Drífa Baldursdóttir ásamt börnum sínum þremur.
Drífa Baldursdóttir ásamt börnum sínum þremur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Drífa Baldursdóttir er 29 ára þriggja barna móðir sem eignaðist eitt barna sinna fyrir tímann af orsökum sem rekja má til keiluskurðar. Hún segist þakklát fyrir það að 5 ára dóttir sín sé á lífi og heilbrigð í dag.

Drífa Baldursdóttir er 29 ára þriggja barna móðir sem eignaðist eitt barna sinna fyrir tímann af orsökum sem rekja má til keiluskurðar. Hún segist þakklát fyrir það að 5 ára dóttir sín sé á lífi og heilbrigð í dag. „Það var fyrir algjöra tilviljun að leghálsinn í mér var athugaður þegar ég gekk með miðdóttur mína,“ segir hún.

Féll í yfirlið

„Meðgangan hafði gengið ágætlega fyrir utan einhverjar blæðingar sem gerðu mig reyndar frekar áhyggjufulla. En síðan þegar leið á meðgönguna fór ég að verða mjög orkulaus. Svo var það einu sinni að ég var að skoða íbúð með manninum mínum sem það leið yfir mig. Mig svimaði mikið eftir það og ég fann fyrir mikilli ógleði.

Í mæðraskoðun stuttu eftir þetta mældist ég mjög lág í járni og kallaði ljósmóðirin þá til lækni. Fyrir tilviljun var Hildur Harðardóttir á vakt en hún hefur einmitt tekið þátt í rannsóknum vegna leghálsbilana af völdum keiluskurða. Hún hafði ekkert áhyggjur af járninu, sem ég var á þeim tíma stórhneyksluð á, heldur hafði hún meiri áhuga á því að ég hafði farið í keiluskurð og sama ár og ég varð ólétt, aðgerð vegna fósturláts. Eftir að hún hafði skoðað leghálsinn sendi hún mig í leghálsmælingu.“

Drífa segist ekki hafa verið í sérstöku meðgöngueftirliti vegna keiluskurðarins frá upphafi meðgöngu, eða hafi henni verið sagt frá þeirri áhættu á sínum tíma sem hún tæki með því að fara í keiluskurð.

„Auðvitað hefði það ekki breytt því hvort ég hefði farið í keiluskurðinn eða ekki, en mér finnst að það ætti nú að segja manni frá því að þetta geti valdið leghálsbilun á meðgöngu. Ég meina, margir reykja sígarettur þó það standi stórum stöfum á pakkanum að það geti drepið. Fólk sleppir því kannski ekki að reykja við það, en er samt sem í sífellu minnt á áhættuna sem það er að taka. Síðan er ég ólétt og ég veit ekki einu sinni af áhættunni sem keiluskurðurinn hefur skapað. Ég veit að ég er ekki sú eina sem hefur lent í þessu. Ég held í dag úti síðunni fyrirburar.is þar sem ég hef rætt við margar konur sem segja sömu sögu.“

Hreyfði sig ekki í mánuð

Þegar Drífa fór í leghálsmælingu kom í ljós að leghálsinn var farinn að styttast eins og vaninn er þegar stutt er í fæðingu. Þá var hún aðeins komin rúma 6 mánuði á leið. „Ég hafði samt ekki fundið neina verki eða samdrætti sem er vaninn þegar um fyrirburafæðingar er að ræða. En það er víst einnig einkenni á leghálsbilun sem orsakast m.a. af keiluskurðum að það koma engir samdrættir. Þetta gerðist allt svo hratt. Þegar ég kom síðan í aðra leghálsmælingu eftir viku var leghálsinn búinn fullstyttast og farinn að opnast eins og hann er í byrjun fæðingar. Okkur var sagt að það væru miklar líkur á að ég myndi fæða fljótlega. Ég var strax lögð inn á meðgöngudeildina og mátti bara liggja. Fyrsta nóttin var ótrúlega erfið. Ég var í herbergi með konu sem var gengin fulla meðgöngu. Það var bara eitt tjald á milli okkar og meðan hún talaði um barnið sem hún væri að fara að eignast við gestina sína, var ég dauðhrædd um að ég væri að fara að missa barnið mitt. Ég var á því tímabili meðgöngunnar að lífslíkurnar voru ekki miklar ef það myndi fæðast þarna.“

