig sem barn, eins og kemur fram í þessum ótrúlegu verkum.“

Kröfur til safna hafa gjörbreyst

Bera segist þurfa að fylgjast vel með í myndlist samtímans, sem og klassískri, fara um og skoða, en vatnslitaverk eru ekki það sem sést mest af á sýningum þó það hafi aukist á síðustu árum. „Ég þarf oft að spyrja listamenn að því hvort þeir vinni í vatnslit og á pappír. Sumir hafa hreinlega farið út í að vinna verk fyrir mig.“

Fyrir nokkrum árum setti hún upp sýningu með verkum Georgs Guðna og vatnslitamyndum eftir Ásgrím Jónsson, úr eigu Listasafns Íslands. Hún segir þá sýningu hafa fengið frábærar móttökur og aðsóknina hafa verið góða. Einnig hefur hún sýnt verk eftir Gunnlaug Scheving.

„Við búum allar okkar sýningar til sjálf. Ég tek ekki inn sýningar sem aðrir hafa gert, það þarf þá að vera samvinna frá upphafi. Ég þarf að vera í þessu ferli frá því hugmyndin verður til og þar til hún verður að veruleika. Það er lífsnauðsynlegt fyrir mig.

Við setjum alltaf upp þrjár stórar sýningar á ári og oft þá fjórðu. Svo sýnum við verk úr safneigninni. Safnið er ekki það stórt að við getum haft sér sal fyrir safneignina. Við nýtum því oft fyrirlestrasalinn, sem er mjög stór, til að sýna safnið á sumrin. En um háveturinn þegar aðsóknin er minnst þá sýnum við safneignina í sýningarsölunum. Nú erum við að safna fé til að byggja stóran sýningasal sem mun lengja safnið um 20 metra“

Frá stofnun safnsins hefur mikil áhersla verið lögð á safnfræðslu, fyrir skólabörn sem fullorðna gesti. Þannig eru gerðar heimildarkvikmyndir fyrir hverja sýningu og nemendur fá ekki bara leiðsögn, heldur eru teknir á námskeið. Hver sýning í safninu hefur sitt þema og nemendur undirbúa sig fyrst í skólanum, eru síðan á námskeiði í safninu í nokkrar klukkustundir og vinna oft áfram með efnið þegar þeir koma aftur í skólann.

Bera segir að í söfnum eigi að fara fram símenntun.

„Það er nauðsynlegt. Í dag er myndin í raun orðin mikilvægari en textinn og það þarf að kenna fólki hvernig á að túlka myndir og skilja. Fólk misskilur svo oft myndir og skilur ekki boðskap þeirra. Það hefur ekki lykilinn að þeim. Auglýsingaiðnaðurinn tekur til dæmis mikið af táknum beint úr myndlistinni eða er með beinar tilvitnanir í eldri myndlist sem fólk þekkir ekki til. Þessi menntun hefur því aldrei verið mikilvægari en í dag og það þarf að taka hana alvarlega, ekki einungis af okkur sem vinnum við þetta heldur einnig af menntakerfinu sem hefur því miður mjög takmarkaðan skilning á mikilvægi myndlistarinnar. Einnig hefur allt viðhorf til safna gjörbreyst á síðustu árum og kröfurnar eru miklu meiri í dag en voru áður. Þegar fólk kemur inn á safn í dag, má ekki gera ráð fyrir að það geti einfaldlega farið inn og horft á einhverja mynd á vegg. Það þarf að undirbúa gesti, þeir verða að hafa aðgang að textum, skrám, heimildaefni og ýmiskonar öðrum upplýsingum.“

Mikil orka fer þannig bæði í að setja saman sýningarnar og miðla þeim.

„Við gerum umfangsmikla sýningarskrá fyrir hverja sýningu og dreifum þeim vel. Enda standa þær eftir sem heimildir um sýninguna og vinnu listamannanna. Útgáfan auglýsir einnig safnið.Við leggjum líka mikla áherslu á listfræðirannsóknir. Unnum til dæmis í samvinnu við Gautaborgarháskóla umfangsmikið verkefni þar sem sex fræðimenn skrifuðu um verk í safninu og um vatnslitamiðilinn. Þá höfum við staðið fyrir rannsóknum á safnfræðslu, safnmenntun og hvernig staðan er á Norðurlöndum. Á síðasta ári gáfum við út bók með niðurstöðum slíkra rannsókna. Einnig höfum við staðið fyrir rannsókn á mikilvægi safns í samfélaginu. Niðurstöðurnar sýndu að fyrir hverja krónu sem samfélagið leggur safninu til fær það til baka tuttugufalt.“

Ástríðufullur áhugi

Á ferli sínum hefur Bera Nordal stýrt þremur myndlistarstofnunum sem hún segir afar ólíkar. Konsthallen í Málmey er ekki safn heldur hreinn sýningarsalur, með stórt og spennandi sýningarými. „Það var stórkostleg lífsreynsla að starfa þar, ég lærði mikið á það hvað hægt er að gera með listaverk í rýminu,“ segir hún. „Hér í Nordiska Akvarellmuseet erum við í spennandi uppbyggingarstarfi. Varðveisluskyldan var í forgrunni í Listasafni Íslands, enda aldargamalt safn með sterka listaverkaeign, miðstöð myndlistar og rannsókna í landinu. Því fylgir annarskonar ábyrgð. Hér er ég miklu frjálsari og möguleikarnir eru óendanlegir. Ég hef samt sömu markmið og ég hef alltaf haft, að stofnunin og sýningarnar verði sífellt betri. Allir þessir staðir hafa verið mér ástríða; þetta eru í raun einskonar ástarsambönd enda mikilvægt í skapandi vinnu að hafa ástríðufullan áhuga á starfinu.“

Áhersla á sýningar, fræðslu og rannsóknir

Nordiska Akvarellmuseet, Norræna vatnslitasafnið sem Bera Nordal stýrir, er á eynni Tjörn um 70 kílómetra fyrir norðan Gautaborg. Safnið er sjálfseignarstofnun og var opnað fyrir áratug í byggingu á mörkum lands og hafs sem dönsku arkitektarnir Niels Bruun og Henrik Corfitsen teiknuðu.

Safnið hefur notið mikilla vinsælda allt frá stofnun. Í fyrra voru gestir 235.000 talsins.

Stefna Nordiska Akvarellmuseet er að setja upp og sýna bæði verk framúrskarandi fulltrúa samtímalistamanna, sem vinna með vatnslitamiðilinn; verk sem byggjast á vatni og litarefnum, sem og verk eftir klassíska listamenn. Mikil áhersla er lögð á fræðslu gesta, meðal annars með útgáfu sýningaskráa, kvikmynda um listamennina sem sýna í safninu og leiðsögn ásamt brautryðjendastarfi á sviði myndmenntunar. Einnig stendur safnið fyrir umfangsmiklum rannsóknum sem unnar eru í samvinnu við norræna háskóla.

Safnið hlaut á dögunum viðurkenningu sem Safn ársins 2010 í Svíþjóð fyrir alla þessa þætti.