19. apríl 1246 Haugsnessfundur, mannskæðasta orrusta á Íslandi, var háð í Blönduhlíð í Skagafirði. Um 100 manns féllu. Þar áttust við Brandur Kolbeinsson og Þórður kakali. Með bardaganum leið veldi Ásbirninga á vestanverðu Norðurlandi undir lok. 19.

19. apríl 1246

Haugsnessfundur, mannskæðasta orrusta á Íslandi, var háð í Blönduhlíð í Skagafirði. Um 100 manns féllu. Þar áttust við Brandur Kolbeinsson og Þórður kakali. Með bardaganum leið veldi Ásbirninga á vestanverðu Norðurlandi undir lok.

19. apríl 1917

Leikfélag Akureyrar var stofnað sem áhugamannafélag, en það hefur rekið atvinnuleikhús síðan 1973. Leikfélagið hefur frá upphafi haft aðsetur í Samkomuhúsi Akureyrar.

19. apríl 1950

Einu lengsta verkfalli Íslandssögunnar lauk, en það hafði staðið í 109 daga. Flugvirkjar hjá Loftleiðum og Flugfélagi Íslands höfðu farið fram á 20% launahækkun en sömdu um 5,8% hækkun og 2% greiðslu í styrktarsjóð.

19. apríl 1954

Fermingarbörn á Akureyri klæddust hvítum kyrtlum „til að spara foreldrum barnanna peninga og forðast að fermingin verði nokkurs konar tískusýning“, eins og það var orðað í Morgunblaðinu. Er þetta talið upphaf þess sem síðan hefur tíðkast.

19. apríl 2009

Sex manns voru handteknir vegna smygls með seglskútunni Sirtaki til Austfjarða. „Um 109 kíló af fíkniefnum, amfetamín, marijúana, hass og e-töflur, voru flutt með skútunni til landsins,“ að sögn Morgunblaðsins.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson