Umferð Hvert ertu að fara?
Umferð Hvert ertu að fara? — Morgunblaðið/Ómar
REYKVÍKINGAR telja sumir borgina vera nafla alheimsins, aðrir grínast með það. Á miðvikudagskvöldið flutti María Sigrún Hilmarsdóttir frétt um bensínverð í kvöldfréttatíma Sjónvarpsins.
REYKVÍKINGAR telja sumir borgina vera nafla alheimsins, aðrir grínast með það. Á miðvikudagskvöldið flutti María Sigrún Hilmarsdóttir frétt um bensínverð í kvöldfréttatíma Sjónvarpsins. Góð og gild frétt eða þangað til hún sagði: „Árið 2007 fórum við á bíl sem eyðir tíu lítrum á hundraði til Hornafjarðar, í fyrra að Fagurhólsmýri en í upphafi þessa árs komumst við ekki lengra en að Kirkjubæjarklaustri. Nú náum við ekki nema miðja vegu milli Víkur og Klausturs fyrir sama pening.“ Hvaðan var ekið var ekki nefnt í þessum útreikningi og ef ekki hefði fylgt með kort sem sýndi að umræddum bíl var ekið frá Reykjavík hefði fréttin verið alveg marklaus og var það fyrir þá sem hlustuðu á fréttirnar í útvarpinu eða eru blindir.

Lára Ómarsdóttir flutti mjög svipaða frétt fyrr í vetur. Var hún með samskonar útreikning og nefndi ekki hvaðan ekið var frekar en María Sigrún nú. Undarlegt er að gera ráð fyrir að allir landsmenn aki frá Reykjavík, hvað með þá sem aka frá Ísafirði eða Vopnafirði til Hornafjarðar, hvað komast þeir langt á tanknum?

Það er sorglegt að fréttamönnum finnist ekki taka því að nefna um hvaða stað þeir eru að tala þegar Reykjavík er til umfjöllunar.

Ingveldur Geirsdóttir