Kaupfélag Stjórn og varastjórn Kaupfélags Skagfirðinga ásamt kaupfélagsstjóra, aðstoðarkaupfélagsstjóra og vígslubiskupi fyrir framan Auðunnarstofu, en kaupfélagið skilaði um tveggja milljarða króna hagnaði í fyrra.
Kaupfélag Stjórn og varastjórn Kaupfélags Skagfirðinga ásamt kaupfélagsstjóra, aðstoðarkaupfélagsstjóra og vígslubiskupi fyrir framan Auðunnarstofu, en kaupfélagið skilaði um tveggja milljarða króna hagnaði í fyrra.
Eftir Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Á aðalfundi Kaupfélags Skagfirðinga á dögunum kom fram að hagnaðurinn af rekstri samstæðunnar á síðasta ári nam um 2 milljörðum króna.
Eftir Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Á aðalfundi Kaupfélags Skagfirðinga á dögunum kom fram að hagnaðurinn af rekstri samstæðunnar á síðasta ári nam um 2 milljörðum króna. Eru það mikil umskipti frá árinu 2008 þegar tap var á rekstrinum upp á þrjá milljarða. Tókst því með rekstrinum á liðnu ári að ná til baka um tveimur þriðju af halla hrunársins.

Fyrir afskriftir og fjármagnsliði var rekstrarafkoma 3,3 milljarðar á árinu 2009 sem er nokkuð hærra en 2008. Þá var heildarvelta samstæðunnar á tímabilinu 21,8 milljarðar. Eigið fé var í lok árs 12,9 milljarðar króna og hafði því hækkað um 2,4 milljarða milli ára.

Heildarlaun um 600 starfsmanna fyrirtækisins, ásamt launatengdum gjöldum, voru um 4 milljarðar á liðnu ári.

Umsvifamikið félag með langa sögu

Kaupfélag Skagfirðinga á sér langa sögu og er einn af aðalatvinnuveitendum svæðisins.

Það var í apríl 1889 að Kaupfélag Skagfirðinga var stofnað af fulltrúum bænda úr Skagafirði og Bólstaðarhlíðarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Á upphafsárum félagsins var það einkum vörupöntunarfélag bænda sem þá seldu enskum sauðakaupmönnum fé á fæti og fengu fyrir greiðslu í gulli.

Kaupfélagið lét reisa húsið Uppsali (Aðalgötu 21) árið 1904 þar sem verslun og önnur starfsemi félagsins var til húsa. Mjólkursamlag var stofnað 1935 og hefur starfað alla tíð síðan. KS stofnaði Fiskiðju Sauðárkróks 1955 og Útgerðarfélag Skagfirðinga 1968 en fyrirtækin voru sameinuð 1989. Hraðfrystihúsin á Sauðárkróki og í Grundarfirði voru síðar keypt og fyrirtækin hafa verið rekin saman undir heitinu Fiskiðjan Skagfirðingur hf.

Fiskiðja Sauðárkróks, Hesteyri ehf. ásamt Vís keypti meirihluta hlutafjár í Skagstrendingi 2004. Ætlunin er að fyrirtækin starfi sameiginlega í framtíðinni undir nafninu FISK Seafood.

Fyrirtæki Kaupfélagsins gera út Hegranes SK 2, Klakk SH 501 og Málmey SK 1.

Á Sauðárkróki rekur kaupfélagið eitt stærsta sláturhús landsins þar sem einnig fer fram nokkur kjötúrvinnsla. Kaupfélagið starfrækir einnig Fóðursmiðjuna í Vallhólmi sem framleiðir og selur fóðurblöndur fyrir landbúnað.

Kaupfélagið á einnig hlut í fyrirtækjum eins og Vörumiðlun ehf. og gagnamiðlunarfyrirtækinu Fjölneti ehf. Félagið á og rekur vöruhúsið Skagfirðingabúð, Verslunina Eyri, áburðarsölu, varahlutaverslun og innflutningsverslun. Á Hofsósi og í Fljótum er kaupfélagið með útibú og veitinga- og verslunarþjónustu í Varmahlíð.

Starfsmenn KS og tengdra fyrirtækja í Skagafirði eru hátt á fimmta hundrað og má því á ætla að um helmingur Skagfirðinga hafi sína framfærslu af störfum fyrir Kaupfélagssamstæðuna.

Afkoma kaupfélagsins

» Hagnaður af rekstri Kaupfélagsins um 2 milljarðar árið 2009. Rekstrarafkoma 3.3 milljarðar fyrir afskriftir og fjármagnsliði.
» Eigið fé jókst um 2,4 milljarða í 12,9 milljarða.
» Kaupfélagið og fyrirtæki í eigu þess sjá um helmingi Skagfirðinga fyrir atvinnu.
» Reksturinn á sér um 120 ára sögu.