Við tók mánaðarlega í sjúkrarúminu hjá Drífu. „Ég trúi því varla svona eftir á, hvað þetta var stuttur tími sem ég lá þarna, mánuður er ekki svo langur tími þannig séð. Mér fannst þetta vera óratíma að líða þá. Ég mátti ekkert standa upp úr rúminu nema til að fara á klósettið og þurfti ég að liggja með hærra undir fótunum síðustu vikurnar. Það komu stundir þar sem mig langaði bara helst að fæða strax og svo var ég auðvitað að deyja úr samviskubiti yfir því að hugsa svona. En það var bara svo erfitt að liggja kyrr svona lengi. Ég fékk aðeins að fara í hjólastól upp á vökudeild þar sem þau sýndu mér tækin sem barnið mitt þyrfti að vera í fyrstu vikurnar.“

Fæddist í 29. viku

Drífa segir að þegar dóttir þeirra fæddist hafi það ekki verið svo mikið sjokk þegar hún hafi verið sett í hitakassa á vökudeildinni. „Við vorum svo vel undirbúin eftir að hafa verið þarna í heilan mánuð í algerri óvissu. Hver dagur sem hún hélst inni í maganum jók lífslíkur hennar. Læknarnir voru alltaf að hrósa mér fyrir það hve jákvæð ég var. En ég var dauðhrædd hvern einasta dag um að hún kæmi alltof snemma og var viðbúin því að það gæti verið sá dagur sem ég myndi missa hana. Ég vissi að ef hún næði að vera inni í 28 vikur værum við komin yfir mestu áhættuna og lífslíkurnar strax betri. Ég var því bara þakklát fyrir hvern einasta dag sem hún hélst inni.

Hún fæddist síðan eftir 29. vikna meðgöngu. Þegar hún fæddist heyrði ég hana gráta en það sýnir heilbrigði svo mér fannst gott að heyra í henni. Ég var samt svo ótrúlega hrædd og átti erfitt með að róa mig niður. Við fengum að sjá hana örstuttu eftir að hún fæddist og leyfði læknirinn okkur að koma aðeins við hana með nokkrum fingrunum áður en hann fór með hana upp á vökudeild.“

Uppi á vökudeild var dóttir þeirra tengd við alls konar tæki og fékk öndunaraðstoð með síblásturstæki. „Það er kannski skrýtið en ég varð svo róleg þegar ég sá hana liggja þarna tengda við öll þessi tæki. Kvíðinn sem hafði verið á meðgöngunni um að missa hana var farinn og ég var bara svo glöð að sjá hana heila á húfi. Þarna var hún svo í 2 mánuði þangað til við gátum farið með hana heim.“

Saumur við leghálsinn

Drífa segir að dóttir sín sé alheilbrigð og þetta hái henni ekki í dag. „Hún var mjög létt sem ungbarn og seinni til að byrja að ganga en það er eðlilegt með fyrirbura. Hún var einnig með astma fyrstu tvö árin en hann hvarf svo. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því hve heppin ég var. Ég las einmitt skýrslu frá þessu ári, árið 2005, og sá hve margar konur hefðu misst barnið sitt út af leghálsbilun, það var aðal orsökin.

Þegar Drífa gekk með næsta barn sitt var fylgst vel með henni og var settur saumur við leghálsinn til þess að styrkja hann. „Sú meðganga var reyndar líka styttri en eðlilegt er. En hún náði samt upp í 37 vikur og er það talið vera vegna saumsins sem settur var í til að halda leghálsinum saman. Dóttir mín átti við öndunarörðugleika að stríða við fæðingu og var því sett í hitakassa en þar var hún bara í nokkra klukkutíma þangað til hún fékk að koma til okkar í Hreiðrið. Daginn eftir gátum við síðan farið með hana heim.“

„Ég veit að ég er mjög heppin miðað við margar aðrar konur sem hafa fengið leghálsbilun. Ég held að dóttir mín væri ekki á lífi í dag ef Hildur Harðardóttir læknir hefði ekki verið á vakt þegar ég kom í skoðun og tekið þetta svona alvarlega. Við ákváðum líka að skíra dóttur okkar í höfuðið á henni.“