Stúdentar Markviss fjármálalæsiskennsla er ekki hluti af námsefni hér.
Stúdentar Markviss fjármálalæsiskennsla er ekki hluti af námsefni hér. — Morgunblaðið/Eyþór
Fjármálalæsi er ákaflega mikilvægt. Ekki síst í núverandi árferði. Margir komast að því við lok starfsævi sinnar að þrátt fyrir reglulegan sparnað nægir hann ekki til að tryggja áhyggjulaust ævikvöld. En þangað til hringja engar viðvörunarbjöllur.
Fjármálalæsi er ákaflega mikilvægt. Ekki síst í núverandi árferði. Margir komast að því við lok starfsævi sinnar að þrátt fyrir reglulegan sparnað nægir hann ekki til að tryggja áhyggjulaust ævikvöld. En þangað til hringja engar viðvörunarbjöllur. Flest okkar byrja ekki einu sinni að leiða hugann að lífeyri fyrr en fólk í kringum okkur, foreldrar eða systkini, reynir það á eigin skinni. Og þá er oft of seint í rassinn gripið að hefja lífeyrissöfnun. Sama má segja um skuldasöfnun. Engar viðvörunarbjöllur hringja fyrr en í óefni er komið.

Markviss fjármálalæsiskennsla er enn sem komið er ekki hluti af námsefni nemenda á Íslandi. Við lærum allt um það hvernig Snorri Sturluson lifði og dó (sem er gott og vel) en þegar kemur að áhrifum vaxta, verðbólgu og verðtryggingar á líf okkar, svo dæmi séu tekin, fá Íslendingar falleinkunn. Segja má að undanfarið hafi íslenska þjóðin öðlast ígildi meiraprófs í hruntengdri þjóðhagfræði. Almenningur er nú sjóaður í notkun hugtaka eins og verg landsframleiðsla, heildarskuldir þjóðarbúsins og skuldatryggingarálag. En samt sem áður skortir grunninn.

Góðar ákvarðanatökur í fjármálum er grundvallarfærni sem hægt er að læra. Það er áríðandi að fólk skilji fjármál sín til hlítar, taki upplýstar ákvarðanir, sníði sér stakk eftir vexti og öðlist þannig áhyggjuminna líf. Skortur á fjármálalæsi hefur veruleg neikvæð áhrif á, ekki bara efnahag einstaklinga, heldur einnig á almenn lífsgæði. Aukið fjármálalæsi skilar sér í betri ákvarðanatöku einstaklinga í fjármálum og bættum lífskjörum. Aukið fjármálalæsi stuðlar að stöðugleika, sterkara fjármálakerfi og aukinni hagsæld. Fjárhagsleg velferð einstaklinga er þannig beintengd efnahagslegri framþróun þjóðarinnar.

Fjölmargar þjóðir hafa komið auga á þetta og stuðla markvisst að því að auka fjármálalæsi þegna sinna. Nýsjálendingar hófust handa árið 1993, í kjölfar mikilla efnahagsþrenginga, við skipulagða uppfræðslu almennings í fjármálalæsi. Breska fjármálaeftirlitið eyðir um 10 milljónum punda á ári í sjálfbærar aðgerðir til að bæta fjármálalæsi þegna drottningar. Í bandaríska fjármálaráðuneytinu hefur sérstakt embætti fjármálalæsis starfað síðan 2002 og í byrjun árs 2008 var sett á laggirnar sérstakt ráðgjafaráð forseta Bandaríkjanna í fjármálalæsi.

Mikilvægi eflingar fjármálalæsis á Íslandi hefur líklega aldrei verið meira en einmitt nú. Spyrja má hvort skortur á fjármálalæsi hafi átt þátt í því efnahagshruni sem orðið hefur á Íslandi, en hitt er víst að bætt fjármálalæsi verður að koma til í þeirri uppbyggingu sem framundan er.

Breki Karlsson er forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi og vinnur að eflingu fjármálalæsis Íslendinga.