— Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is YFIRLIT er birt í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um lánafyrirgreiðslu til alþingismanna, var það gert til að kanna hvort þeir hefðu notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu í bönkunum.

Eftir Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

YFIRLIT er birt í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um lánafyrirgreiðslu til alþingismanna, var það gert til að kanna hvort þeir hefðu notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu í bönkunum. Samkvæmt yfirlitinu reyndust tíu þingmenn, makar þeirra og tengd félög, vera með yfir 100 milljóna króna lán samanlagt, þar af voru sjö þingmenn frá Sjálfstæðisflokknum, tveir úr Framsóknarflokki og einn úr Samfylkingunni. Hæstu lánin tengdust Sólveigu Pétursdóttur, fv. þingmanni, eða 3,6 milljarðar króna, sem að langmestu leyti voru á vegum eiginmanns hennar, Kristins Björnssonar.

Fyrst og fremst húsnæðislán

Flest lán undir 100 milljónum króna eru sögð fyrst og fremst húsnæðislán og telja megi slíkt til eðlilegrar fjármögnunar einstaklinga. Voru því skoðuð sérstaklega þau lán sem fóru yfir 100 milljónir króna. Kennitölulistar voru fengnir frá Alþingi og lánastaðan könnuð hjá Glitni, Kaupþingi, Landsbanka og Straumi-Burðarási.

Í meðfylgjandi töflu er birt hæsta staða lánanna einhvern tímann á tímabilinu frá ársbyrjun 2005 og fram að falli bankanna í október árið 2008.

Sem fyrr segir tengdust langflest lán Sólveigar Pétursdóttur eiginmanni hennar, Kristni Björnssyni. Lánastaða upp á 3,6 milljarða er frá 31. júlí árið 2007. Stærstu lánin voru til félags Kristins, Mercatura, og af þeim voru hæstu lánin í gegnum framvirka samninga, m.a. hlutabréf í FL Group, Glitni og Kaupþingi. Þá var félag í helmingseigu Kristins, Geri ehf., með 200-300 milljóna kr. lán hjá Landsbankanum á tímabili.

Lán tengd Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, nema nærri 1,7 milljörðum króna, eins og staða þeirra var 30. september 2008. Eru öll veruleg lán tengd eiginmanni Þorgerðar, Kristjáni Arasyni, sem þá var framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi.

Svipaða sögu er að segja um Herdísi Þórðardóttur, fv. þingmann Sjálfstæðisflokksins frá 2007 til 2009. Lán tengd henni upp á rúman milljarð króna, eins og staðan var í apríl 2006, voru á vegum eiginmanns hennar, Jóhannesar Sigurðar Ólafssonar, eða félags í sameiginlegri eigu þeirra hjóna.

Lán tengd Lúðvík Bergvinssyni, fv. þingmanni Samfylkingarinnar, upp á 755 milljónir króna, voru á vegum fasteignafélags í helmingseigu hans, Miðkletts, og voru fengin að láni í Landsbankanum.

Jónína Bjartmarz, fv. þingmaður Framsóknarflokksins, er skráð í skýrslunni með 283 milljóna kr. lán í lok september 2008, langflest á vegum eiginmanns hennar, Péturs Þórs Sigurðssonar.

Lán tengd Árna Magnússyni, fv. ráðherra Framsóknarflokksins, nema 265 milljónum króna í lok september 2008 og voru að mestu leyti í Glitni. Var Árni ráðinn forstöðumaður til bankans árið 2006. M.a. fékk félag á vegum Árna, AM Equity, 100 milljóna króna lán til hlutabréfakaupa í Glitni.

Lán Ármanns Kr. Ólafssonar, fv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins, námu 248 milljónum í lok ágúst 2007, einkum í Kaupþingi og Landsbankanum gegnum framvirka samninga. Undirliggjandi í þeim samningum voru ýmis innlend og erlend hlutabréf. Ármann var á Alþingi frá 2007 til 2009.

Helstu lán Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, upp á 174 milljónir króna eins og staðan var í ársbyrjun 2008, voru í Glitni. Annars vegar bein lán og hins vegar lán gegnum framvirka samninga, m.a. hlutabréf erlendra banka eins og Deutsche Bank, Morgan Stanley og Lehman Brothers. Lán Ástu Möller, fv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins, voru að mestu á vegum eiginmanns hennar, Hauks Þór Haukssonar, eða um 140 milljónir í lok árs 2006.

Svo er einnig með Ólöfu Nordal, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem í septemberlok 2007 tengdist lánum upp á 113 milljónir að langmestu leyti gegnum eiginmann hennar, Tómas Má Sigurðsson.